Leita í fréttum mbl.is

Hláleg verðlaun

Fréttir um að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefði orðið í 2. sæti í vali á Viðskiptamanni ársins hjá Markaðinum, fylgiblaði Fréttablaðsins, eru furðulegar. Mér datt fyrst í hug að þetta væru skammarverðlaun en svo var ekki. Of margir hafa tapað stórfé og sumir aleigunni vegna kaupa á hlutabréfum í deCode til þess að unnt sé að sitja þegjandi undir þessu.

Einn helsti mælikvarði um lofsverðan árangur í viðskiptum hlýtur að vera hvernig hafi tekist að skapa verðmæti án skaða fyrir aðra. Ræningjar og ofbeldismenn  væru seint heiðraðir þó að þeim hefði tekist að raka saman miklum auði með gripdeildum eða blekkingum.

Þó að samanlagt rekstrartap Íslenskrar erfðagreiningar sé orðið yfir 60 milljarða króna og hlutafé í fyrsta eignarfélagi þess, deCode,  algjörlega verðlaust, varð Kári stórauðugur maður af því að segja þjóðinni ósatt um þá ótakmörkuðu möguleika sem áttu að felast í starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og eignarhlutum í deCode. Hann sagði þjóðinni ósatt um vísindalegar staðreyndir og bjó til mynd sem margir íslenskir vísindamenn höfnuðu. Dæmi um slíka staðreynd var t.d. fullyrðing um að íslenska þjóðin væri svo óvanalega hreinræktuð frá örfáum einsleitum landnemum
sem hér settust að í upphafi að slíkt byði upp á einstök tækifæri til að
einangra erfðagen sem lægju til grundvallar nánast öllum alvarlegum sjúkdómum.

Íslenskir erfðafræðingar andmæltu þessum fullyrðingum. Einn þeirra birti t.d. niðurstöður vísindalegrar rannsóknar sinnar, sem sýndi að fáar þjóðir í Evrópu væru meira erfðafræðilega blandaður en íslenska þjóðin. Fjölmiðlar gerðu ekkert með slíkar upplýsingar  og dönsuðu áfram trylltan dans umhverfis sjónhvefingamanninn. Gagnrýnar upplýsingar komust ekki að og
þeirri bábilju haldið fram að þeir sem ekki keyptu hlutabréf í deCode myndu
enda með öngulinn í rassinum.

Íslenskir fjölmiðlamenn brugðust lesendum sínum og sumir hrakyrtu þá, sem fluttu varnaðarorð. Kára fékk þannig að  líkja greinarhöfundi  við hýenu og hælbít í fréttatíma Sjónvarps  vegna gagnrýni á skrum og blekkingar Kára. Í Kastljósi var mikið grín og gaman þegar tveir þekktir Íslendingar  hvöttu Kára til þess að einangra öfundargenið í okkur sem höfðum uppi varnaðarorð. Alþingi dansaði með í tryllingnum og samþykktu hin dæmalausu lög um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði með því að víkja til hliðar grundvallar mannréttindum og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland á aðild að.

Viðskiptasaga Kára Stefánssonar ætti frekar að sæta rannsókn en að hljóta viðurkenningu. Kári keypti tvær milljónir stofnhluta í deCode fyrir 0.001 US $ á hvern hlut.  Bréfin fóru hæst í 65 US $. Kárin borgaði sem sagt 1/65.000 faldan hlut þess sem sumir saklausir borgarar keyptu hvern hlut á. Þúsund króna fjárfesting Kára samsvaraði því til 65 milljónum króna fjárfestingar ólánsfólks sem trúði á skjótfenginn gróða með vísindagöldrum.  Þúsund kallinn hjá Kára svaraði á þeim tíma til þriggja veglegra einbýlishúsa . Fyrir alla fjárfestinguna upp á ca 140.000 kr ( gengi US $ var þá ca 70 kr) hefðu fengist 4-500 stór einbýlishús.  Var það kannski þetta sem Markaðurinn var í reynd að verðlauna fyrir?  Auk stofnhluta var Kári skrifaður fyrir milljónum hluta til viðbótar í deCode sem hann seldi a.m.k. að hluta aftur.

Hægri hönd Kára, Hannes Smárason, fékk að kaupa hlutinn í deCode fyrir 0.10 US $ . Hann græddi því ekki nema 650 falt ef hann hefði selt bréf á 65 US $. Hannes hefði því ekki fengið nema 650.000 krónur fyrir hverja 1000 króna fjárfestingu í deCode!  Rannsaka þyrfti hvort Hannes og Kári voru aðilar að Biotek Invest í Luxembourg, sem var með mikil viðskipti á
hlutabréfum deCode inn á gráa markaðinn og hagnaðist gríðarlega.

Saga Investments keypti Íslenska erfðagreiningu út úr þrotabúi deCode og varði í heild ca 5 milljöðrum króna í þau kaup og taprekstur. Saga hefur nú verið seld aftur í einu lagi fyrir 50 milljarða króna eða með 45 milljarða króna hagnaði. Af því er Kári sagður hafa fengið myndarlegan skerf,  sennilega milljarða króna. Þeir sem báru 60 milljarða króna tap deCode njóta ekki góðs af gróðanum af sölu Saga Investments.

Hér er ekki úr vegi að upplýsa að bæði deCode og Saga Investments voru stofnuð í Delaware þar sem ýmislegt er látið viðgangast sem sem ekki líðst í öðrum fylkjum Bandaríkjanna, - er einskonar skjól fyrir ljósfælin viðskipti, - mætti kalla skálkaskjól eins og Luxembourg og Panama en í Panama hvarf slóð milljarðagróða Biotek Invest.

 Í stað þess að sinna skyldu sinni sem umboðsmenn lesenda sinna og rannsaka alla sögu Íslenskrar erfðagreiningar og móðurfélaga dettur íslenskum blaðamönnum ekkert betra í hug heldur en að verðlauna þennan skaðvald í íslenskri viðskiptasögu. Á íslenska þjóðin virkilega enn svona vinnubrögð skilið ? 

P. S.
Höfundur sendi þessa grein til Fréttablaðsins 9. janúar sl með beiðni um að hún yrði birt þar. Fréttablaðið neitaði að birta greinina en málfrelsið þar virðist háð því skilyrði að ritstjóra líki við skoðanir sem á að birta. Greinin var þá send Mbl sem hingað til hefur verið vettvangur fyrir andstæð sjónarmið
ritstjórnar og hefur þannig verið mikilvægur vettvangur skoðunarmyndunar í
landinu. Nú bregður hins vegar svo við að Mbl vill ekki birta greina og fæst
ekki til þess að gefa á því skýringar heldur hefur höfundur verið hunsaður
þegar hann hefur leitað eftir skýringum.






« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband