Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þursaflokkurinn

  Enginn með smásnefil af sómatilfinningu og snert af almennu viti getur efast um það að kvótakerfið íslenska stenst ekki almenn siðferðisviðmið. Þegar almennur réttur Íslendinga til að nýta fiskimiðin var tekinn af þeim og færður endurgjaldslaust til þeirra sem af sögulegri tilviljun voru að nýta þau á tilteknum tíma var brotið á öllum þeim sem ekki nutu forréttindanna. Verðmæti upp á 4-600 milljarða króna voru tekin af þjóðinni í heild sinni og færð til nokkurra sem áttu veiðiskip á veiðum á viðmiðunartímanum.

Helsta undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar var sett undir lénsveldis- og einokunarstjórn sem vestrænar lýðræðisþjóðir höfðu hafnað sem óhafandi stjórntæki og þá ekki einungis vegna óréttlætisins heldur einnig vegna efnahagslegra raka. Það er til marks um hvernig umræðan var endlaust rugluð með bulli að talsmenn kvótakerfisins kendu það við frjálsræði og frjálshyggju.

Þjóðin þurfti ekki að glugga í stórnarskrána til þess að átta sig á einföldum sannindum. Hún sá óréttlætið blasa við. Hún sá hvernig lífsbjörgin var smám saman tekin frá sjávarþorpunum allt umhverfis landið og hvernig ævisparnaður fólks gufaði upp þegar húseiginir þess urðu einskis virði þegar grundvellinum hafði verið kippt undan byggðunum.  Hún sá hvernig undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar lokaðist fyrir ungum framsæknum mönnum nema í þjónustu kvótagreifanna. Þjóðin var rænd þeim krafti sem býr í ungum mönnum að brydda upp á nýjungum og breytingum.

Alþingismenn sem báru ábyrgð á því að koma á þessu óréttlæti með sívaxandi fjötrum á árunum 1984-90 og þeir alþingismenn sem ekki hafa staðið fyrir því að afnema kerfið alla tíð síðan þurftu ekki einungis að kæfa niður sómatilfinningu sína og almennt hyggjuvit. Þeir þurftu einnig að láta sem þeir þekktu ekki stjórnarskránna sem þeir hafa þó allir svarið að virða. Vegna þess að þeir þóttust ekki skilja hvernig kvótakerfið braut gróflega gegn ákvæðum 65. og 75. grein stjórnarskrárinnar var gengið í það verk tvívegis að stafa það ofan í þá.

Dómsmál, sem undirritaður efndi til með dyggri aðstoð Lúðvíks Emils Kaaber hdl, hafði þann tilgang einan að sýna fram á stjórnarskrárbrot kvótalaganna. Hæstiréttur staðfesti þetta einróma 4. desember 1998. Dómurinn var skipaður 5 hæstaréttardómurum. Enginn þeirra skilaði sératkvæði. Illa hafði verið spáð fyrir möguleikum þessa máls og talið vonlítið að hæstiréttur myndi dæma gegn svona sterkum hagsmunaaðilum sem augljóslega réðu yfir alþingi Íslendinga. Sennilega hefur þessi dómur þó verið meðal þeirra einfaldari frá lögfræðilegu stjórnarmiði. Lagarökin voru algjörlega ljós. Vandinn gat aðeins legið í pólitískum ítökum í Hæstarétti. Hæstiréttur stóðst þá raun með sóma og jók um stundarsakir traust á íslensku samfélagi.

Allir landsmenn skildu þennan dóm og fögnuðu honum nema sérhagsmunahópurinn og alþingismenn. Skilningsleysi kvótagreifanna var ósköp skiljanlegt en viðbrögð alþingis ollu undrun og vonbrigðum. Alþingi brást við dóminum með því að snúa út úr honum og þóttist ekki skilja hann þó að allir aðrir hefðu gert það. Meðal þeirra voru margir af virtustu lögmönnum landsins og aukinn meiri hluti prófessora Háskóla Íslands sem hafði fyrir því að skrifa undir ávarp ætlað alþingi.

Lúðvík Emil Kaaber lagði síðan hart að sér til að fá Mannréttindanefnd SÞ til þess að taka málið fyrir og vann frækilegan sigur þegar þegar nefndin úrskurðaði að með kvótalögunum hefðu verið brotin mannréttindi á Íslandi.

Hvernig mátti það vera að alþingismenn skildu ekki mannamál né hverjar siðferðisskyldur þeirra voru?  Til þess að átta sig á þessu er nauðsynlegt að leita í þjóðsögunnar. Samkvæmt þeim eru það þursarnir sem eru ónæmir fyrir mannlegum rökum og tilfinningum. Vandinn liggur í því að við höfum kosið þursa til að fara með umboð okkar. Stjórnmálastéttin er skipuð þursum. Fjórflokkurinn er í raun þursaflokkur.

Einhverjir halda eflaust að ég sé að reyna að vera fyndinn. Því fer víðsfjarri. Það er grafalvarlegt mál hvernig þjóðin hefur verið glapin til þess að leita í vaxandi mæli til þessarar manngerðar sem stjórnmálaflokkarnir laða til sín til að þjóna sérhagsmunaöflunum. Það getur ekki verið að þessir menn sjái almenna hagsmuni þjóðarinnar.  Þeir hefðu aldrei fest gjafakvótakerfið í sessi ef þeir hefðu ekki verið siðblindir.

Aðeins þursar gátu fundið upp á gjafakvótakerfinu.

 Aðeins þursar hefðu 1998 snúið út úr dómi hæstaréttar.

Aðeins þursar hefðu ekki brugðist við úrskurði Mannréttindanefndar SÞ en nefndin úrskurðaði að kvótalögin væru brot á mennréttindum og vísaði til sambærilegra greina í Mannréttindanyfirlýsingu SÞ og eru að finna í 65. og 75. grein stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi.

Aðeins þursum myndi detta til hugar að bjóða upp jafn snargalið frumvarp eins og nú hefur verið lagt fram á alþingi undir því yfirskyni að verið sé að koma á móts við réttlætiskröfu þjóðarinnar.

Aðeins þursar myndu neita að sjá hagsmuni þjóðarinnar af réttlátu veiðikerfi sem gæti stóraukið afrakstur af sjávarauðlindinni og endurlífgað verðmætar sjávarbyggðir allt umhverfis landið.

Aðeins þursar eru ómóttækilegir fyrir rökum.

Þjóðin verður að losa sig við þursana. Í því liggur hennar framtíðarheill.

 


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband