Leita í fréttum mbl.is

Í skammarkróki sögunnar

Þrátt fyrir þrotlausar fullyrðingar útgerðarfurstanna og þjóna þeirra í nær fjóra áratugi um hagkvæmni íslenska kvótakerfisins veit þjóðin betur. Sjónvarpsþættirnir Verbúðin rifjuðu upp þá aðför að hagsmunum almennings sem felst í lögum um fiskveiðistjórnum. Af þeim sem afstöðu tóku í nýlegri viðhorfskönnun lýsa þrír af hverjum fjórum sig andsnúna kvótakerfinu svipað og hefur lengstum verið. Þjóðin veit sem er, að hún á fiskimiðin en fær ekki notið þeirra.  

Ef til vill má afsaka þau mistök að kvótasetja aflann til árs í senn  með fyrstu kvótalögunum árið 1983 (tóku gildi 1984) vegna hugmynda einhverra fiskifræðinga um að fiskstofnar væru í hættu.  Með vissum velvilja mætti segja að fyrstu kvótalögin hafi verið klaufalegt fálm til þess að vinna gegn ímyndaðri ofveiði.

Eindregið var varað við þessari aðferðarfræði þó að hún hafi orðið ofan á. Bent var á að ýmsar sveiflur náttúrunnar væru óhjákvæmilegar og að afkoma fiskistofna réðust afar takmarkað af veiðum heldur skilyrðum í hafinu svo sem fæðuframboði. Ef skortur er á því er til lítils að fjölga einstaklingum. Það leiðir aðeins til aukinna affalla vegna hungurs og rýrari einstaklinga. Ef fiskurinn sveltur þarf að veiða nóg svo fiskurinn sem verður eftir hafi nóg að éta og geti náð kynþroska til að vaxa og fjölga sér.

Aðferðafræði stjórnvalda hefur leitt til minni afla. Þorskaflinn á Íslandsmiðum er aðeins 40% af því sem hann hafði verið áratugum saman fyrir daga kvótakerfisins. Þorskaflinn, sem hefur verið hafður af þjóðinni, samsvarar um 100 milljörðum króna á ári upp úr sjó en meira en tvöfalt hærri upphæð í útflutningsverðmætum fyrir utan afleiddar tekjur hagkerfisins, sem ella skiluðu sér margfalt inn í þjóðartekjurnar. Og þarna erum við bara að miða við þorskinn og ekki að taka tillit til byggðaröskunar.

Stóru ógæfusporin eru fjögur og er að vonum að þeir sem ábyrgð bera á þeim megi gjalda þess í skertum orðstír. Í raun má segja að Alþingi hafi brugðist þjóðinni allar götur síðan fyrsta ógæfusporið var stigið 1983. Jafnt og þétt var stigið út í aukna ógæfu með sífelldum breytingum. Ekki leið á löngu þar til svokölluð sameign þjóðarinnar frá fornu fari var farin að ganga kaupum og sölum meðal þeirra sem fengu veiðiheimildir, eins og hún væri þeirra einkaeign.

Í stað þess að sjá að sér þegar sýnt var að kvótastýring fiskveiða var ógæfuleg vann Alþingi illt verk árið 1990  þegar kerfið var fest varanlega í sessi með framseljanlegum veiðiheimildum. Þá var kvótahöfum í raun afhentir fiskistofnar landsins  þannig að þeir gátu verslað með kvótann, selt, leigt, erft og keypt hann með skattaívilnunum, þannig að almenningur var ekki aðeins rændur frumburðarrétti sínum  heldur einnig látinn borga fyrir kvótabraskið með skattaívilnunum  braskaranna.

Ríkisstjórnin var þá þannig skipuð: Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra  Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra  Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra Guðmundur Bjarnason, heilbrigðisráðherra Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, fjármálaráðherra, Svavar Gestsson, menntamálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon  samgönguráðherra og landbúnaðarráðherra Júlíus Sólnes, umhverfisráðherra, Óli Þ. Guðbjartsson, dóms- og kirkjumálaráðherra.

Öll, sem skipuðu þessar ráðherrastöður eiga skilið að fara í skammarkrók sögunnar nema Steingrímur Hermannssson sem iðraðist gerða sinna og reyndi að bæta um fyrir misgerðir sínar með því að ljá nafn sitt við ávarp til undirbúnings Samtaka um þjóðareign sem voru stofnuð í október 1997 til að berjast fyrir því að þjóðin endurheimti sameign sína.

Þriðja ógæfusporið var að mínu mati hvað stærst en það voru viðbrögð Alþingis við dómi Hæstaréttar Íslands 3.desember 1998 í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu, stundum kallaður Valdimarsdómurinn, sem stafaði ofan í Alþingi hvernig kvótalögin brutu í bága við stjórnarskránna. Dómurinn sýnir að lögin um fiskveiðistjórnina eru í andstöðu við stjórnarskrána og eru því ólög sem ber að nema úr gildi.  

Þeir sem báru ábyrgð á því að hunsa dóm hæstaréttar 1998 voru fyrst og fremst ráðherrar og stuðningslið ríkisstjórnar Davíðs Oddsonar, með Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra og Þorsteinn Pálsson, sem  sjávarútvegsráðherra.

Fjórða óheillaverkið voru svik ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nâðu völdum í febrúar 2009 eftir efnahagshrunið m.a. á grundvelli loforða um að leiðrétta svo reglur um fiskveiðar að kvótinn yrði allur innkallaður á ákveðnu tímabili. Aðstæður til að taka  á málinu þá voru einstakar því að við fall allra bankanna myndaðist kjörið tækifæri til að að gera kvótann verðlausan þeim sem höfðu aflað hans með ósanngirni, - í raun þjófnaði hans frá raunverulegum eigendum, sem voru og eru allir Ísledingar. Veð bankanna í kvótanum voru þá ekki lengur til trafala og enginn vandi að láta útgerðina halda áfram fiskveiðum, - jafnvel með meiri afköstum og auknum tekjum sem þjóðin þurfti svo sannarlega á að halda á þeim tíma.

En ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sveik loforð sín um að innkalla kvótann og gerði ekkert í málinu annað en að hlutast til um að kvótahafar gætu hér eftir sem hingað til setið að hlut þóðarinnar og vélað um og með hann án þess, að þjóðin hafi nokkurn skapaðan hlut með það að gera. Samfylkingin og VG brugðust því hrapalega á örlagastundu. Sama hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert, sem þrátt fyrir andstöðu við kerfið í upphafi stendur nú hvað þéttustu varðstöðuna um kerfið, sem eru dapurleg örlög fyrir stjórnmálaflokk, sem kennir sig við frjáls viðskipti og markaðshyggju, að telja að það sem helst geti orðið til bjargar í fiskveiðimálum, sé að viðhalda miðstýrðu kerfi ráðstjórnar til að skapa útvöldum einokunarstöðu varðandi sameiginlega auðlegð þjóðarinnar.

Þrátt fyrir að þrír af hverjum fjórum Íslendingum lýsi sig jafnan andvígan kvótakerfinu hefur stjórnmálastéttin brugðist aftur og aftur og gengið á gefin loforð við þjóðina. Lög um stjórn fiskveiða stríða enn gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, nánar tiltekið gegn 65. og 75. greinum hennar.

Sú gjá sem er á milli þings og þjóðar í þessu máli er óásættanleg og ólíðandi að fylgi meirihluta þingsins sé stöðugt keypt af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti.

Þjóðin á betra skilið.

 Þessi grein birtist í Mbl í dag, 1. mars 2022


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Takk fyrir frábaeran pistil og svo sannan.

Gleymum ekki fjoldskyldu Halldórs Ásgrímssonar,

hann sá til thess ad mata krókinn fyrir fodur sinn.

Enda Verbúdin margvísad í hann thó nafni hafi verid breytt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 1.3.2022 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 192249

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband