Leita í fréttum mbl.is

Gallar kvótastýrðra fiskveiða

 Vegna athugasemda við síðasta bloggið mitt datt mér til hugar að birta hér grein sem ég skrifaði um galla í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi okkar árið 2001 eða fyrir 13 árum. Greinin var of löng til birtingar í blöðum og hefur því legið niðri í skúffu. Kannski hefur einhver gaman að því að lesa hana núna:

"Einn helsti vansi umræðunnar um stjórn fiskveiða er sá að yfirleitt er gengið út frá því að kvótastjórnun fiskveiða sé hagkvæm aðferð til að skammta aðgang að takmarkaðri auðlind. Vandinn sé aðeins hvernig úthluta beri aflaheimildum (kvóta). Þess vegna sé aðeins tekist á um það hvort leggja beri af gjafakvótakerfið og úthluta kvótum í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi eða hvort réttur sé skilningur LÍÚ, að sameiginleg auðlind Íslendinga, fiskimiðin, sé í raun orðin einkaeign fáeinna útvalinna manna - sægreifanna.

Kvótastjórnun hefur, að mati undirritaðs, reynst með öllu ótæk og hefur haft slæmar afleiðingar fyrir efnahag landsins undanfarin 15 ár. Hún hefur haft af þjóðinni tugmilljarða króna í útflutningsverðmætum árlega, hún veldur þjóðfélaglegu ranglæti, hún hefur valdið hruni í fiskistofnum við landið og hún er að leggja af sjávarbyggðir um land allt með skelfilegu eignatjóni fyrir einstaklinga og þjóðfélagið allt.

Auk þess slitnar þráðurinn milli landsins og þjóðarinnar þegar byggðirnar leggjast af. Þegar fólk fer að setjast aftur að, kannski eftir áratugi, í landshlutum, sem nú eru að leggjast í auðn vegna þess að undirstaða afkomunnar þar - aðgangur að fiskimiðunum, er kominn í einkaeigu forréttindastéttar, mun það fólk ekki hafa tengsl við 11 alda sögu byggðarlaganna, ekki tengsl við landið, miðin og örnefnin eins og ef búsetan hefði verið samfelld. Hluti af þjóðararfinum mun glatast..

 Kvótakerfið, aflamarkskerfið, hefur fallið á prófinu á öllum sviðum: Það uppfyllir ekki skilyrði um félagslegt réttlæti, þjóðhagslega hagkvæmni, verndun lífríkis og fiskistofna - það er að rústa byggðir í landinu, skerða þjóðararfinn, það er að skemma eftirsóknarvert mannlíf um land allt - mannlíf sem gerir Ísland auðugra og skemmtilegra, jafnt fyrir Íslendinga sem erlenda ferðamenn.

 Unnt er að leiða auðskiljanleg rök að því að kvótastjórnun sé afleit aðferð til að stjórna fiskveiðum, jafnvel þó gætt væri jafnræðis við úthlutun kvóta. Því má líkja við náttúruhamfarir að gjafakvótakerfið var innleitt. Með því var óhemju auðæfum, kannski 400-500 millörðum króna, úthlutað til örfárra aðila, sem verja kerfið með kjafti og klóm. Átökin um gjafakvótann skyggja á alla almenna galla kvótastjórnunar en þeir eru margir og alvarlegir

 Í ljósi þess hve mikið er í húfi fyrir þjóðina er illt hve erfiðlega hefur gengið að fá fram opna og heiðarlega umræðu um fiskveiðistjórnunina. Umræðan byggist mikið á yfirborðslegum slagorðum hagsmunaaðila eins og LÍÚ, sem leyfir sér jafnvel að ógna þeim sem telja sér skylt að taka þátt í umræðunni með rökum og staðreyndum. Málflutningur LÍÚ er skiljanlegur og hann er hættulegur. Þeir eru að verja verðmætin sem þeir fengu úthlutað vegna skammsýni stjórnmálamanna og ráðgjafa þeirra.

 Öllu alvarlegri er málflutningur manna, sem ýmist tjá sig af mikilli vanþekkingu og/eða af undirlægjuhætti gagnvart firnasterkum hagsmunaaðilum. Gengi manna innan stjórnarflokkanna og hjá ýmsum ríkisstofnunum virðist oft byggjast á viljanum til að styðja gjafakvótakerfið. Andstæðingar þess eiga ekki upp á pallborðið og eru jafnvel látnir gjalda þess.

Ýmsir gallar kvótastjórnunar eru þeir sömu hvort sem kvótarnir eru framseljanlegir (gjafakvótakerfi) eða með takmörkuðum rétti (t.d. sólarlagsákvæðum). Eins eru ýmsir gallar framseljanlegra veiðiréttinda sambærilegir hvort sem veiðirétturinn byggist á aflamarki (kvóta) eða sóknarmarki (t.d. veiðidögum, tegundum veiðarfæra, veiðisvæðum o.s.frv.). Með úthlutun framseljanlegra veiðiréttinda er verið að afhenda fyrstu kynslóð veiðiréttarhafa arð af veiðum allra þeirra sem á eftir koma, þ.e. að skuldsetja sjávarútveginn með því að færa fjármagn út úr sjávarútveginum eins og hér gerist með vaxandi þunga.

 Helstu almennir gallar kvótastýrðra fiskveiða

 *Ósveigjanleg kvótasetning. Kvótasetningin verður alltaf ónákvæm vegna þess að þekkingin til að ákveða hæfilega veiði er alls ekki fyrir hendi. Þrátt fyrir hæpnar forsendur krefst kerfið þess að heildarkvótinn sé ákveðinn fyrirfram og að við hann sé staðið svo að kvótaeigendur geti skipulagt veiðar sínar til að ná sem mestri hagræðingu, þó að í ljós kunni að koma að ástand fiskistofna beri ekki þá heildarveiði sem kvótasetningin gerir ráð fyrir.

 Trúverðleiki kerfisins byggist á því að ekki sé hróflað við kvótasetningunni á veiðiárinu. Ef hætta væri á niðurskurði mundu útgerðarmenn kappkosta að veiða kvótann tímanlega þó að annað væri hagkvæmara. Til þess að verða ekki hengdir fyrir óvarlega kvótasetningu hafa umsjónarmenn kerfisins ríka tilhneigingu til að fara mjög varlega í kvótasetningu og þar með fer þjóðin á mis við tekjur af afla sem ellegar hefði fengist. Þetta eitt dugar til að gera að engu hagræðingu sem kvótasinnar telja kerfið leiða af sér.

 *Brottkast og rjómafleyting. Brottkast afla hefur alls staðar reynst fylgifiskur kvótastjórnunar. Ætti kannski að segja flugfiskur kvótakerfisins eins og íslenskir sjómenn kalla hann? Flugfisk kalla þeir afla sem er dreginn inn fyrir stjórnborð en flýgur út þvert í bak vegna þess að ekki er til kvóti fyrir honum eða hann er ekki nákvæmlega eins og markaðurinn borgar best fyrir þá stundina.

 Lengi vel afneituðu sægreifarnir og þjónustulið þeirra brottkastinu en viðurkenna nú smá brottkast þó að lítið sé gert úr því og því haldið fram að brottkast sé eðlilegt öllum fiskveiðum. Útúrsnúningur af þessum tagi er til marks um að niðurstaða í fiskveiðistjórnun getur ekki byggst á rökræðum við þessa menn. Þeir eru ónæmir fyrir rökum. Brottkast er mjög mikið á Íslandsmiðum. Þekktur aflaskipstjóri telur brottkastið kannski nema 200.000 tonnum árlega. Þó að brottkasatið væri aðeins þriðjungur þess er það miklu meira en nóg til þess að hugsanleg hagræðing af kvótastjórnun hefur skolast fyrir borð.

 Í aflamarkskerfi er hvati til að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Hinum verður alltaf hent þó að sett verði veiðilögga í hvert skip með eftirlitsmyndavélum. Slíkt kerfi yrði mjög dýrt og nánast óframkvæmanlegt á smærri veiðiskipum. Einnig fyndust fljótt leiðir til að svindla á eftirlitinu.(Eftir að þetta var skrifað birti sjónvarpið og Mbl mjög afgerandi fréttir um brottkast. Því verður varla neitað lengur)

 *Hliðartegundir ofveiddar eða hent. Kvótastjórnun veldur augljóslega aukinni sókn í fiskstofna sem ekki eru kvótasettir með hættu á ofveiði. Hætta er á því að lögð sé óhófleg áhersla á hliðarafla þegar hann er ekki kvótasettur. Þegar fiskstofnar sem hafa flokkast til hliðarafla er hinsvegar kvótasettur eins og t.d. hefur gert nú með keilu, löngu og ýsu í aflamarkskerfi smábáta er augljós hvati kominn til brottkasts. Þeir sem halda stíft fram kostum kvótastjórnunar virðast ganga út frá því að unnt sé að stjórna hverju sinni hvaða fisktegund bítur á krókinn eða slæðist í netið. Aðeins í veiði uppsjávarfiska, síldar, loðnu, kolmunna, er unnt að stjórna að mestu hvað kemur í veiðarfærin. Í kvótastjórnun eru báðir kostir slæmir; að kvótasetja hliðarafla eða ekki.

 *Verðfall í hafi. Lítill gaumur hefur verið gefinn að brottkasti afla sem þegar hefur verið gert að og jafnvel verkaður um borð veiðiskipanna. Ef verðfall verður á fiskimarkaði áður en komið er með aflann að landi er augljós hvati til að henda slíkum afla fyrir borð til að fórna ekki verðmætum kvóta fyrir verðlítinn fisk. Undirritaður veit meira að segja dæmi þess að fryst fiskflök í neytendapakkningum hafi farið fyrir borð af þessum ástæðum. Áhöfn frystitogarans hélt sér saman enda féllu hagsmunir hennar að hagsmunum útgerðarinnar. Það er eins gott að kunna að halda kjafti til að missa ekki plássið. Annað togskip fékk fullunna vöruna í vörpuna.

 *Kvótasvindl. Mikill hvati er til að svindla á kvótakerfinu enda gert í stórum stíl. Sjómenn flaka fisk um borð og lauma í land í skjóli nætur. Þeir sem þekkja sjómenn hafa aðgang að slíkum fiski sem sjómenn ýmist selja ódýrt eða gefa. Gjafir eru aldrei ókeypis, því "æ sér gjöf til gjalda". Slægðum fiski er landað sem óslægðum. Þá hefur verðmiklum fisktegundum verið landað sem verðlitlum; þorskur t.d. gefinn upp sem ufsi. Talað er um tvöfaldar pakkningar fyrstitogaranna, þorskpakkningum t.d. pakkað inn í karfapakkningar. "Ufsinn" í gámum breytist í þorsk í útlöndum. Mesta hættan er auðvitað á þessu í smábátakerfinu. Fjöldinn gerir eftirlit þar erfitt.

 

*Léleg nýting verksmiðjutogara . Lítill hvati er fyrir vinnsluskip að nýta að fullu veiddan afla. Þar sem kvóti frystitogaranna er miðaður við landaðan afla er augljóst að ekki borgar sig að verja miklum fjármunum við að hámarka nýtinguna í vinnslunni nema þegar fiskerí er tregt. Í landvinnslu skiptir nýtingin hinsvegar sköpum fyrir afkomu vinnslustöðvrinnar. Mikilvægara er fyrir eigandann að fylgjast með fínstillingum á vinnsluvélunum en að vasast á skrifstofunni. Sennilega er nýtingin í frystitogurum aðeins um þriðjungur þess sem gerist í lönduðum, óunnum afla. Þarna eru miklir hagsmunir þjóðarinnar í húfi en fást aldrei skoðaðir nema við uppærðar aðstæður.

 *Of eða vannýting miða . Kvótastjórnun beinir veiðunum þangað sem von er á verðmætasta fiskinum, t.d. stórum hrygningarþorski. Önnur mið eru að sama skapi vannýtt þó hagkvæmt væri fyrir heildarhagsmuni landsins að þau séu nýtt. Veiðar þar geta skilað góðum árangri miðan við sóknareiningu en skila lakari árangri á aflaeiningu (fiskurinn of verðlítill fyrir dýrmætan kvóta).

 Þarna má t.d. benda á þorskinn í Breiðafirði sem hefur verið vannýtt auðlind. Í honum er töluvert af ormi(vegna vannæringar?) og hann er minni (vegna of mikillar samkeppni um takmarkaða fæðu?) og því síðri til vinnslu en þorskur í Faxaflóa. Sennilegast myndi þorskurinn í Breiðafirði batna við meiri veiði þar. Mikil veiði þar gæti þýtt eitthvað minna fiskimagn en verðmætari fisk og því meiri arð, jafnt miðað við aflamark sem sóknarmark. Svör við svona spurningum eru mikilvæg.

 *Skekkja í gögnum. Vegna brottkasts, kvótasindls, misnýtingar fiskimiðanna og lélegrar nýtingar aflans um borð í frystitogurum fá vísindamenn og fiskveiðistjórnin rangar upplýsingar um veiðiálagið á fiskstofnana sem bætir við vanda þeirra við að meta fiskstofna og þolmörk veiðistofna. Sá vanda er þó ærinn fyrir. Þetta verður þeimmun alvarlegra sem afneitun kerfisins er meiri. Í sóknarstýringu fiskveiða fengist miklu réttari mynd af raunverulegri veiði. Þar þarf enginn að fela glæpinn.

 *Hrun fiskistofna. Þar sem kvótastjórnun hefur verið beitt við fiskveiðar hefur orðið hrun í fiskistofnun þvert ofan í ytfirlýsingar þeirra sem hafa hag af því að verja kvótakerfið. Kvótastjórnun hefur ekki tekist að byggja upp sterkari fiskistofna. Þvert á móti. Þetta er reynslan hér á landi, þetta er reynslan a Nýja Sjálandi og í Kanada. Hérlendis hefur landaður botnfiskafli dregist saman um 40% frá því sem hann var fyrir daga kvótakerfisins. Í Nýja Sjálandi hafa fiskstofnar einnig hrunið eftir að fiskveiðar þar voru settar undir kvótastýringu. Í Kanada var kvótakerfi aðallega notað til að stjórna fiskveiðum á austurströndinni. Þar hrundi þorskstofnin algjörlega og var veiðum á honum hætt 1992.

 

Athyglivert er að hugleiða að ekkert hrun fiskstofna fyrir daga kvótakerfa í heiminum nálgast að vera sambærilegt við hrunið mikla í Kanada. Deila má um hvaða þættir valda mestu um hrun fiskistofnanna. Benda verður á margar ofangreindar ástæður svo sem brottkastið, slaka nýtingu verksmiðjurtogara, kvótasvindl, skekkju í gögnum, slaka nýtingu fiskmiða þar sem veiðistofnar eru ýmist ofveiddir eða vannýttir. Reglan virðist sú að kvótastjórnun fer að hafa afgerandi áhrif á minnkun fiskistofna eftir um áratug.

 Vannýting leiðir til þess að fiskurinn sveltur, dánartíðnin hækkar og sjálfsátið eykst. Alvarlegur misskilningur er að halda að fiskur geymist í sjónum. Aðrir fiskar éta megnið af þeim fiski sem ekki verður sjálfdauður, yfir 90% á sumum hafsvæðum þar sem samkeppnin við sjávarspendýr er minnst. Sjávarspendýr taka til sín um þriðjung þar sem þau ganga harðast fram.

 Fiskveiðar nema víðast um eða innan við 10% af því magni fiskstofna sem ekki verður sjálfdauður. Fiskar, sjávarspendýr og fuglar taka 90% víðast hvar. Meira að segja í Norðursjónum þar sem miklar áhyggjur hafa verið um ofveiði taka keppinautar okkar mannanna um veiðina 2/3 hluta hennar!

 Vert er að hugleiða að lífkerfi hafsins er "dýnamískt" Með því að tvöfalda veiðiálagið er ekki endilega verið að eyða fiskistofnum, heldur kannski fækka sjálfdauðum, ýta undir nýliðun vegna meira fæðuframboðs, minnka sjálfsátið og þörf fisks sem er búinn að ná mestri stærðaraukningu fyrir viðhaldsfóður, taka frá fuglum og sjávarspendýrum o.s.fr. Grundvöllur lífs í hafinu eru svif og þörungar. Framboðið á þeim stendur undir öllu æðra lífríki sem við erum að nýta í samkeppninni við ofantalda aðila sem fá lang mest í sinn hlut.

 Margar breytur gera samspilið í hafinu mjög flókið. Fiskar sömu tegundar éta ekki sömu fæðuna, litlir eða stórir. Seiðin geta aðeins unnið á minnstu fæðuögnum, stærri fiskar éta m.a. seiðin. Viðkoman er alls ólík því sem við sjáum á landi. Þorskhrygna getur klakið út 100 milljón eggjum á æfinni. Tveir einsaklingar af þeim þurfa að ná sama aldri og hún sjálf til þess að hrygningarstofninn standi í stað í hennar fjölskyldu.

Úr þessarri fjölskyldu mega sem sagt 99.999.998 einstaklingar farast áður en þeir ná aldri ættmóðurinnar án þess að það hafi áhrif á hrygningarstofninn Til að standa undir fiskveiðunum þurfum við að taka til okkar 10-20 afkvæmi hrygnunnar. Við eigum að nýta náttúruna skynsamlega og skoða hana vel en ekki láta hræða okkur með ógrunduðum dómadagsspám.

 *Ófullnægjandi vísindi. Ótrúleg kokhreysti er að reyna að ákveða nákvæmlega veiðiþol fiskstofna fram í tímann. Enginn þarf að efast um vilja sérfræðinga hafrannsóknarstofnunar til að gera vel. Við höfum orðið vitni ítrekað að mistökum þeirra. Við því er ekkert að gera nema að skapa þeim góð skilyrði, heilbrigða samkeppni og vona að vísindin eflist. Vísindi þurfa sjálfstæði gagnvart hagsmunaaðilum. Hafró nýtur ekki slíkra skilyrða. Stofnunin er undir stjórn manna sem hafa hag af því að verja gjafakvótakerfið. Hafró má ekki vera valdatæki. Við verðum að gera okkur grein fyrir takmörkum vísindanna.

Lífið í hafinu og víðáttur þess eru flóknara en vísindin ráða nú við. Þessvegna er fráleitt að reyna að stjórna veiðunum á grundvelli mjög takmarkaðrar vitneskju. Minnir á lærdómsmenn miðalda, sem töldu sig getað reiknað fjölda púka í helvíti eða árafjöldann frá sköpun heimsins á grundvelli biblíunnar. Meðan við vitum ekki betur er reynslan bestu vísindin. Reynslan sagði okkur að veiðarnar eins og þær voru fyrir daga kvótakerfisins gáfu mun meiri veiði en nú eftir 17 ára kvótastjórnun. Sjávarútvegurinn fyrir daga kvótakerfisins glímdi við margs háttar vanda og eðlilegt að þjóðin leitaði nýrra leiða til að nýta helstu uppsprettu þjóðartekna. Nú er hins vegar löngu orðið ljóst að kvótastýring fiskveiða var ekki framför í sjávarútvegi og hefur stórkostlega skaðað þjóðina og löngu tímabært að leita nýrra lausna.

 Hér að ofan hefur verið fjallað um helstu galla sem eru sameiginlegir allri kvótastjórnun fiskveiða. Gallar fiskveiðistjórnun með framseljanlegum kvóta eins og við búum við eru margir gamlir kunningjar úr umræðunni:

 Helsu gallar framseljanlegs kvóta

 *Þjóðfélagslegt ranglæti. Skoðanakannanir sýna að allt að 85% þjóðarinnar eru á móti kvótakerfinu vegna þess að augljóst er með hvaða hætti það mismunar Íslendingum til að nýta sameiginlega auðlind. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið hunsuðu dóm Hæstaréttar um að þessi mismunun sé óheimil og í andstöðu við stjórnarskrána. Ekki þarf að efast um þjóðhagslega óhagkvæmni óréttlætis. Óréttlæti veldur spennu og elur á sundrungu og upplausn. Óréttlát mismunun veldur reiði og firringu; vilja þeirra sem verða undir til þess að ná sér niðri á þjóðfélaginu sem getur leitt af sér glæpi og jafnvel vímuefnaneyslu til að bæla niður vanlíðan sem menn ráða ekki við.

 *Samsöfnun kvóta. Með framseljanlegan kvóta fá matadorar fjármálalífsins undirtökin í sjávarútveginum. Ókeypis kvótaúthlutun í upphafi gaf forskot í samkeppninni um kaup á kvóta. Kvótinn færist því sífellt á færri hendur og heilu byggðarlögin verða háð geðþóttaákvörðunum aðila sem hafa aðra hagsmuni en íbúar þar.

 *Byggðaröskun. Vegna einkaeignar á kvóta er unnt að svipta grundvelli undan heilu sjávarbyggðunum eins og hefur verið að gerast allt umhverfis landið. Þessir bæir eru að deyja þrátt fyrir hagkvæma legu gagnvart fiskimiðunum og vilja íbúanna til áframhaldandi búsetu ef framtíðarhorfur væru fullnægjandi.

 

*Óverðskuldaður gróði. Þeir sem eru fyrir "tilviljun" vel staðsettir þegar úthlutun aflaheimilda fer fram geta selt rétt sinn sem verður mjög verðmætur. Einstaklingur hefur gengið út úr atvinnugreininni með marga milljarða króna fyrir sölu á einkarétti til nýtingar sameignar þjóðarinnar. Með úthlutun framseljanlegra veiðiréttinda er verið að afhenda fyrstu kynslóð veiðiréttarhafa arð af veiðum allra þeirra sem á eftir koma. Sjávarútvegurinn er skuldsettur með færslu fjármagns út úr sjávarútveginum með vaxandi þunga.

 *Skuldasöfnun - verri lífskjör. Skuldasöfnun útgerðarinnar eykur skuldir þjóðarinnar erlendis sem skerðir kjör hennar. Fleiri krónur af útflutningi fara í vaxtagreiðslur og af sjálfu sér leiðir að færri krónur fást til að kaupa vörur og þjónustu fyrir þjóðina erlendis.

 *Nýliðun hindruð. Erfitt er fyrir nýja menn að vinna sig upp innan greinarinnar. Verðmæt tækifæri glatast til að fá ferska strauma inn í atvinnugreinina. Nýir, ákafir og öflugir menn brydda oft upp á nýjungum sem geta leitt til áður óþekktra sóknarfæra. Lífríkið umhverfis Ísland er eflaust mjög illa nýtt miðað við það sem gæti orðið. Starfsmenn risafyrirtækja eru síður líklegir til að sjá ný sóknarfæri en eigendur sem eru á vettvanginum eins og sagan sýnir.

 *Hagkvæmni einkarekstrar skerðist. Eigendur fiskiskipa sem sjálfir stýra skipum sínum fara betur með en jafnvel samviskusamir starfsmenn. Framseljanlegur kvóti leiðir til samsöfnunar kvóta sem aftur leiðir til óheppilegrar samsetningar veiðiflotans. Matadorinn á auðveldara með að stjórna hagsmunum sínum í gegnum stór verksmiðjuskip en fjölda smábáta, jafnvel þó að þeir séu þjóðhagslega hagkvæmari.

 Kvótasinnar telja sjávarútveginn best kominn í höndum þeirra sem hafa frjálst spil til að safna til sín veiðiheimildum. Þeir segja að stór hluti þjóðarinnar muni svo í raun eiga fyrirtækin og þar með fiskimiðin í gegnum hlutabréfakaup ýmist beint eða í gegnum lífeyrissjóði þegar matadorarnir bjóða hlutabréfin föl.

 Almenningur á sem sagt að kaupa fiskimiðin til baka frá matadorunum, sem hafa fénýtt upphaflegan gjafakvóta og skattakerfið til að eignast einkarétt til að nýta (og þar með eiga) sameign þjóðarinnar. Kvótasinnar hafa spáð því að allar veiðiheimildir muni safnast á 2-3 hendur.

 Af hverju ekki aðeins í eitt fyrirtæki? Ef sameign þjóðarinnar væri betur komin í eign almenningshlutafélags heldur en þjóðarinnar allrar af hverju þá hreinlega ekki að stofna almannahlutafélag um fiskimiðin sem allir Íslendingar ættu og stjórna þessu hlutafélagi allra Íslendinga með stjórn sem allir Íslendingar kysu í sérstakri atkvæðagreiðslu (kosningum)?

 *Verri vistfræði. Vegna tilhneigingar eignakvótakerfis til að nýta veiðiréttinn með stórum togveiðiskipum skapa veiðarnar verri kost fyrir vistkerfið en ef fiskurinn væri að mestu sóttur með minni skipum með kyrrstæðum veiðarfærum - á öngla, í net eða í gildrur. Vísbendingar benda til þess að togveiðarfæri fari illa með lífríkið - sérstaklega hafsbotninn. Norðmenn hafa bannað allar togveiðar þar sem enn eru kóralrif sem ekki hafa verið eyðilögð. Vísindamenn eru að vakna til vitundar um að kóralrifin séu lífríkinu afar mikilvæg. Hvað með annað landslag hafsbotnsins?

 Spurning er hve mikið drepst af fiski sem sleppur út um möskva vörpunnar og hve mikið líf fer forgörðum við hnjaskið. Króka- og gildruveiðar virðast hafa afgerandi vistfræðilega yfirburði. Fiskur veiðist helst á öngla þegar hann er svangur vegna fæðuskorts. Þá er einnig mikilvægast að veiða hann áður en hann verður sjálfdauður eða að stærri félagar hans, sem einnig eru svangir, éta hann.

 Olíunotkun á hverja aflaeiningu er margföld í togveiðum miðað við veiði smábáta. Munurinn getur verið allt að tuttugufaldur á hagkvæmustu trilluveiðum og verksmiðjutogurum. Fyrir utan betri arð útgerðarinnar og þjóðfélagslegt hagræði af minni olíuneyslu við veiðarnar væri minni olíunotkun verðmætt innlegg Íslendinga í minni losun gróðurhúsalofttegunda. Á kvótatímabilinu hefur olíunotkun á hverja aflaeiningu meira en tvöfaldast á sama tíma og tækniframfarir hafa á öðrum sviðum leitt til orkusparnaðar. Aukinn kvóti annars staðar í atvinnulífinu til losunar kolsýru út í andrúmsloftið gæti verið mjög verðmætur.

 *Verra mannlíf. Flestir sem stunda sjó mundu kjósa að róa á minni veiðiskipum, trillum eða landróðrabátum, jafnvel þó að tekjurnar væru minni en á stórum togurum. Ef tekjurnar væru í þokkabót meiri eins og sterkar vísbendingar eru um ef smábátaveiðar fengju að keppa á jafnréttisgrundvelli við stórútgerðina, þarf vart að efa hvað flestir sjómenn mundu velja. Tækniframfarir í smábátaútgerð hafa verið gífurlegar undanfarin ár. Velbúin trilla er orðin miklu öflugra og öruggara vinnutæki en áður þekktist. Smábátaveiðum fylgir skemmtilegra mannlíf og betra fjölskyldulíf en rekstri stórra togveiðiskipa sem eru að veiðum langtímum saman.

 *Meiri erlendur kostnaður. Stórútgerð kostar margfalt hærri erlenda fjárfestingu á bak við hvert starf en smábátaveiðar, jafnt í skipakosti, tækjum, veiðarfærum sem og rekstrarvörum og eldsneyti. Með stórútgerð er í raun verið að flytja störf tengd sjávarútvegi til annarra landa, í skipusmíðastöðvar, til tækjaframleiðenda og olíuframleiðsluríkja. Olíuverð er nú sennilega mjög lágt miðað við það sem það getur orðið. Íslenskur sjávarútvegur verður í miklum vanda ef olía hækkar skyndilega og tækifæri gefst ekki til að komast fljótt í hagkvæmari smábátaveiðar.

Mjög öflugur iðnaður var að skapast hérlendis í tækjasmíði (t.d. fullkomnum handfærarúllum) og smíði smábáta, sem voru að ná athygliverðum árangri á heimsvísu. Aukin smábátaútgerð mundi hleypa nýju lífi í þennan iðnað. Viðhaldsvinna smærri veiðiskipa er auðveld og hagkvæm hérlendis en viðhald stóru togskipanna færist í auknum mæli til erlendra aðila. Góður árangur hefur náðst hérlendis í veiðarfæraiðnaði tengdum stórútgerð með miklum útflutningi. Engum dettur til hugar að útgerð stórra togara eigi eftir að hverfa þó að hlutfallslegt vægi þeirra gæti eitthvað dalað nema ef stóru togskipin gætu ekki staðist samkeppni við smábátana á jafnréttisgrundvelli. Þá er heldur ekki eftir neinu að sjá.

 *Erfitt að breyta til. Einn alvarlegasti galli aflamarkskerfis með framseljanlegum kvóta er hve erfitt er að fara úr kerfinu ef í ljós kemur að það dugar illa til að stjórna fiskveiðum. Á þessu erum við Íslendingar heldur betur að brenna okkur. Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða er þó ljós í myrkrinu. Þar segir m.a.: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Tveir dómar Hæstaréttar eru einnig mikilvægir, Valdimarsdómurinn og Vatneyrardómurinn. Í fyrri dóminum segir hæstaréttur að ekki sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni að mismuna Íslendingum um aðgang að (nýtingu á) sameiginlegum fiskimiðum. Í seinni dóminum segir rétturinn að Alþingi geti breytt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar og verður ekki annað skilið að þetta sé unnt að gera skaðabótalaust. Ofurtök kvótaeigenda í stjórnmálalífi landsins eru þarna hinsvegar mikill Þrándur í götu og sú staðreynd að íslenskir stjórnmálamenn eru vanir því að látast stjórnast af sérhagsmunaöflum frekar en almannahagsmunum.

 Vegna meiri eftirspurnar eftir gæðafiski, tækniframfara, frjálsra fiskmarkaða, frjálsrar útflutningsverslunar með fiskafurðir, betri samgangna, meiri þekkingar í fiskverkun og nýtingu á sjávarfangi, sem áður var vannýtt, hafa verðmæti af sjávarútvegi ekki dregist saman á þessum tíma. Þessar framfarir hafa orðið þrátt fyrir kvótakerfið en ekki vegna þess. Hefði kvótakerfið ekki komið til er sennilegt að botnfiskveiðarnar gætu verið a.m.k. 300 þúsund tonnum meiri árlega. Þorskafli á Íslandsmiðum árið 1953 til 1983 nam að meðaltali 420.000 tonnum. Undanfarinn áratug hefur hann aðeins numið helmingi þess. Afli 200 þús tonna af þessum verðmæta fiski hefur glatast árlega.

 Aflaverðmæti glataða aflans, vannýting og brottkast, gætu numið a.m.k. 30-40 milljörðum króna árlega, útflutningsverðmæti gætu numið 40-50 milljörðum króna. Kannski erum við að tala um miklu stærri upphæð ef grunur minn er réttur en það er seinni tíma mál. Margfeldisáhrif frá tekjum í þessum undirstöðuatvinnurekstri þjóðarinnar yrðu gífurleg. Þjóðartekjur á mann yrðu í einu af efstu sætum í heiminum. Viðskiptahallinn gæti lagast verulega sem og erlendar skuldir þjóðarinnar á skömmum tíma með skynsamlegri efnahagsstjórn.

 Kanadíski fiskihagfræðingurinn Parcival Copes, prófessor emeritus við Simon Fraser University í BC, sem lengi hefur haldið uppi hvassri gagnrýni á kvótastýrða fiskveiðistjórn heldur því fram að einn af fáum kostum slíks stjórnarkerfis t.d. í botnfiskveiðum sé aukin hagræðing í fiskiskipaflotanum til skamms tíma ef kvótinn er framseljanlegur. Hann telur að starfsfélagar hans sem aðhyllast kvótakerfi einblíni of mikið á þetta eina atriði sem næst aðeins með þeim fráleita fórnarkostnaði sem gjafakvótakerfinu fylgir. Hér gerðist hinsvegar það furðulega að þessarar hagræðingar gætti alls ekki. Þvert á móti stækkaði flotinn verulega jafnt að rúmtaki, vélarafli og í fjárfestingu og hafði það gerst áður en Valdimarsdómurinn svokallaði var kveðinn upp þó að látið sé að því liggja að til þess dóms megi rekja að kvótakerfið hafi orðið óhagkvæmara.

Parcival Copes tjáði raunar undirrituðum nýlega að starfsfélagar hans vestra væru sumir farnir að sjá hve kvótastjórnun er gallað tæki og þá alveg óháð því hvort um er að ræða gjafakvóta eða ekki. Enginn þeirra efast hinsvegar um að gjafakvótakerfi er óhagkvæmast og óréttlátast af öllum kvótakerfum. Stiglitz, nýbakaður nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og Becker sem fékk sömu verðlaun fyrir nokkrum árum, báðir afar virtir bandarískir hagfræðingar, hafa gefið íslenska gjafakvótakerfinu falleinkunn í viðtölum við íslenska fjölmiðla. Umsögn þeirra beggja var efnislega samhljóða eftirfarandi við sitt hvort tækifærið: Kerfið gagnast þeim einum sem voru svo heppnir að fá úthlutað kvóta. Undir það tek ég heilshugar!

 Sóknarkerfi hefur yfirburði yfir aflamarkskerfi

 Helsti valkostur í fiskveiðistjórnun við kvótakerfi er sóknarstýring sem getur verið með ýmsum hætti. Færeyingar voru komnir í kvótastýringu eins og við frændur þeirra en þeir báru gæfu til þess að átta sig tímanlega og taka upp sóknarkerfi sem virðist hafa þjónað þeim vel. Mikil umskipti til batnaðar urðu í sjávarútvegi hjá þeim við breytinguna. Fátt hindrar þá nú í að taka upp breytt kerfi ef þeir sjá sér hag í því.

Við Íslendingar ættum að skoða kerfi þeirra en leiða þó hjá okkur alvarleg mistök sem þeir gerðu í að hafa veiðileyfin framseljanleg. Við ættum því að skoða vel sóknarkerfi með svokölluðu lokuðu veiðileyfakerfi með óframseljanlegum veiðiréttindum (Limited Entry Non Transferable Licensing) og auðlindagjaldi af umframarði (auðlindarentu). Rækilega þarf að undirstrika orðið óframseljanlegum. Kanadamenn tóku upp lokað veiðileyfakerfi til þess að ná tökum á laxveiðum í sjó en höfðu veiðileyfin framseljanleg (Limited Entry Transferable Licensing) Notkun LETL-kerfis í stað notkunar LENTL- kerfis varð til þess, að mati Parcival Copes, að eyðileggja árangurinn í laxveiðum Kanada. Vert er að skoða hvernig LENTL-kerfi stendur gagnvart helstu kröfum sem gera á til fiskveiðistjórnunarkerfis. Gera verður þá kröfur til kerfisins að leiðin frá núverandi fiskveiðistjórunarkerfi sé nokkuð greiðfær en það virðist einmitt vera tilfellið. Einnig verður að meta hversu auðvelt væri að fá almenning og sérstaklega þá sem eiga að búa við kerfið til þess að skilja að hagsmunir þeirra gætu legið í því að taka þetta kerfi upp. Helstu kröfur sem gera verður til kerfisins eru eftirfarandi:

 1. Félagslegt réttlæti

 2. Standist stjórnarskrána

 3. Þjóðhagsleg hagkvæmni

 4. Verndun lífríkis sjávar og fiskstofna

 5. Byggðaþróun

 6. Almenn lífsgæði

 7. Aðlögunarhæfni frá núverandi kerfi

 8. Möguleikar til að breyta í nýtt kerfi ef það reynist ófullkomið

Að lokum vil ég leggja áherslu á að hafa verður í huga fyrir hverja fiskveiðistjórnunin er hagkvæm. Arður allra Íslendinga af fiskimiðunum skiptir máli. Tryggja verður að hann dreifist sem best. Jafnvel þó að sýnt yrði fram á að arður fiskveiðifyrirtækjanna væri mestur með lágmarkstengingu við íslenskt efnahags- og atvinnulíf er það í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Eins og horfir í kvótastýrðum fiskveiðum Íslendinga gæti sú staða hæglega komið upp fljótlega að handhafar kvótanna sjái sér mestan hag af því að láta erlent láglaunafólk manna verksmiðjuskipin og að viðhald þeirra færi fram erlendis sem og önnur þjónusta við þau. Aflinn yrði fluttur til vinnslu þar sem vinnuaflið er ódýrast. Veiðiskipin kæmu lítið í íslenska höfn. Þá skiptu heimsins bestu fiskveiðimið þjóðina orðið litlu máli og lífskjörin yrðu að sama skapi verri."

Valdimar Jóhannesson 11.11. 2001

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Jú Valdimar! greinin er ansi löng og blöðin hafa ekki bara guggnað á lengdinni heldur líka efninu og höfundinum og fítonskraftinum í honum. Þú talaðir í Útvarpi Sögu um daginn hjá honum Pétri Gunnlaugssyni um margt og mikið og þarámeðal um íslam og að þú stæðir einn í baráttunni um að koma þeim úr landi þar sem þeir eru í algerri andstöðu við okkar stjórnarskrá. Af hverju eru þeir flóttamenn hér á landi þegar þeir vita að þeir geta ómögulega verið velkomnir af okkur með undantekningu frá vinstri öflum sel á norðurlöndum safna stigum hjá íslamistum til að hafa ef íslamskir terroristar taka völdin. Þetta er lágkúruháttur en er að engisíður þarna. En af hverju koma þeir þá hingað. Það er augljóst mál og hefur alltaf verið að það er verið að jafna jarðveg fyrir enn verri típur sem þó voru svo vitlausir að láta mig sjá þá og gat þá auðveldlega rakið slóð þeirra meðal annars til Noregs. Þessa gaura þekki ég eftir 40 ára veru þarna úti og er hissa á að þeim sé yfirhöfuð sleppt inn í landið. Norsararnir gera það á þeim forsemdum að þá sé léttara að fylgjast með þeim og er það staðfest sem góð aðferð. Og ég er í þínum skoðanahópi svo að þú ert alsekki einn og láttu nafn mitt fljóta með í öllu þessu ef þurfa þykir. Einkennilegt er þó að strákarnir með níðhausinn hafi ekki sent þér línu, en þeir fara nú þessa hefðbundnu leið með "ekkiopinberum" athöfnum og svoleiðis. En það vantar allavega ein skráð samtök sem þá hægt er að nota sem skjöld þegar á þarf að halda.

50 cal.CC°

Eyjólfur Jónsson, 8.10.2014 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 192246

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband