Leita í fréttum mbl.is

Hvað kæmi í staðinn?

Vörslumenn ranglætisins í gjafakvótakerfinu tönnlast endalaust á því að andstæðingar kvótakerfisins bendi ekki á aðra möguleika til fiskveiðistjórnunar. Slíkt er alrangt.  Margar færar leiðir hafa verið ræddar opinberlega. Bent hefur verið á uppboð á kvótum, færeyska kerfið með breytingum, aflagjald á lönduðum afla ( hvetja má eða letja sókn með breytilegu aflagjaldi) og stýringu með takmörkunum á veiðarfærum, veiðitíma, veiðisvæðum o.s.fr. eða sambland af einu eða fleiru af þessu öllu.

Ein af mörgum hugsanlegum fiskveiðistefnum 

1.  Allir sem búsettir eru á Íslandi mega róa til fiskjar með handfæri með hugsanlegri takmörkun á fjölda handfærarúlla á hvern einstakling. Sömuleiðis er hverjum manni heimilt að veiða fisk í gildrur og önnur sértæk veiðarfæri samkvæmt nánari reglum. 

2.      Uppsjávarveiðum skal stjórnað með aflamarksreglum eins og verið hefur en fyrna skal aflaheimildir á 10 árum. Ríkisvaldið skal bjóða út aflaheimildir í síld, loðnu, makríl og kolmunna um leið og þær hverfa frá núverandi vörslumönnum þeirra.  

3.      Breyta skal öllum aflaheimildum togaranna í sóknareiningar, sem fyrndar verða á 10 árum. Ríkisvaldið skal bjóða út sóknareiningarnar eftir því sem þær heimtast inn. 

4.      Netaveiðum, línuveiðum, úthafsrækjuveiðum og veiðum með dragnót verði stjórnað með lokuðu veiðileyfikerfi með óframseljanlegum veiðiréttindum. Allir sem nú ráða yfir bátum sem henta til þessara veiða fái veiðileyfi sem er gefið til persónu og ber að skila því inn þegar það er ekki lengur nýtt. Því verður úthlutað til einstaklings sem áunnið hefur sér rétt til þess með störfum í sjávarútvegi og menntun til þeirra starfa eftir ákveðnum reglum. 

5.      Skilja skal að rekstur í fiskveiðum og fiskvinnslu.  

6.      Allan afla skal selja á fiskmarkaði  

7.      Aflagjald skal innheimt af lönduðum afla.  

8.      Stjórn sértækra veiða svo sem rækjuveiða innfjarða, skel og heimaveiðar verði meðhöndluð í hverjum flokki sérstaklega eftir því sem við á í samráði við aðila á hverjum stað hverjum , sveitarfélög,fiskverkunaraðila, sjómenn og útgerðarmenn.  

Greinagerð: Gera verður þær kröfur til kerfisins að leiðin frá núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé sæmilega greiðfær en það virðist einmitt vera tilfellið. Einnig verður að meta hversu auðvelt væri að fá almenning og sérstaklega þá sem eiga að búa við kerfið til þess að skilja að hagsmunir þeirra gætu legið í því að taka þetta kerfi upp ( núverandi kvótaeigendur munu að sjálfsögðu sjá þessu allt til foráttu).

Helstu kröfur sem gera verður til kerfisins eru eftirfarandi: 

1. Félagslegt réttlæti

2. Standist stjórnarskrána 

3. Þjóðhagsleg hagkvæmni 

4. Verndun lífríkis sjávar og fiskstofna 

5. Byggðaþróun 

6. Almenn lífsgæði 

7. Aðlögunarhæfni frá núverandi kerfi 

8. Möguleikar til að breyta í nýtt kerfi ef það reynist ófullkomið 

Hafa verður í huga fyrir hverja fiskveiðistjórnunin er hagkvæm. Arður allra Íslendinga af fiskimiðunum skiptir máli. Tryggja verður að hann dreifist sem best. Jafnvel þó að sýnt yrði fram á að arður fiskveiðifyrirtækjanna væri mestur með lágmarkstengingu við íslenskt efnahags- og atvinnulíf er það í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Eins og horfir í kvótastýrðum fiskveiðum Íslendinga gæti sú staða hæglega komið upp fljótlega að handhafar kvótanna sjái sér mestan hag af því að láta erlent láglaunafólk manna verksmiðjuskipin og að viðhald þeirra færi fram erlendis sem og önnur þjónusta við þau. Aflinn yrði fluttur til vinnslu þar sem vinnuaflið er ódýrast. Veiðiskipin kæmu lítið í íslenska höfn. Þá skiptu heimsins bestu fiskveiðimið þjóðina orðið litlu máli og lífskjörin yrðu að sama skapi verri.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er 8276


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig sóknarmark á togarana? X margir veiðidagar á hvern togara miðað við mánuð?

X margir veiðidagar á alla togara miðað við ár?

Þú verður að útskýra betur!

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 17:55

2 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Hallgrímur það er auðvitað ekki mitt mál að útfæra fiskveiðistjórnarkerfi í smáatriðum. Það yrði hlutverk alþingis eða einhvers apparats sem alþingi eða ráðherra skipaði til slíks verks. Þú ert vonandi ekki að gefa til kynna að andleg geta til slíkra starfa sé ekki til í landinu og því yrðum við að halda okkur við kolgeggjað gjafakvótakerfi sem hefur fært okkur síminnkandi afla þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Valdimar H Jóhannesson, 3.11.2010 kl. 18:09

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er mjög góður rammi til að starfa eftir og sýnir að það eru mikil sóknartækifæri ennþá í sjávarútvegi. Fyrir örfáum dögum fylgdumst við í sjónvarpsþætti með heimsókn til fámenns þorps við austanverðan Eyjafjörð. Þar hefur sveitarstjórnin haldið utan um 500 tonna þoskkvóta og þetta er ein af undirstöðum atvinnu í þorpinu.

Við getum hugsað okkur að öll þessi afskekktu sjávarþorp ættu 1000-1500 tonna kvóta sem ekki væri unnt að framselja út úr byggðarlaginu.

Bara þessi litla stjórnsýsluaðgerð myndi glæða ótrúlega mikið líf úti á landsbyggðinni og vekja fólkinu bjartsýni.

Klaufaskapur og stirðvirkni stjórnvalda er orðin mesta plága þjóðarinnar vegna þess að þar sést ekki ennþá fyrir endalokin.

Árni Gunnarsson, 3.11.2010 kl. 18:41

4 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Lang stærstu sóknarfæri Íslands felast í gullkistu landsins en hún felst í fiskimiðunum og kunnáttu fólk út um land allt til þess að nýta hana. Fólkið í sjávarþorpum landsins sem eru að veslast upp eiga kröfu umfram alla íbúa landsins að tekið sé vitrænt og siðrænt á þessum málum. Allir Íslendingar eiga kröfu til þess að "auðlindir sævar ótæmandi bruni" eins og Hannes Hafsteinn vildi um næstsíðustu aldamót. Þannig getum við aftur hafist fljótt og vel til bjargálna. 

Valdimar H Jóhannesson, 3.11.2010 kl. 18:52

5 Smámynd: Júlíus Björnsson

Gaman að hlusta á raddir skynsemi og fyrirhyggju. Því fleiri virkir þátttakendur því meir almenn auðlegð á heimaslóðum.

Júlíus Björnsson, 3.11.2010 kl. 19:04

6 identicon

Kvótakerfið er ekki orsökin fyrir minni veiði á íslandsmiðum.  Þú ættir að vita betur en að halda því fram.  Kvótakerfið gerir ekkert annað en að deila því niður á útgerðir því sem ráðherra ákveður.  Ráðherra fer eftir tillögum frá Hafró.  Hafró fer eftir kenningu sem að ekki stenst líffræðilega.  Það er að  friða smáfisk sem á að stækka og veiðast sem stór fiskur seinna,  án þess að huga að því hvort að nægt æti sé fyrir þennann smáfisk.

Eina vitið er að fylgjast með meðalþyngd botnlægra fiskitegunda miðað við aldur, ef árgangurinn þyngist og lengist hægar en eðlilegt er þá verður auka kvóta, því þá vantar æti, ef þyngdaraukningin og lengingin er eðlileg þá er óhætt að veiða minna og lofa fiskinum að stækka og eldast og verða verðmætari.Hættum að friða smáfisk og veiðum alla flóruna.

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 21:42

7 identicon

Jú Valdimar auðvitað þarftu að geta útfært kerfið þannig að fólk geti gert það upp við sig hvort eitthvað vit sé í þessum tillögum þínum.  það dugar ekki að teikna flotta villu en vilja ekkert vita af undirstöðunni.

Kvótakerfið hefur þann kost að kvóta eigandi getur skipulagt veiðar allt árið og þeir sem eru með veiðar og vinnslu geta afhent vöruna til kaupenda í réttu magni viku eftir viku allt árið og fá betra verð fyrir vikið. Þessvegna eru íslendingar að fá betra afurðarverð en aðrir í þessum bransa, fyrir utan makríl og síld og þú veist hvers vegna það er.

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 23:03

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hverjir eru aðrir? Hvað eru þeir að fá í samanburði? 

Júlíus Björnsson, 3.11.2010 kl. 23:07

9 identicon

Júlíus, ég hafði aðalega Norðmenn í huga en þeir kvörtuðu mjög hér áður fyrr og gera enn yfir lægra verði á afurðum sínum en Íslendingar, þá kom meira en helmingur af afla þeirra í þorski í land á vetravertíð í jan,febog marz.

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 23:21

10 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Hallgrímur og Júlíus, þakka ykkur báðum fyrir innleggið. Mér finnst verðmætt að menn ræði þessi mál með rökum og skynsemi og það er það sem er hér á ferðinni.  Til þess að gera grein fyrir göllum kvótastýrðra fiskveiða þarf að ætla sér meira pláss en hér gefst færi á. Ég á grein upp á 6-7 bls þar sem ég geri grein fyrir helstu göllunum en þær byggði ég m.a. á greinum eftir kanadíska fiskihagfræðinginn Parcival Copes. Þessa grein skrifaði ég fyrir áratug. Ég er ennþá svo nýr á blogginu að ég kann ekki að setja hana hér inn en ég get sent hana þeim sem biðja. Emailið mitt er vald@centrum.is.

Valdimar H Jóhannesson, 3.11.2010 kl. 23:43

11 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Hallgrímur, þú finnur kvótakerfinu aðallega því til ágætis að með því megi skipuleggja veiðar þannig að hæfilegt framboð fyrir fiskmarkaði væri alltaf fyrir hendi. Slíkt mætti jafnvel gera í sóknarkerfi þar sem aflaskipin gætu skipulagt veiðidaga sína í samræmi við eftirspurn og verð á mörkuðum. Þetta hagræði er með gjafakvótakerfinu keypt ansi dýrt ef við ættum að fórna 2/3 hlutum t.d. þorskaflans fyrir þessa hagsmuni, sem unnt væri að ná án þessa fórnarkostnaðs.

Þegar ég efndi til dómsmálsins gegn stjórnvöldum út af gjafakvótanum vakti það eitt fyrir mér að sýna fram á að kerfið stríddi gegn stjórnarskránni, þ.e. 65. og 75. grein, - gegn ákvæðum um jafnræði og atvinnufrelsi.  Þetta tókst. Allir fimm dómarar hæstaréttar voru sammála mér. Mannréttindanefnd SÞ komst að sömu niðurstöðu. Gjafakvótakerfið er því óhafandi. Kvótakerfi sem  væri í samræmi við stjórnarskránna má ekki mismuna Íslendingum með ómálefnalegum hætti, - þ.e. það mætti takmarka úthlutun kvótans eftir reglum sem tæki eins til allra sem sæktu eftir kvótum.

Ég treysti bæði mér og mörgum öðrum til að hanna fiskveiðistjórnarkerfi sem væri bæði réttlátt og skilaði þjóðinni miklu meiri arði en núverandi kerfi gerir. Hér að ofan má sjá hugmyndir um slík kerfi en til þess að gæta allrar sanngirni getur þú ekki ætlast til þess að leggi alveg fullmótuð plan fyrir í minnstu smáatriðum enda þarf þess ekki. Okkur n ægir að vita það núna að kvótakerfið er mjög óhagkvæmt, óréttlátt og siðlaust.

Valdimar H Jóhannesson, 4.11.2010 kl. 00:16

12 Smámynd: Jónas Jónasson

Flott framtak og mjög fínar hugmyndir. Það verður eitthvað að gera.

Ein leið sem mér dettur í hug hvort hægt væri að setja þyngdarkvóta á fiskiskip sem fengju að veiða innan 12 mílna færu aðeins skip undir td 30 tonn og frjálsar fiskveiðar.

frá 12 til 50 mílur fengju bátar frá 30 tonnum upp í 200 tonn 

frá 50 til 200 væru stærri skip að veiða líkt og núverandi kvótakerfi úthlutar.??

Veit það ekki en allir eru sammála um að eitthvað þarf að gera til að koma lífinu í lag út um allt land. 

Auknar strandveiðar og atvinnulíf í Íslenskum fiskiplássum hefðu mjög góðar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu.

Jónas Jónasson, 4.11.2010 kl. 00:40

13 identicon

Valdimar.  Ég hef verið þeirrar skoðunar nokkuð lengi að við þurfum ekki neina stjórnun á veiðum,  þær yrðu bara  frjálsar.  Rökin eru þau að ef veitt er of mikið úr stofnum þá dregst veiði samann útgerðir fara á hausinn og sóknin minnkar við það , fiski stofnar rétta úr kútnum og afkoma þeirra útgerða sem eftir eru batnar.  Þetta er aðeins hægt ef pólitíkin fer ekki að styrkja útgerðina.

Lánastofnanir myndu vanda sig betur við að lána í útgerð, eina veðið væri þá bátur og veiðafæri og aðrar eignir JARÐFASTAR sem útgerðarmenn ættu.

þar með væru allir jafn réttháir til veiða.

Gallinn er sá að það yrði trúlega dýrara að ná í hvern sporð með þessu móti, en kerfið gæti samt náð jafnvægi ef engin handstýring yrði viðhöfð

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 09:32

14 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Jónas þínar hugmyndir gætu vel komið til greina sem grundvallarhugmyndir með eitthvað nánari útfærslu. Málið er nefndilega það að þegar "einkaeign" tiltekinna manna á fiskinum í sjónum lýkur getur þjóðin þróað stjórnkerfi fiskveiða eins og hún telur henta sér best og skipt um stjórnkerfi ef annað stjórnkerfi er talið henta betur og færa þjóðinni meiri björg í bú. Um alla framtíð værum við að þróa stjórnkerfið í stað þess steinrunnna og óréttláta gjafakvótakerfis sem við búum nú viðl. Öflug útgerð báta í allri sjávarbyggðinni umhverfis landið væri sannarlega lyftistöng fyrir ferðamannaþjónustuna um leið og hún væri okkur landsmönnum til ánægju og farsældar. Við þurfum að sjá sama gerast um land allt og hefur verið að gerast í höfninni í Húsavík með sínum hætti á hverjum stað eins og forsendur skapa.

Valdimar H Jóhannesson, 4.11.2010 kl. 10:21

15 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott færsla og vel boðleg leið sem þú leggur til. 8276...skrái það hjá mér :-)

Haraldur Baldursson, 4.11.2010 kl. 10:31

16 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Hallgrímur  þú ert alls ekki einn um þá skoðun að fiskveiðistefna okkar ætti að felast í því "að sleppa að framan og aftan". Ekki ómerkari maður en Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur t.d. látið þau orð falla.

Þó að allar veiðar væru gerðar frjálsar væri engu að síður hægt að stýra veiðunum með ýmsum ráðum. Hækkað eða lækkað aflagjald myndi þannig t.d. minnka eða auka sóknina. Einnig væri unnt að takmarka veiðitímann, veiðisvæðin, veiðarfærin.

Ef við afnæmum gjafakvótakerfið á morgun gætum við sem best leyft frjálsar veiðar í einhvern tíma meðan við erum að skoða hvort við þyrftum  veiðistýringu og hvernig hún ætti að vera. Allir núverandi kvótahafar gætu því veitt sinn kvóta áfram og myndu að sjálfsöðu einnig koma í land með aflann sem þeir henda núna fyrir borð. Auvitað þyrfti að greiða aflaagjald á landaðan afla, ákveðinn aflahlut sem þjóðin fengi, - eigandi auðlindarinnar.

Þar sem öllum væri það ljóst að frjása tímabilið gæti staðið í takmarkaðan tíma myndi hvatinn til að kaupa ný skip vera nánast enginn. Við myndum því nota þann fiskiflota sem nú er til í landinu til að færa okkur stóraukna björg í bú núna þegar allt er í húfi til þess að ná okkur upp úr hruninu.

Valdimar H Jóhannesson, 4.11.2010 kl. 10:42

17 Smámynd: Jón Kristjánsson

Valdimar

Það mætti gera þetta á einfaldari hátt, leggja kerfið niður og gefa veiðar frjálsar. Fiskur hefur verið vanveiddur á Íslandsmiðum um árabil, sem sést á nýliðunarbresti og sífellt lélegri vexti fiska. Þess vegna þarf að veiða meira. Engin yrði hættan enda flotinn orðinn allt of lítill miðað við það sem áður var. Floti mörg hundruð netabáta, sem réru alla vertíðina með 12-14 trossur er nú horfinn. Þá var hvorki hrygningar- né páskastopp og allt var í lagi. - vegna þess að þá var veitt mikið.

Ég skrifaði smá pistil um þessa einföldu lausn. 

Jón Kristjánsson, 4.11.2010 kl. 11:38

18 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Jón

ég er auðvitað alveg sammála þér að besta leiðin út úr gjafakvótakerfinu sem er helsi á mikilvægustu undirstöðuatrvinnugrein okkar, er að gefa fiskveiðar frjálsa um einhvern tíma a.m.k. Handhafa gjafakvótans gætu þá vart gert athugasemdir við það að gjafakvótakerfið yrði lagt af þar sem þeim stæði til boða að veiða am.k. jafnmikinn afla og þeir veiða nú.

Það er hörmulegt til þess að vita meðan við erum í þessum mikla vanda að leiðtogar þjóðarinnar skuli ekki bera gæfu til þess að nýta þær hundruðir milljarða króna sem við gætum ausið upp úr hafinu og bætt þjóðartekjurnar um tugi prósenta.

Við eigum að líta til reynslu liðins tíma. Þar liggur svarið við spurningum um fiskveiðistjórnun. Þá veiddum við hrygningarfiskinn í stórum stíl vegna þess að annað tækifæri gafst ekki til seinna. Þú hefur sjálfur sagt mér að hver hryggna komi 1.2 sinnum til að hrygna. Ef hún er ekki veidd í fyrsta skiptið sem hún kemur eru 80% líkindi á því að hún komi aldrei aftur heldur hverfi í djúpin engum til gagns.

Valdimar H Jóhannesson, 4.11.2010 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 192322

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband