Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heimspeki

Ekki mikið álit á guði

Því ber að fagna að langflestir íslenskir læknar,- á fimmta hundrað talsins, skuli hafa siðferðislega burði til að standa með frumvarpi Silju Daggar, sem er stefnt gegn umskurði sveinbarna á íslandi. Þeir láta það fylgja með yfirlýsingu sinni að umskurn drengja stuðli ekki að betri heilsu né hafi fyrirbyggjandi áhrif og eiga þar sennilega aðallega við hugmyndir um að umskurn bægi frá hættu á meini í getnaðarlim. Þvert á móti valdi þessi aðgerð sársauka og geti leitt til alvarlegra og jafnvel langvarandi fylgikvilla. Læknar sverja við Hippokratis að rækja starfs sitt „umfram allt ekki til skaða“. Það skyldu fleiri gera og þá sérstaklega þeir sem stöðu sinnar vegna geta haft áhrif á framvindu þessa máls.

Læknarnir láta þess ekki getið að fjöldi sveinsbarna deyr eftir þessar aðgerðir. Í Bandaríkjunum einum eru skráð hátt í 200 slík dauðsföll árlega en allir vita að þau eru miklu fleiri. Mikillar viðleitni gætir að skrá aðrar dánarorsakir en umskurðar til þess að fela þessi skammarlegu tilfelli. Ef sveinbarn smitast t.d. af heilahimnubólu í gegnum sárið á limnum þá er heilahimnubólga skráð sem dánarorsök þó að ljóst sé að hann hefði aldrei smitast án þessarar ónauðsynlegu og skaðlegu aðgerðar. Auk líkamlegra afleiðinga kemur svo til andleg kröm, sem umskornir einstaklingar hafa sumir hverjir kvartað undan.

Það þarf ekki að fjölyrða um fjölda dauðsfalla þar sem umskurðir eru gerðir utan spítala af ófaglærðum. Til marks um það er sú regla í gyðingdómi til forna, að hafi foreldrar misst þrjú fyrstu sveinbörn sín eftir umskurn þá þurftu þau ekki að láta umskera þann fjórða. Kannski vilja þeir sem leggjast gegn þessu frumvarpi innleiða í þess stað í lög á Íslandi, að gyðingar og múslímar á Íslandi megi ekki umskera fjórða sveininn ef aðgerðir hafa mislukkast svona leiðinlega með þá fyrstu þrjá!

Andstæðingar frumvarpsins hérlendis láta svo sem að þeir sem styðja frumvarpið séu haldnir gyðingahatri. Gyðingar skilji það svo að að því sé beint gegn gyðingdómnum. Umskurn drengja sé hluti af sáttmála gyðinga og guðs og því væri samband gyðinga við guðdóminn í hættu a.m.k. hér á landi. Ég hef alltaf talið mig vera stuðningsmann gyðinga og hef komið fram sem slíkur. Þessi sjónarmið eru móðgandi gagnvart gyðingum að mínu mati. Ég tel gyðinga fullfæra um að skilja sjónarmið annarra en sjálfra sín. Þeir væru ekki sú frábæra þjóð sem raunin er ef þeir gætu það ekki.

Þá eru þessi lög að sjálfsögðu engin hindrun í því að múslímar jafnt sem gyðingar geti komið til Íslands og búið hér , jafnt umskornir sem heilir, konur sem karlar. Hér er þegar búsettur mikill fjöldi umskorinna karla og kvenna og ekkert sem við getum gert við því nema sýna samúð með þeim vegna þess ofbeldis sem þau máttu þola sem börn og búandi við afleiðingar þess síðan, - fengu ekki að njóta verndar barnasáttmála SÞ eða almennra mannréttinda. Þeir gyðingar og múslímar sem hafa áhyggjur af sambandi við guðdóminn ættu að hafa þess völ sem fulltíða menn að láta umskera sig ef þeir geta fengið lækni til starfans.

Umskurn drengja byggist á gamalli bábilju, - er eins konar blóðfórn sem jafnt gyðingar sem múslímar eiga að taka til endurskoðunar svo ekki sé talað um hina hryllilegu umskurn á múslímskum stúlkum. Það væri ekki merkilegur guð sem klúðraði svo sköpunarverkinu að byrja þarf á að leiðrétta það um leið og það birtist mönnunum. Þeir, sem styðja áframhaldandi umskurn, hafa ekki eins háar hugmyndir um guðdóminn og ég hef, nánast trúlaus maðurinn. - Vinur er sá er til vamms segir.

 

 


Alviturt og algott yfirvald er ekki til

Hrunið á að hafa kennt þjóðinni að alviturt yfirvald, sem gætir með velvild og umhyggju örgyggis og velferðar þjóðarinnar,  er ekki til. Hrunskýrslan gerir okkur hins vegar alveg ljóst, sem margir þóttust raunar vita áður, að stjórnsýslan er öll á ótrúlega lágu plani. Hér er enginn í hlutverki hins alvitra föður sem allt sér, allt veit og gætir að hagsmunum þjóðarinnar nótt og nýtan dag. Stjórnvöld eru skipuð misvitrum mönnum sem margir hafa reynst illa vandanum vaxnir.

Þjóðin verður sjálf að vera í þessu hlutverki. Hún verður að tryggja að hún hafi aðgang að öllum upplýsingum sem hana varðar. Laumuspil er yfirleitt til þess eins að misfara með hagsmuni þjóðarinnar til hagsbóta fyrir sérhagsmuni. Auðvitað geta verið upplýsingar sem varða persónulega hagi fólks og sérstakar aðstæður á hættustund. Almenna reglan á að vera sú að allar upplýsingar á vegum hins opinbera eiga að vera aðgengilegar öllum.

Í starfi mínu sem blaðamaður kynntist ég því hve embættismenn ýmsir höfðu ríka tilhneigingu til þess að reyna að leyna upplýsingum sem vörðuðu almenning. Stundum var þetta leynimakk hlægilegt og bjánalegt en stundum var það alvarlegt og varðaði hag almennings.

Hins vegar kom það fyrir að upplýsingar, sem eðli sínu samkvæmt áttu að fara leynt, láku til vildarvina. Þannig er mér minnisstætt að árin, sem verðbólgan var hve trylltust, vissi ég stundum um gengislækkun með góðum fyrirvara og með nákvæmi upp á aukastafi.  Þegar slíkar upplýsingar voru látnar leka út til vildarvina var verið að gefa þeim tækifæri til gengisgróða sem aðrir höfðu ekki.

Við eigum fulla kröfu til þess að fá að vita allt sem ríkisstjórn og ráðuneyti aðhafast nema í algjörum undantekningartilvikum. Ráðherrar og starfsfólk ráðuneytanna eru í þjónustu þjóðarinnar. Þeir eru þjónar þjóðarinnar en ekki herrar.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla er öflugt tæki gegn spillingu

Mörgum, sem vilja þjóðinni vel, hefur yfirsést hve voldugt tæki þjóðaratkvæðagreiðsla er. Þeim hættir til að vanmeta þjóðina en ofmeta kjörna fulltrúa hennar til þess að komast að „réttri“ niðurstöðu. Í löndum eins og Sviss þar sem mikil reynsla hefur fengist af Þjóðaratkvæðagreiðslu er reynslan mjög góð.

 Þeir sem hafa skoðað stjórnmálasögu Sviss fullyrða að svissneska þjóðin hafi aldrei tekið „ranga“ ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt verður ekki sagt um nokkurt þjóðþing og síst af öllu um Alþingi. Ég minni á alvarleg mistök eins og kvótalögin, lögin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og lögin um Icesave sem voru einmitt felld í þjóðaratkvæðagreiðslu .

Ef unnt yrði að koma rétti þjóðarinnar til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu inn í stjórnarskránna hefur þjóðin fengið mikilsverðan öryggisventil gegn fláráðum stjórnmálaflokkum. Við höfum orðið vitni að því í gegnum tíðina hvernig stjórnmálaflokkarnir hafa endurtekið haft augljósar óskir þjóðarinnar að engu. Þannig hefur krafan um afnám kvótakerfisins, krafan  um jafnan atkvæðarétt og krafan um að landið sé eitt kjördæmi verið hunsuð.

Allir vita að þjóðin hefði aldrei samþykkt óhóflega eyðslu  í svo galnar framkvæmdir eins og Héðins- og Siglufjarðargöng. Ef landið væri eitt kjördæmi myndi Alþingi aldrei detta til hugar að að vinna svo gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar að fara út í svo augljóslega óarðbæra framkvæmd. Þjóðin hefði heldur aldrei sætt sig við fjáraustur stjórnmálaflokkanna í sjálfa sig og sérdræg eftirlaunalög æðstu stjórnmála- og embættismanna.

En Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki aðeins vörn þjóðarinnar gegn voðaverkum sem þegar hafa verið unnin gegn hagsmunum hennar. Hún er refsivöndurinn sem hengi yfir Alþingi alla daga ef fulltrúum þjóðarinnar dytti til hugar að ganga gegn augljósum vilja eða hagsmunum þjóðarinnar vegna vilja til þess að þjóna fjársterkum eða voldugum sérhagsmunaaðilum eins og og við höfum séð þá gera svo lengi og svo margítrekað.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur einnig þann augljósa kost að umræður um málið sem væri deilt um yrði tekið til rækilegrar skoðunar af fjölda fólks út um allt samfélagið. Umræður af því tagi eru mjög hollar og eru einmitt einn höfuðkostur lýðræðisins.

Við höfum ekki efni á því leiðtogaræði sem hér hefur ríkt til fjölda ára. Allir vita að óbreyttur Alþingismaður hefur litla vigt þegar teknar eru ákvarðanir. Þær eru oftar en ekki teknar hjá sérhagsmunaaðilum sem vinna með flokkseigendaklíkum og embættismönnum sem hafa valist til starfa vegna tengsla við sömu sérhagsmuni eða einkavini flokkseigenda.

Spillingu íslenskrar stjórnsýslu þarf einfaldlega að ljúka. Sú krafa þarf að endurspeglast í vali fulltrúa inn á stjórnlagaþingið.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276   

 


Ég á mér draum

Ég var í Bandaríkjunum í apríl 1968 þegar Martin Luther King var myrtur og man nánast jafnvel eftir þeirri stundu þegar ég heyrði fréttirnar og þegar Kennedy var myrtur.  Fyrir fjórum árum þegar ég var staddur í Atlanta gerði ég mér ferð til þess að heimsækja kirkju hans. Ég fékk hjartanlegur móttökur hjá söfnuðinum sem reyndist jafn litblindur og Martin Luther King hafði dreymt um að heimurinn yrði.  Ég sá engan annan hvítan mann í krikjunni en ég var tekinn eins og kær vinur og jafningi.

Ég vil deila drauminum með þessum glæsilega baráttumanni fyrir frelsi og jafnrétti um litblindan heim í þeim skilningi að litarháttur manna skipti engu máli þegar við skilgreinum hverjir þeir eru. Það er ekkert að því að viðurkenna mismunandi hörundslit. Hann er staðreynd en hann segir nákvæmlega ekkert um hvaða manneskju við höfum að geyma. Þess vegna er engin niðrandi merking í því að segja um mann að hann sé indíáni, eskimói, inúíti, svertingi, frumbyggi Ástralíu, kínverji, mongóli, hvítingi eða hvað sem er og skilgreinir lit eða uppruna.

Við eigum hins vegar ekki að hika við að skilgreina menn á grundvelli þess hvernig þeir koma fram við meðbræður sína og hver hugmyndafræði þeirra er.

Og ég vil einnig leyfa mér að hafa draum um fleira eins og virkt frelsi, alvöru jafnrétti og kærleiksríkan heim. Ég vil vinna með öllum sem geta látið þennan draum rætast og gegn öllum sem hindra það að draumur minn geti ræst. Ég vildi gjarnan sjá í íslensku stjórnarskránni texta sem svipar til einnar frægustu setningar á enskri tungu. Hann er ritaður í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og hljómar svona á ensku:

We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness.

Háleitir draumar eru mikilvægir vegna þess að draumar hafa tilhneigingu til þess að rætast. Þegar Martin Luther King dreymdi um litblindan heim horfði ekki vænlega í þeim efnum. Nú 40 árum seinna situr blökkumaður á forsetastóli í Bandaríkjunum og leitun er að litblindara samfélagi. Litblindan sem kannski náði fluginu þar hefur verið að dreifast út um heiminn. Draumurinn mun rætast að fullu fyrr en varir.

Þetta sýnir hvað áríðandi er að Íslendingar láti sig nú dreyma um betra samfélag og að við megum læra af mistökum okkar. Ég held því fram að textinn í sjálfstæðisyfirlýsingunni hafi haft mikil áhrif til góðs ekki eingöngu á bandarískt þjóðlíf heldur einnig á hugmyndir víða um hinn vestræna heim um fagurt og gott mannlíf. Orð eru dýr. Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276   


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband