Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Frumvarp um stjórn fiskveiða hrein landráð

Framlagning Steingríms J Sigfússonar á frumvarpi um stjórn fiskveiða og fiskvinnslu er tilræði við efnahag Íslendinga til næstu áratuga og á því að flokkast sem landráð. Þeir þingmenn sem samþykkja þetta dæmalausa frumvarp gerast sekir um landráð. Landráð er stórt orð en hvað á að kalla það ef þingmenn sem þjóðin hefur kosið til að annast hagsmuni sína svíkur þjóðina þannig að helsta lífsbjörgin er tekin frá henni í fjóra áratugi?

Saga kvótastýrðra fiskveiða á Íslandi er hörmungarsaga. Í stað þess að veiða 400-500 þúsund tonn af þorski á ári hefur þorskveiðin aðeins numið um þriðjungi þess afla.  Afli af öðrum botnfisktegundum hefur skerst með sama hætti. Við höfum verið að fara á mis við útflutningstekjur sem samsvara öllum tekjum af orku- og áliðnaðinum undanfarna áratugi. Vegna meiri margfeldisáhrifa af vinnslu sjávarafurða en áls myndi munurinn fyrir þjóðartekjur okkar verða enn meiri.

Hér er stórkostlegir hagsmunir þjóðarinnar á ferðinni. Ef Alþingi gæti borið gæfu til þess að afnema kvótastýringu á fiskveiðum gæti velferð aukist hér afar hratt.  Þó að ég hafi engra hagsmuna að gæta umfram alla aðra Íslendinga hef ég reynt að vekja athygli á þessu ítrekað í mörg undanfarin ár eins og nokkrir menn aðrir.  Máflutningur okkur hefur ekki haft nein árhif á ráðandi stéttir landsins en almenningur er því miður algjörlega sljór fyrir stórum hagsmunamálum sínum. Enski fótboltinn skiptir meira máli!

Hér apar hver eftir öðrum slagorð eins og þessi: „Þó að kvótakerfið feli kannski í sér mikið þjóðfélagslegt óréttlæti er því ekki að neita að það skilar þjóðfélagslegum hagnaði fyrir þjóðina í heild" !!!!    Um þessa setningu er það að segja að fyrri hlutinn er sannleikanum samkvæmur en seinni hlutinn er fáránleikinn uppmálaður.
Gjafakvótakerfið er óhafandi með öllu. Það stríðir gegn stjórnarskrá landsins (65. og 75. grein ) eins og Hæstiréttur komst að með dómi sínum í desember 1998 og það stríðir gegn Mannréttindasáttmála SÞ eins og Mannréttindanefnd SÞ komst að niðurstöðu um í október 2007. Og kvótakerfið hefur rýrt mjög þann arð sem þjóðin hefði getað haft af auðlind sinni. Uppsafnað tap af kvótakerfinu nemur
feiknalegum upphæðum. Það tap verður aldrei bætt.

Ég eins og fleiri hafa lengi borið þá von í brjósti að nægjanlegir vitmenn með óskerta siðferðisvitund settust á Alþingi til þess að átta sig á þessu stóra hagsmunamáli. Lítill vandi er að breyta fiskveiðistjórnarlögum þannig að kvótastýring yrði felld úr gildi en fjölda margar vænlegar leiðir eru
til þess að stýra fiskveiðum. Alþingi sem nú situr væri sæmra að snúa sér að því verkefni að semja lög um stjórn fiskiveiða sem virðir stjórnarskrá landsins og mannréttindakröfur sem við höfum fallist á að hlýta heldur en að festa óréttlætið í sessi um áratugi. Þetta mundi vera þeim mun ánægjulegra verk sem hagur þjóðarinnar mundi snaraukast um leið og Alþingi gæti kannski aftur rétt úr kútnum og hlotið þann virðingarsess sem þjóðin vill að Alþingi hafi.

Steingrímur J Sigfússon leikur ljótan leik í þeim tilgangi að rugla þjóðina í ríminu. Hann leggur fram tvö frumvarp en auk þessa sem hér hefur verið fjallað um er frumvarp um auðlindagjald. Þar eru settar
fram hugmyndir um umtalsverðar greiðslur sem kvótagreifar eiga að greiða fyrir að nýta auðlindina. Öll áherslan er lögð á að fjalla um miklar tekjur af auðlindagjaldi og umræðurnar látnar snúast um þær. LÍÚ valdið tekur þátt í leikfléttunni með stjórnarflokkunum ( eða er það kannski öfugt) og hefur uppi
háværan málflutning um skelfingar fyrir land og lýð ef útgerðarfyrirtækin færu á hausinn vegna  auðlindagjaldsins. LÍÚ og Steingrímur vita hins vegar mætavel að lög um auðlindagjaldið er unnt að breyta á augabragði á þingi. Nýjum lögum um stjórn fiskveiða verður hins vegar ekki breytt  nema með greiðslu hárra skaðabóta.



 



 


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband