Leita í fréttum mbl.is

Er glóra í rafbílavæðingunni?

Rafbílavæðing landsins virðist vera drifin áfram af tilfinningasemi ákafamanna í umhverfismálum sem taka lítt mið af kaldri skynsemi. Miklu skal fórna fyrir afar óverulegan árangur til minnkunar á losun koltvísýrings, sem í þokkabót er ekki til skaða fyrir líf á jörðinni nema síður væri. Engir tilburðir eru til þess að reikna út alla kostnaðarþætti rafbílavæðingar heldur er ákaft hvatt til þess að almenningur kaupi rafbíla með því að fella niður allar skattaálögur á kaupum og notkun rafbíla. Aðeins þannig fást sumir almennir bílaeigendur til að kaupa slík farartæki, sem nýtast í mörgum tilvikum afar illa.

 

Kaupendur rafbíla þurfa ekki að greiða vörugjald sem er 25% af litlum bílum né virðisaukaskatt auk sömu gjalda á flutningskostnað. Því ætti að bæta við um 60% í sköttum á söluverð þeirra til þess að gæta jafnræðis gagnvart kaupendum t.d. lítilla bensínbíla. Þá greiða rafbílar ekkert til vegakerfisins sem eigendur bensín- og dísilbíla greiða með skatti á eldsneyti. Skattarnir nema um 60% af útsöluverði eldsneytis eða um 140 kr. pr. lítra. Rafbílaeigendur greiða heldur ekki árleg bifreiðagjöld sem nema um 110 þús kr. á ári fyrir stóra bíla en gjaldið er miðað við magn útblásturs koltvísýrings.

 

Rafbílar eru þannig ekki aðeins gjaldfríir á vegum landsins meðan önnur ökutæki eru skattlögð í bak og fyrir heldur er þeim hyglað með niðurgreiddum hleðslustöðvum.

Fyrir dyrum eru átök í fjölbýlishúsum vegna kröfu rafbílaeigenda um að húsfélögin komi hleðslustöðum upp í sameignum.

 

Dæmið lítur nokkuð öðruvísi út ef keyptir eru svokallaðir tvinnbílar, þ.e. sem ganga fyrir rafmagni auk bensíns eða dísilolíu. Gefinn er mjög myndarlegur skattaafsláttur á slíkum bílum þó að öllum nema trúarofstækismönnum í loftslagsmálum sé ljóst að kaupendur slíkra bíla eru fyrst og fremst að nýta sér skattaafsláttinn. Sama gerðu þeir sem fluttu inn bensínbíla með metantanki en settu aldrei metan á bílana nema til að sýnast enda reynist metan óhagkvæmt eldsneyti á einkabíla og fer í þokkabót illa með mótorana.

 

Nýlegt dæmi af eiganda tvinnbíls er sláandi. Maður á Selfossi kaupir sér lúxusjeppa - tvinnbíl. Hann hefur eflaust vitað af því að hagnaður hans fólst í lækkun á kaupverði vegna niðurfellingar skatta og opinberra gjalda en bensínkostnaður yrði nokkuð hinn sami enda reyndist það rétt. Bílinn kemst að Kömbunum (20 km) á rafmagnshleðslunni en vegna þyngdarauka bílsins vegna þungrar rafhlöðunnar eyðir hann meira bensíni. Á köldum dögum dugar rafmagnshleðslan enn skemur. Krafturinn í rafhlöðinni minnkar einnig með vaxandi aldri bílsins.

 

Ef stóri draumur loftslagsofstækismanna rætist og allur bílaflotinn verður rafmagnsdrifinn er ljóst að ekki verður unnt að gefa áfram afslátt af sköttum og vegagjöldum. Með einhverjum hætti verður að standa undir samneyslunni og vegagerðinni. Og hver á að borga fyrir förgun á stóru og baneitruðu rafmagnsgeymunum sem knýja bílana áfram? Ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir þessum kostnaði hérlendis eins og konan sem hafði sjálf flutt inn rafmagnsbíl fékk að reyna. Hún var í rétti þegar bifreið hennar eyðilagðist í árekstri. Hún fékk nýjan rafmagnsbíl frá tryggingarfélagi tjónvaldsins en sat uppi með ónýta flakið og var rukkuð um 700.000 krónur í förgunargjald.

 

Munu eigendur rafbíla sjálfir greiða fyrir förgun rafgeymanna þar sem þeir greiddu ekki förgunargjöld við kaup bílanna eða verða eigendur annarra bíla sem ekki nutu skattfríðinda látnir borga brúsann? Hjá Úrvinnslusjóði sem annast förgun spilliefna fást aðeins þau svör að lausn á þessu hafi ekki fundist. Því er með öllu óljóst hver borgar kostnað af förgun rafmagnsbíla sem þegar eru komnir á göturnar. Þeir skipta frekar þúsundum en hundruðum.

Förgunarkostnaðurinn verður eflaust ekki svona hár þegar þúsundum rafmagnsgeyma verður eytt á ári. Ljóst er þó að kostnaðurinn verður gríðarlega hár, sennilega 4-5 milljarðar á ári, miðað við eðlilega endurnýjunarþörf þegar draumurinn fagri hefur ræst. Ekki má gleyma því að þessir rafmagnsgeymar eru hættulegir, t.d. í árekstri og meðhöndlun vegna háspennu, en einnig kemur fyrir að þér springa í loft upp og geta valdið stórslysi og íkveikju.

 

Ef markmið Parísarsamkomulagsdraumóramanna mun rætast og enginn útblástur á lofttegundum frá bílum verður fyrir hendi mun heildarútblástur frá mannheimum hérlendis minnka um 4%. Ef við tækjum nýlega mælt útstreymi frá Kötlu í Mýrdalsjökli með í dæmið færi þetta niður í rúmt 1%. En ef við tækjum allt útstreymi allra eldstöðva, jarðhitasvæða á Íslandi og eðlilegs niðurbrots lífrænna efna með í reikninginn væri þetta vart mælanlegt í eðlilegri hringrás lofttegunda andrúmsloftsins, sem mun vera samansett úr 78% köfnunarefni, 21% súrefni en ýmsar lofttegundir skipta með sér þessu eina prósenti sem eftir er.

 

Hlutfall koltvísýrings mun núna vera 0,041% en hefur mælst 15 sinnum hærra í sýnum frá fyrri tímum jarðsögunnar. Hér má gjarnan koma fram að því aðeins má kalla koltvísýring gróðurhúsalofttegund vegna þess að garðyrkjumenn dæla þessari hollu lofttegund gjarnan inn í gróðurhús sín til að auka vaxtahraða plantnanna og verður ekki meint af. Engin raunveruleg vísindi geta sýnt fram á að þessi lofttegund hafi nein áhrif á hitastig jarðar - ekki vottur af sönnun eins og Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði sagði að mér áheyrandi.

 

Að lokum þetta. Rafmagnsdrifin ökutæki eru engin nýlunda í heiminum. Menn hófu þegar um miðja næstsíðustu öld að þreifa sig áfram með þannig farartæki. Rafmagnsbílar eru því með hátt í tveggja alda þróunarsögu að baki og hafa samt ekki komist á hærra stig en raun ber vitni. Þeir verðskulda ekki að með þeim sé borgað svo þeir standist samkeppnina við aðra bíla. Sjálfsagt er að láta þá eins og önnur ökutæki keppa á jafnréttisgrundvelli um bestu lausnina fyrir mannkyn.

Þessi færsla birtist í Morgunblaðinu 5.desember 2018


Bloggfærslur 6. desember 2018

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 192247

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband