Leita í fréttum mbl.is

Þjóðaratkvæðagreiðsla er öflugt tæki gegn spillingu

Mörgum, sem vilja þjóðinni vel, hefur yfirsést hve voldugt tæki þjóðaratkvæðagreiðsla er. Þeim hættir til að vanmeta þjóðina en ofmeta kjörna fulltrúa hennar til þess að komast að „réttri“ niðurstöðu. Í löndum eins og Sviss þar sem mikil reynsla hefur fengist af Þjóðaratkvæðagreiðslu er reynslan mjög góð.

 Þeir sem hafa skoðað stjórnmálasögu Sviss fullyrða að svissneska þjóðin hafi aldrei tekið „ranga“ ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt verður ekki sagt um nokkurt þjóðþing og síst af öllu um Alþingi. Ég minni á alvarleg mistök eins og kvótalögin, lögin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og lögin um Icesave sem voru einmitt felld í þjóðaratkvæðagreiðslu .

Ef unnt yrði að koma rétti þjóðarinnar til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu inn í stjórnarskránna hefur þjóðin fengið mikilsverðan öryggisventil gegn fláráðum stjórnmálaflokkum. Við höfum orðið vitni að því í gegnum tíðina hvernig stjórnmálaflokkarnir hafa endurtekið haft augljósar óskir þjóðarinnar að engu. Þannig hefur krafan um afnám kvótakerfisins, krafan  um jafnan atkvæðarétt og krafan um að landið sé eitt kjördæmi verið hunsuð.

Allir vita að þjóðin hefði aldrei samþykkt óhóflega eyðslu  í svo galnar framkvæmdir eins og Héðins- og Siglufjarðargöng. Ef landið væri eitt kjördæmi myndi Alþingi aldrei detta til hugar að að vinna svo gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar að fara út í svo augljóslega óarðbæra framkvæmd. Þjóðin hefði heldur aldrei sætt sig við fjáraustur stjórnmálaflokkanna í sjálfa sig og sérdræg eftirlaunalög æðstu stjórnmála- og embættismanna.

En Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki aðeins vörn þjóðarinnar gegn voðaverkum sem þegar hafa verið unnin gegn hagsmunum hennar. Hún er refsivöndurinn sem hengi yfir Alþingi alla daga ef fulltrúum þjóðarinnar dytti til hugar að ganga gegn augljósum vilja eða hagsmunum þjóðarinnar vegna vilja til þess að þjóna fjársterkum eða voldugum sérhagsmunaaðilum eins og og við höfum séð þá gera svo lengi og svo margítrekað.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur einnig þann augljósa kost að umræður um málið sem væri deilt um yrði tekið til rækilegrar skoðunar af fjölda fólks út um allt samfélagið. Umræður af því tagi eru mjög hollar og eru einmitt einn höfuðkostur lýðræðisins.

Við höfum ekki efni á því leiðtogaræði sem hér hefur ríkt til fjölda ára. Allir vita að óbreyttur Alþingismaður hefur litla vigt þegar teknar eru ákvarðanir. Þær eru oftar en ekki teknar hjá sérhagsmunaaðilum sem vinna með flokkseigendaklíkum og embættismönnum sem hafa valist til starfa vegna tengsla við sömu sérhagsmuni eða einkavini flokkseigenda.

Spillingu íslenskrar stjórnsýslu þarf einfaldlega að ljúka. Sú krafa þarf að endurspeglast í vali fulltrúa inn á stjórnlagaþingið.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Akkúrat! Sennilega mikilvægasta breytingin, að ofsaríkir aðilar hafi minna gagn af því að spilla stjm.mönnum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 16.11.2010 kl. 12:19

2 Smámynd: Jón Sveinsson

SATT VALDIMAR OG ÉG STIÐ ÞIG TIL SETU Á STJÓRNLAGAÞINGI.

Jón Sveinsson, 16.11.2010 kl. 14:43

3 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Þú ert kominn á listann hjá mér.

Þráinn Jökull Elísson, 17.11.2010 kl. 00:27

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þarna misstirðu atkvæði norðlendinga á einu bretti og gott ef ekki vestfirðinga og austfirðinga.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.11.2010 kl. 03:26

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Það væri margt öðruvísi á Íslandi ef stjórnmálamenn svona almennt, töluðu af slíkri hreinskilni eins þú gerir hér í þessum pistli.  

Marta B Helgadóttir, 17.11.2010 kl. 10:33

6 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Jón

mér finnst þú gera lítið úr norðlendingum og jafnvel vestfirðingum og austfirðingum ef þeir ættu að fælast frá því að greiða mér atkvæði vegna þessarar bloggfærslu. Hvað ætti það að vera sem fældi þá frá?

Valdimar H Jóhannesson, 17.11.2010 kl. 11:49

7 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Jón Sveinsson, þráinn Jökull og Marta

Þakka ykkur fyrir stuðningsyfirlýsinguna. Hún er mér hvatning. Ég vona að sem flestir tali út úr pokahorninu.

Þjóðinni ríður nú á að rífa sig upp úr því óheilbrigða fari sem hún hefur verið í. Við verðum að ræða málin af hispursleysi og finna sáttmála sem er í samræmi við þjóðarviljann. Kjördæmarígur er af hinu illa.

Allir Íslendingar hafa hag af því að allt landið nýtist sem best okkur öllum til góða. Þannig hef ég hag af því að mannlífið sé gott um allt land en það verður að vera á forsendum skynsemi og hófsemi.

Valdimar H Jóhannesson, 17.11.2010 kl. 11:58

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er vestfirðingur og bý á norðurlandi Valdimar. Nú ætla ég ð leyfa þér að geta hvað það er, því ef þú sérð það ekki, þá er nú ekki mikið í þig varið.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2010 kl. 13:07

9 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Jón

ég bendi þér á að lesa bloggfærslu mína Hverjir vilja ekki eitt kjördæmi?.

Ef þú ert á móti því að jafna atkvæðaréttinn og gera landið að einu kjördæmi þá er langt frá því að allir séu sammála þér í þessum landshlutum. Ef það er gagnrýni mín á óarðbærar fjárfestingar sem fer fyrir brjósið á þér þá er ljóst að við eigum ekki samleið. Ég gleymi seint manninum sem hrækti á mig í Ólafsfirði vegna athugasemda minna um fyrirhuguð göng. Ég hljóp ekki saman við þann hráka.

Valdimar H Jóhannesson, 18.11.2010 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband