Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Lambið sem sigraði heiminn

Þegar Þorgeir Ljósvetningagoði hafði heimt fé sitt af fjalli um haustið árið 1000 sá hann að hin nýju goð höfðu reynst vel. Féð var vænt og nánast engin afföll. Hann sem hafði verið foringi heiðinna manna en jafnframt lögsögumaður og  æðsti foringi þjóðarinnar gladdist yfir því hve deilur kristinna manna og ásatrúarmanna leystust vel .

Fljótlega barst honum notalegt þakkarbréf frá Sylvester II páfa í Róm. Með því var auglýsingabæklingur frá páfastóli sem upplýsti hverjar væru skyldur en einnig réttindi við aðild að heildarsamtökum kristinna . Páfastóll réði til að mynda yfir banka sem allir kristnir menn væru hvattir til að skipta við. Samkvæmt biblíunni væru greiddar rentur á innistæður en boðað væri að menn ættu að „renta sínar talentur“ .

Þó að Þorgeir væri kominn á sjötugsaldurinn vildi hann taka þátt í nýmælum. Hann lagði því eitt lamb inn á reikning í Vatikan bankanum sem bauð 5% fasta vexti án uppsagnarákvæða. Þorgeir þekkti ekki verðmæti mynta á suðrænum slóðum svo hann samdi við bankann um að innstæðan yrði ávalt reiknuð í lömbum. Án þess að gera sér grein fyrir því sjálfur hafði hann fundið upp verðtryggð bankaviðskipti þúsund árum á undan íslenskum hagfræðingum.

Nokkrum árum seinna þegar Þorgeir andaðist týndist vitneskjan um ininistæðureikninginn í Róm. Lambið hans Þorgeir hafði sem sagt legið á vöxtum í 1011 ár þegar ég fann innleggsnótuna í gömlu bréfasafni afa míns en ég er erfingi Þorgeirs og nú handhafi bréfsins . Viðbrögð Vatikansins þegar ég vildi loka reikningnum og fá hann greiddan út urðu ótrúleg. Fyrst neituðu þeir því að reikningurinn væri til. Þegar það dugði ekki hótuðu þeir mér eilífri útskúfum frá himnaríki.  Ég sagði þeim að þeir hefðu misst umboðið til að bannfæra mig eftir siðaskiptin. Siðan hafa þeir ýmist reynt að bera fyrir sig 36. gr samningalaga eða höfða til miskunsemi minnar. Benedikt XVI, sjálfur páfinn, liggur í símanum til mín kvölds, morgna og miðjan dag!

Það kemur sem sagt í ljós að allt sauðfé heimsins dugar hvergi til að greiða mér út innistæðuna en lambið hans Þorgeirs hefur heldur betur safnað á sig. Samkvæmt reiknitölvu minni er innistæðan nú pr. 1. nóvember sl  2,644,730,110,000,000,000,000 lömb eða til þess að segja þetta í mæltu máli:Rúmlega TVÖÞÚSUND  SEXHUNDRUÐ OG FJÖRTUTÍU MILLJARÐIR MILLJARÐA lamba,  sem svarar til 377 milljarða lamba á hvern jarðarbúa.

Fljótlega eftir að Þorgeir hafði lagt inn lambið sá Vatikanið að verðtrygging í sambland við vexti er óframkvæmanleg og stenst ekki heilbrigða skynsemi.  Með því að skoða innlánsreikning Þorgeirs í 1-2 aldir varð ljóst að vextir mættu í mesta lagi halda í við verðbólgu. Fyrir mörgum öldum fór verðmæti lambsins fram úr samanlögðum auðæfum heimsins.  Enginn bóndi eða afkomendur hans gætu haldið utan um hjörð sem yxi með þessum hætti yfir langan tíma. Eftir tvær aldir væri hjörðin 17500 fjár og óviðráðanleg fyrir eitt bú en um siðskiptin hefði hjörðin afkomenda Þorgeirs verið komin í 450 milljarða fjár og allt beitiland í Evrópu löngu nagað niður í grjót.

Upplýstir menn hafa vitað um aldir að ekkert efnahagskerfi stenst það að vextir séu settir ofan á verðtryggingu. Slík viðkoma fjármuna gleypir öll heimsins verðmæti á skömmum tíma.  Tímans tönn nagar allar eignir; - fjármuni, fasteignir og jafnvel jarðir. Hús ganga úr sér á nokkrum áratugum. Verðmæti lands hækkar eða lækkar eftir ytri aðstæðum. Land sekkur í sæ. Eldsumbrot eyðileggja land. Ísöldin mun snúa aftur, flóð eða eyðimörkin eyða landi og loftsteinar granda landsvæðum. 

Verðtryggða íslenska krónan er fáránleg hugmynd. Hún var réttlætanleg stutt tímabili en hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Engin mynt sögunnar hefur haldið verðgildi sínu frekar en aðrar eignir. Tilbúna sagan um Þorgeir Ljósvetningagoða ætti kannski að gera mönnum ljóst þvílík vitfirring sambland vaxta og verðtryggingar er. Í raun ætti ég að vera þakklátur fyrir að geta sótt lambið hans Þorgeirs til Vatikansins án þess að þurfa að greiða fyrir uppihaldið.

Valdimar H Jóhannesson


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 192237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband