Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Maður " nokkur " gerir athugasemd

Allar rökræður verða úti um holt og hæðir ef einn aðilinn neitar að taka mark á staðreyndum og færa verður jafnvel sönnur fyrir því sem hverjum upplýstum manni ætti að vera innan handar að vita. Þannig er því miður háttað umræðunni um einn stærsta vanda samtímans að margra mati en það eru vaxandi árekstrar hins vestræna menningarheims við þann múslímska. Annar vandinn er svo sá að þeir sem ráðast að okkur fáum sem höfum haft döngun til þess að fjalla um vandamálið opinberlega með rökum og af einhverri þekkingu hika ekki við að reiða hátt til höggs í málefnum sem þeir hafa augljóslega ekki haft fyrir því að kynna sér af neinu viti.

Þannig er t.d. með Björn Matthíasson hér í MBL í sl. viku. Honum finnst við hæfi að fara háðslegum orðum um mína persónu með því að nefna mig Valdimar nokkurn Jóhannesson. Orðið „nokkur“ er augljóslega háðsyrði sem lýsir þó honum frekar en mér. Hann sleppir þó að kalla mig öllum þessum venjulegu skammaryrðum: rasisti, fasisti, hægri öfgamaður, útlendingahatari o.s.frv.

Háttvísiskortur Björns er þó ekki vandamálið hér heldur afbökun hans á innihaldi greinar minnar um vanda sem við stöndum frammi fyrir með vaxandi innflutningi fólks sem hefur mótast af hugmyndafræði íslam. Hann segir mig útmála fólk með múhameðstrú sem varasama glæpamenn. Þetta er ekki rétt. Ég vakti hinsvegar athygli á reynslu nágrannaþjóða á miklu hærri glæpatíðni meðal múslímskra innflytjenda en annarra þjóðfélagshópa og afar lágri atvinnuþátttöku þeirra. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Hvergi segi ég að allir múslímar séu glæpamenn né að enginn múslími hafi atvinnu. Ég vakti líka athygli á miklum þjóðfélagsbreytingum sem hér yrðu ef svo fer sem horfir

Björn reynir að gera þá tortryggilega sem eru andvígir innflutningi múslíma hingað í stórum stíl og vaxandi umsvifum þeirra. Almenningur í Evrópu er honum sennilega lítt að skapi. Samkvæmt mælingu bresku hugveitunnar Chatham House í tíu Evrópulöndum, Belgíu, Frakklandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni, Bretlandi, Þýskalandi og Austurríki, vilja 73% þeirra sem afstöðu tóku stöðva innflutning frá múslímskum löndum, aðeins 27% voru því mótfallnir. Yfir tíu þúsund manns tóku þátt í könnuninni.

Björn og hans nótar ættu að hugleiða hvernig stendur á þessari vaxandi andúð á fylgjendum Múhameðs um alla Evrópu. Allur almenningur finnur á eigin skinni hvar skórinn kreppir. Hann heyrir og sér endalaus hryllingsverk múslíma jafnvel þó að þau séu falin af gaumgæfni af ráðandi öflum. Almenningur veit betur en margur svokallaði menntamaðurinn sem í hroka sínum telur sig alvitra jafnvel í málum sem hann hefur aldrei kynnt sér vegna þess að hann hefur lesið nokkrar fræðibækur í alls óskyldum efnum og hefur fengið einhvern lærdómsstimpil fyrir margt löngu. Þrátt fyrir 14 alda sögu íslam sem hefur að mestu leyti verið hræðileg eru enn til þeir meðal okkar sem neita alveg að horfast í augu við staðreyndir, neita að kynna sér mannskemmandi hugmyndafræði íslam og alblóðuga sögu sem hefur lagt nær 300 milljónir manna af öðrum trúarbrögðum að velli.

Grein Tryggva Gíslason, fyrrverandi skólameistara MA, í Fréttablaðinu nokkrum dögum áður var ekki alveg jafn slæm en það er þó alvarlegt þegar slíkir menn, sem ættu að vekja traust um að rétt væri a.m.k. farið með staðreyndir, leyfa sér slíkt sullumbull. Tryggvi leggur að jöfnu kristna trú, gyðingdóm og íslam sem sýnir mikið þekkingar- og dómgreindarleysi. Sýnu verra er þó að segja að íslam merki friður. Íslam merki undirgefni dregið af rót arabíska sagnorðsins „istaslama“ sem þýðir að gefa sig á vald, gefast upp fyrir. Þetta eru upplýsingar sem allir geta aflað sér. Alvarlegasta fullyrðing Tryggva er þó þessi:

„Engu að síður standa samtök kristinna manna, gyðinga - að ekki sé talað um samtök múslíma - fyrir ofbeldi og manndrápum víða um heim, þótt alls staðar séu þar minnihlutahópar á ferð.“

Hvaða minnihlutahópar gyðinga eða kristinna manna standa að ofbeldi og manndrápum víða um heim, Tryggvi Gíslason? Þegar þetta er skrifað hefur verið tilkynnt um 30.303 opinberlega skráðar, mannskæðar hryðjuverkaárásir í nafni íslam í heiminum síðan 11. september 2001. Getur þú bent á nokkrar sambærilegar hjá kristnum og gyðingum?

Leitt er að ráðast að nafngreindum mönnum með þessum hætti en nauðsyn ræður því verki. Mikið er í húfi að íslenska þjóðin sé rétt upplýst um þá hættu sem blasir við henni. Björn og Gísli ættu að hrista af sér drungann og kynna sér málin eins og öll þjóðin. Um öll lönd múslíma eru endalausar heitingar um heilagt stríð, jihad, gagnvart Vesturlöndum. Allir múslímar standa ekki þarna að baki en fjöldi þeirra sem vilja láta til skarar stríða er kannski 50-100 milljónir með bakstuðningi um helmings allra múslíma. Framundan er hrikalegt uppgjör nema friðsamir múslimar, sem eru um helmingar þeirra, gætu staðið fyrir heildarendurskoðun íslam. Íslam er allt annað en friðsamt. Það eru ekki bara við „bullurnar“ sem eru uggandi um framtíð hins vestræna heims - heldur einnig meiri hluti íbúa hans. 

 


Snjóruðningur í snjóleysi

 

Ég var vakinn upp við mikinn skurðning á fimmta tímanum eina nóttina í vikunni. Fyrir forvitni sakir fór ég á fætur til að athuga fannfergið sem hlaut að vera til staðar fyrst talið var nauðsynlegt að hefja ruðning gatna svona snemma í Mosfellsbæ þar sem ég bý. Ég þekkti hljóðin enda alvanaleg á vetrum.

Oft hef ég verið undrandi á bægslagangi snjóruðningsmanna en þarna tók þó úr steininn. Við mér blasti örlítil snjóföl, - raunar svo lítil að enginn snjór hlóðst upp í tönn snjóplógsins.Varla sást hvar tönnin hafði farið yfir. Mér varð litið á veðurspádóma á símanum fyrir þennan dag í Mosfellsbæ. Hitinn úti var sagður rétt yfir frostmarki en hitinn var sagður fara fljótlega í 6 gráður. Á fimmta tímanum lá sem sagt ljóst fyrir að þessi litla snjóföl væri alveg horfin löngu fyrir hádegi.

Snjóplógamaðurinn knái lét svoleiðis aukaatriði ekki skemma fyrir sér verkgleðina heldur kom aftur ca klukkustund seinna eftir að hafa farið vítt og breitt um bæinn til að skafa bílastæði sem blasir við úr svefnherbergisglugga mínum. Aftur dreif ég mig á fætur og fylgdist furðu lostinn með manninum fara samviskulega í það verk að ryðja snjó í plati á bílaplaninu.

Þetta verk var eins og oft á vetrum ekki einasta algjörlega óþarft heldur bókstaflega skaðlegt m.a. við að vekja fjöldann allan af fólki upp af værum svefni fyrir utan óþörf fjárútlát og sennilega aukið slit á gatnakerfinu. Hver ákveður svona vitleysu?

 


Hvað má það kosta?

Nú þegar ásetningur yfirvalda virðist vera að opna flóðgáttir fyrir svokallaða flóttamenn inn í landið væri lágmarkskrafan að skoðað væri hvað það muni kosta íslenskt samfélag í fjármunum og ýmsum neikvæðum hliðarverkunum. Hvað mun það kosta í beinum fjárútlátum, hvað mun það kosta í verra þjóðlífi, hvað mun það kosta í minni þjóðartekjum á mann og breyttu samfélagi?

Reynslan er hvarvetna sú, að atvinnuþátttaka múslímskra flóttamanna á Vesturlöndum er afar lág um leið og afbrotatíðni er miklu hærri en hjá öllum öðrum þjóðfélagshópum hvort sem það eru innfæddir eða aðrir innflytjendur. Auk þess þarf enginn að efast um að löndin með mörgum múslímskum innflytjendum breytast til hins verra með auknu öryggisleysi almennra þegna, auknum glæpum, aukinni spennu og versnandi afkomu svo ekki sé talað um hryðjuverkin sem fylgja múslímskum innflytjendum.

Lítum til reynslu Dana. Árið 2010 tosaðist atvinnuþátttaka hjá flóttamönnum, sem eru yfirgnæfandi múslímar, í 8% eftir árið. Þetta var áður en flóðbylgjan stóra skall á Vestur-Evrópu 2015. Tölur um atvinnuþátttöku flóttamanna hafa síðan enn versnað. Núna segja tölur frá Dönum 2016 að atvinnuþátttaka flóttamanna er um 2% eftir árið þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt sig fram um að hjálpa flóttamönnum að komast á vinnumarkaðinn með námsskeiðum og með því að greiða atvinnurekendum til þess að aðlaga flóttamenn að störfum með lærlingsstöðum. Velferðarkerfið verður að halda uppi 98% af flóttamönnum eftir árs aðlögun og reynslan kennir að langstærsti hluti þeirra verður alltaf þurfalingar og komandi kynslóðir þeirra einnig.

Sama reynslan og Danir hafa liggur fyrir hvarvetna fyrir þar sem tölur eru aðgengilegar t.d. í Þýskalandi. Þetta er ekki eina sameiginlega reynslan heldur önnur og verri: Ógnvænleg aukning í alls kyns glæpum, sérstaklega ofbeldisglæpum svo sem nauðgunum, líkamsmeiðingum og manndrápum. Tölur um glæpatíðni flóttamanna eru óskemmtilegar að svo miklu leyti sem þær eru aðgengilegar en mikillar tilhneigingar gætir til þess að fela þessar tölur.

Glæpatíðnin heldur svo áfram að vera mjög há hjá múslímskum innflytjendum kynslóð eftir kynslóð. Múslímar eru t.d. um 70% af öllum föngum í Frakklandi þó að þeir séu aðeins um 10% þjóðarinnar. Það vill segja að múslímar í Frakklandi eru 21 sinnum líklegri til að gerast sekir um alvarlega glæpi, sérstaklega ofbeldisglæpi, en aðrir þjóðfélagshópar að meðaltali að sögn þessara talna. Allar tiltækar tölur um glæpatíðni á Vesturlöndum benda í sömu átt. Þannig eru t.d. sagt að um 80% nauðgana í Svíþjóð a.m.k. stafi frá múslímskum karlmönnum sem eru rúm 2% af íbúum.

Þeirrar hugsunar virðist gæta hér að Íslendingar séu miklu færari að taka við erlendum fóttamönnum en aðrar þjóðir eru. Hörmuleg reynsla annars staðar muni því ekki endurtaka sig hér. Við ættum ekki að þurfa að velkjast í vafa um þetta atriði. Alkunna er að Akranesingar tóku afar vel á móti 28 ríkisfangslausum arabískum flóttamönnum fyrir tæpum áratug. Einkaaðilar og sveitafélagið sinntu verkefninu af alhug. Nú skyldi sýna efasemdamönnum í tvo heimana og aðlaga þá að fullu inn í íslenskt samfélag. Engar upplýsingar fást um árangur þó að eftir því sé leitað. Skagamenn hrissta bara hausinn og segjast ekki vita deili á neinum árangri. Þeir og við, sem borgum brúsann, fáum engar upplýsingar. Hér hefði mátt reikna með betri árangri en almennt væri vegna þess hve þetta voru fáir einstaklingar sem væri unnt að sinna betur og hefðu fáa aðra að reiða sig á en vinalega nágranna.

En það er enn meira í húfi. Hvaða áhrif munu mannskæð hryðjuverk hafa á þjóðlíf og ferðamannaþjónustu hérlendis? Þau verða ekki síður í löndum sem leggja sig fram um góðar móttökur eins og Kanadamenn hafa nú fengið að reyna og Evrópuþjóðir hafa mátt þola undanfarin ár með hörmulegum afleiðingum.

Hvaða áhrif mun ásetningur stórs hluta múslíma hafa að ná Íslandi undir íslam og sharialög með jihad, - hvort sem það yrði með orðum eða sverðinu? Samkvæmt rannsóknum Humbolt háskólans í Berlín eru um 45% múslíma í Evrópu bókstafstrúarmenn, fúndamentalistar og trúa því að fara beri eftir kóraninum og sunnah þ.e. ekki aðeins að fylgja fyrirmælum kóransins heldur einnig fordæmi Múhameðs í einu og öllu en hann var hræðilegur maður samkvæmt lýsingum múslíma sjálfra. Það er raunar uppspretta sífelldrar undrunar að sómakærir múslímar skuli ekki fyrir löngu hafa losað þjóðir sínar undan þessum þunga klafa.

Hefur íslenska þjóðin verið spurð hvort hún sé tilbúin til að taka þátt í glannaskap ráðamanna og greiða þetta háa gjald?

 

 

 

 


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband