Leita í fréttum mbl.is

Nauðsynlegt að takmarka valdið

Eitt af veigamestu atriðum sem hafa verður í huga við samningu nýrrar stjórnarskrár er takmörkun valdsins. Öllum sem öðlast mikil völd hættir til að misnota þau. Fræg er setningin: Til hvers er að hafa völd ef maður ætlar ekki að misnota þau?

Allir þekkja misnotkun valdsins á Íslandi. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið helstu valdastofnanir landsins og sterkir stjórnmálamenn hafa næstum fengið alræðisvald í gegnum meirihluta stöðu á alþingi og þar af leiðandi getað ráðið yfir ríkisstjórninni einnig. Framkvæmdavaldið og löggjafavaldið hefur því oftast verið í vasanum á 2-3 mönnum hvað sem öllum þingræðishugmyndum líður. Almennir þingmenn sitja gjarnan og standa eins og flokksforingjarnir ákveða enda eins gott að vera ekki með eitthvert múður og komast í ónáð. Vinur minn sem sat á þingi og lét einnig mikið að sér kveða í háskólasamfélaginu sagði mér að þingmennskan væri eitt leiðinlegasta starf sem hann hefði stundað. Dagar og vikur hefðu farið í það að bíða eftir því að ákvarðanir væru teknar af hagsmunaaðilum úti í bæ.

Í þokkabót hafa stjórnmálaflokkarnir misneytt aðstöðu sína til að velja menn til dómsstóla landsins úr sínum röðum og er það auðvitað alltaf bagalegt en sérlega alvarlegt þegar Hæstiréttur á í hlut. Hæstiréttur þarf að vera hafinn yfir allan grun um hlutdrægni. Hæstiréttur skilgreinir réttarreglur landsins og er síðasta vörn borgaranna gagn rangsleitni af ýmsu tagi.

Í raun er það sérhagsmunasamtökin sem hafa ráðið allt of miklu í stjórnsýslu landsins og á alþingi. Hrunskýrslur hafa flett ofan af því sem raunar allir vissu áður að stjórnmálalífið hefur verið meira eða minna í vasanum á peningaöflunum. Alþingi hefur ekki skirrst við að brjóta stjórnarskránna til þess að þjóna þessum öflum. Gjafakvótakerfið er eitt gleggst dæmið um slíkt.

Nú er búið að stafa tvisvar sinnum fyrir Alþingi að gjafakvótakerfið stríðir gegn stjórnarskránni. Fyrst með dómi í máli mínu 1998, svokölluðum Valdimarsdómi og síðan aftur með úrskurði mannréttindanefndar SÞ. Þessar tveir mjög svo afgerandi dómar hafa ekki hreyft svo við Alþingi að kvótakerfinu hafi verið breytt. Enda stafar valdið í raun frá sérhagsmunaöflunum en ekki frá þjóðinni eins og ætti að vera.

Við þekkjum mörg svona dæmi. Gagnagrunnsfrumvarpið var eitt. Það var samið af hagsmunaaðila utan þingsins og sent þinginu til  samþykkt og stimplunar þó að það stríddi m.a. gegn mannréttindaákvæðum í íslenskum lögum, lögum um sjúkling og alþjóðlegum skuldbindingum. Við þekkjum eftirlaunalög sérgæðinga stjórnmálaflokkanna og margt, margt fleira af sama taginu.

Ein helsta hugsun þeirra afburðarmanna sem sömdu stjórnarská Bandaríkjanna var einmitt þessi: Hvernig er unnt að tryggja takmörkun valdsins? Nú er liðið á þriðju öld síðan hún var samin og getur hún því skiljanlega ekki verið algjör fyrirmynd okkar við gerð nýrrar stjórnarskrár. En andinn sem réði vinnunni við gerð stjórnarskrár Bandaríkjanna mætti vera okkur fyrirmynd, - a.m. k. hvað varðar þá hugsun að takmarka valdið, því valdið spillir. Það er eðli þess.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er 8276.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stattu þig strákur!

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 19:41

2 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Stefán

ég tek orð þín sem hvatningu um það að ég eigi að standa mig í því að ná kjöri til stjórnlagaþings. Ég mun leggja mig fram án þess að eyða stórfé til þess.

Valdimar H Jóhannesson, 9.11.2010 kl. 00:20

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein en málið er að hér á landi hafa þessir stjórnmálamenn ekki þessi völd samkvæmt stjórnarskránni heldur fara þeir áfram með frekju og láta engan komast að með hótunum samanber ESB málið. Væri alveg tíl í að sjá þig kosin. Máttu mæla með öðrum líka.

Valdimar Samúelsson, 9.11.2010 kl. 09:41

4 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Valdimar

það skiptir ekki máli hvort við búum við þingbundna stjórn eða stjórrnbundið þing eins og sumir segja að að sé í raun stjórnskipun okkar meðan stjórnmálamenning okkar er á þessu lága plani. Það hefur blasað við áratugum saman að lýðræðið er hér afar bágborið á borði þó að það þykist vera hraust í orð.

Við komust ekkert út úr því fari nema með róttækum breytingum á stjórnarskránni. Með flokkakerfið eins og það er og hefur verið þrátt fyrir fjöldann allan af atrenum til að breyta því þá verður ekki unnt að breyta stjórnmálalífinu nema með nýjum reglum um aðgreiningu valdþáttanna, - framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómsvalds. Þessir valdaþættir sem eiga að takmarka hvorn annan og veita aðhald hafa verið meira eða minna á sömu höndum alla tíð.

Ég mun leggja áherslu á að löggjafavald og framkvæmdavald verði kosið sitt í hvoru lagi, landið verði eitt kjördæmi og tekið verði upp persónukjör í kosningum til alþingis ef ég næði kjöri inn á stjórnlagaþing. Einnig að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri bindandi fyrir alþingi.

Valdimar H Jóhannesson, 9.11.2010 kl. 10:15

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Já ég er sammála þér með það og er búinn að eyrnamerkja þig hjá mér.

Valdimar Samúelsson, 9.11.2010 kl. 11:49

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill Valdimar.

Marta B Helgadóttir, 9.11.2010 kl. 14:00

7 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sæll, mín skoðun er að leiðin liggi í gegnum þjóðaratkvæða greiðslu fyrirkomulag.

En, eitt sem menn gleima sem orsök hér er smæðin. En 63 þingmenn eru allir kunningjar, vegna þess að eftir allt saman eru þeir einungis 63.

Þetta orsakar það að Alþingi er mikið kunningjasamfélag og því verður erfiðlega breytt, nema fólk sé til í að fj. þingmönnum upp í 150 eða 200.

Síðan þegar saman fer að hefðin hér er meirihlutaræði sem orsakar það öllu að jafnaði, að Alþingi er ekki sjálfstæður aðili valdapóll út af fyrir sig, heldur undirokað af framkvæmdavaldinu.

Þá hefur í reynd eina valdið í staðinn, verið huganl. nei forseta.

Fjölmiðlar eru veikir og þar er einnig kunningjasamfélag, nema helst á netinu.

Dómstólar, taka sjaldan ákvarðani í andstöðu við stjórnkerfið.

------------------------

Þetta skilur eftir fólkið sjálft. En mig grunar að smæðin geti einmitt gert auðveldar að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag virka.

En, ef þ.e. svo að t.d. 25þ. undirskriftir geti alltaf fengið fram kosningu um hvaða þingmál sem er, eða stjórnvalds ákvörðun ráðherra. Þá breitist allt.

Þá minnkar vald valdhafanna. Þeir verða að taka tillit til andstöðu minnihluta, eða jafnvel stórs hluta almennings. Ákvarðanir verður ekki lengur hægt að taka, nema að sannfæra þjóðina - með því að rökræða við hana.

Að auki, þ.s. vald þeirra minnkar, þá minnkar líka hvati fjármálaafla til að spilla stjm.mönnum þ.s. ekki er lengur hægt að beita þeim sem leppum til að ná fram einhverju sem kemur tilteknu fyrirtæki fyrst og fremst vel, eða a.m.k. mun erfiðara.

Þetta slær mjög margar flugur í einu.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 9.11.2010 kl. 15:01

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Einfaldasta leiðin til að takmarka möguleika stjórnmálamanna til of mikils valds og drottnunar er að takmarka þann tíma sem fólk má sitja á þingi. Hæfilegur tími teldi ég vera 2-3 kjörtímabil. Að því loknu hefði viðkomandi einfaldlega ekki heimild til að setjast á þing aftur. Nái fólk ekki að hafa áhrif til góðs fyrir samfélag sitt á 8-12 árum á þingi, lagast það alveg örugglega ekki við 20-30 ára setu. Um það höfum við nógu mörg dæmi fram að þessu, því miður fyrir land og þjóð. 

Halldór Egill Guðnason, 9.11.2010 kl. 15:59

9 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Einar

ég er sammála þér um að mikið myndi breytast ef þjóðin fengi það vald að geta krafist þjóðaratkvæagreiðslu um mál sem 10% hennar krefst að séu afgreidd þannig. Vel kann að vera að slíkt úrræði væri full mikið notað í fyrstu sem gerði ekkert til því að þjóðin myndi læra að nota slíkt tæki þegar frá liði. Og það er þjóðin sem á að ráða, - ekki stjórnmálaflokkarnir eða flokksforingjarnir.

Valdimar H Jóhannesson, 9.11.2010 kl. 16:41

10 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Halldór

viissulega kæmi til greina að takmarka þann tíma sem fólk getur setið samfellt á þingi. Ef kosning framkvæmdavalds og löggjafavalds yrði aðskilin væri kannski síður þörf á slíkum takmörkunum en hún væri þó örugglega til góðs. Þingmennska á ekki að vera æfistarf, - heldur frekar markaðst af þörf manna til þess að láta gott að sér leiða í því að bæta samfélag okkar sem þetta land byggir.

Valdimar H Jóhannesson, 9.11.2010 kl. 16:45

11 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hafðu ekki áhyggjur af því, þjóðin myndi smám saman læra að beita því. Að auki myndi hin pólit. stétt einnig læra inn á það, sem einnig myndi fækka tilvikum - þ.s. þeir myndu smám saman fá tilfinningu fyrir því, hvaða mál þurfa frekari umræðu, frekari sannfæringarkraft.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 9.11.2010 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 192374

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband