Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Hvað kæmi í staðinn?

Vörslumenn ranglætisins í gjafakvótakerfinu tönnlast endalaust á því að andstæðingar kvótakerfisins bendi ekki á aðra möguleika til fiskveiðistjórnunar. Slíkt er alrangt.  Margar færar leiðir hafa verið ræddar opinberlega. Bent hefur verið á uppboð á kvótum, færeyska kerfið með breytingum, aflagjald á lönduðum afla ( hvetja má eða letja sókn með breytilegu aflagjaldi) og stýringu með takmörkunum á veiðarfærum, veiðitíma, veiðisvæðum o.s.fr. eða sambland af einu eða fleiru af þessu öllu.

Fiskveiðistefna  Valdimars 

1.      Allir sem búsettir eru á Íslandi mega róa til fiskjar með handfæri með hugsanlegri takmörkun á fjölda handfærarúlla á hvern einstakling. Sömuleiðis er hverjum manni heimilt að veiða fisk í gildrur og önnur sértæk veiðarfæri samkvæmt nánari reglum. 

2.      Uppsjávarveiðum skal stjórnað með aflamarksreglum eins og verið hefur en fyrna skal aflaheimildir á 10 árum. Ríkisvaldið skal bjóða út aflaheimildir í síld, loðnu, makríl og kolmunna um leið og þær hverfa frá núverandi vörslumönnum þeirra.  

3.      Breyta skal öllum aflaheimildum togaranna í sóknareiningar, sem fyrndar verða á 10 árum. Ríkisvaldið skal bjóða út sóknareiningarnar eftir því sem þær heimtast inn. 

4.      Netaveiðum, línuveiðum, úthafsrækjuveiðum og veiðum með dragnót verði stjórnað með lokuðu veiðileyfikerfi með óframseljanlegum veiðiréttindum. Allir sem nú ráða yfir bátum sem henta til þessara veiða fái veiðileyfi sem er gefið til persónu og ber að skila því inn þegar það er ekki lengur nýtt. Því verður úthlutað til einstaklings sem áunnið hefur sér rétt til þess með störfum í sjávarútvegi og menntun til þeirra starfa eftir ákveðnum reglum. 

5.      Skilja skal að rekstur í fiskveiðum og fiskvinnslu.  

6.      Allan afla skal selja á fiskmarkaði  

7.      Aflagjald skal innheimt af lönduðum afla.  

8.      Stjórn sértækra veiða svo sem rækjuveiða innfjarða, skel og heimaveiðar verði meðhöndluð í hverjum flokki sérstaklega eftir því sem við á í samráði við aðila á hverjum stað hverjum , sveitarfélög,fiskverkunaraðila, sjómenn og útgerðarmenn  

Greinagerð:Gera verður þær kröfur til kerfisins að leiðin frá núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé sæmilega greiðfær en það virðist einmitt vera tilfellið. Einnig verður að meta hversu auðvelt væri að fá almenning og sérstaklega þá sem eiga að búa við kerfið til þess að skilja að hagsmunir þeirra gætu legið í því að taka þetta kerfi upp. Helstu kröfur sem gera verður til kerfisins eru eftirfarandi: 

1. Félagslegt réttlæti 

2. Standist stjórnarskrána 

3. Þjóðhagsleg hagkvæmni 

4. Verndun lífríkis sjávar og fiskstofna 

5. Byggðaþróun 

6. Almenn lífsgæði 

7. Aðlögunarhæfni frá núverandi kerfi 

8. Möguleikar til að breyta í nýtt kerfi ef það reynist ófullkomið 

Hafa verður í huga fyrir hverja fiskveiðistjórnunin er hagkvæm. Arður allra Íslendinga af fiskimiðunum skiptir máli. Tryggja verður að hann dreifist sem best. Jafnvel þó að sýnt yrði fram á að arður fiskveiðifyrirtækjanna væri mestur með lágmarkstengingu við íslenskt efnahags- og atvinnulíf er það í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar. Eins og horfir í kvótastýrðum fiskveiðum Íslendinga gæti sú staða hæglega komið upp fljótlega að handhafar kvótanna sjái sér mestan hag af því að láta erlent láglaunafólk manna verksmiðjuskipin og að viðhald þeirra færi fram erlendis sem og önnur þjónusta við þau. Aflinn yrði fluttur til vinnslu þar sem vinnuaflið er ódýrast. Veiðiskipin kæmu lítið í íslenska höfn. Þá skiptu heimsins bestu fiskveiðimið þjóðina orðið litlu máli og lífskjörin yrðu að sama skapi verri.


Stjórnlagaþing

Um árabil hef ég talið nauðsynlegt að íslenska stjórnarskráin yrði endurskoðuð og ákveðnum atriðum breytt sem nauðsynlegt er að breyta. 

Ég tel í fyrsta lagi að við eigum að breyta æðstu stjórn ríkisins þannig að forseti verði kosinn sérstaklega og varaforseti og myndi ríkisstjórn og fari með framkvæmdavaldið. Alþingi verði kosið sérstaklega þar sem landið allt væri eitt kjördæmi og Alþingismaður megi ekki vera ráðherra. Með því er tryggður nauðsynlegur aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdavalds.  Þetta er í grunninn sami háttur og er í Bandaríkjunum.

Þá tel ég nauðsynlegt að þjóðinni verði tryggð yfirráð yfir auðlindum landsins. Ég hef í mörg ár barist gegn óréttlátu kvótakerfi og lagt mikið i sölurnar til að fá því breytt þannig að þjóðin njóti arðsins af kvótanum og jafnræði borgaranna og eðlileg samkeppni verði tryggð varðandi fiskveiðar við Ísland

Þá finnst mér nauðsynlegt að fólkið, þjóðin fái að segja hug sín til mikilvægra mála og þess vegna tel ég nauðsyn að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og að 10% þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðis um mál. Hvort heldur þau eru til meðferðar hjá Alþingi eða ekki.

Þetta og ýmislegt fleira tel ég brennandi að sett verði ákvæði um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af þeim ástæðum hef ég tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér á stjórnlagaþing sem kosið verður þ. 27. nóvember n.k. 

Ég vona að við eigum samleið.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er 8276.


« Fyrri síða

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 26
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 192366

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband