Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Þorskafli fyrir 8400 milljarða króna glataður á 35 árum

Það er öldungis bráðfyndið að hlusta á Kristján Júlíusson sjávarútvegsráðherra ræða um brottkast á fiski á fiskmiðum landsins eins og að hér sé um nýlundu að ræða sem taka verði á með stórauknum eftirliti með veiðum. Frá upphafi kvótastýringar fiskveiða hefur legið fyrir að brottkast er óhjákvæmilegur fylgifiskur kvótakerfisins og skiptir engu máli hvað settir verða miklir peningar í eftirlit. Eina leiðin til að stöðva brottkast er að breyta um veiðistýringu en ýmsar leiðir eru færar í veiðistýringu, sem gerðu tvennt:- að auka réttlæti og bæta nýtingu á fiskistofnum landsins.

Um þetta var mikið fjallað fyrir áratugum m.a. af mér. Ég set hér eina grein til gamans en hún er nær 22 ára gömul og segir m.a. frá þá augljósum sannindum um brottkast:

Hér kemur greinin sem birtist í Morgunblaðinu í október 1997:

ALLIR sjómenn og fiskverkendur vita að feikilegt magn af veiddum fiski fer aftur í hafið vegna annmarka aflakvótakerfisins. Enginn veit hvað magnið er mikið. Sumir segja að 40 þúsund tonnum af þorski sé kastað á glæ, aðrir segja 80 þúsund tonn eða á bilinu 20-40% af þyngd þorskaflans. Minnsti fiskurinn fer mest í hafið þó að hitt þekkist einnig að fiskurinn sem er of stór fyrir vinnsluvélarnar í verksmiðjutogurunum fari sömu leið. Líklegt er að helmingi veiddra þorska á Íslandsmiðum sé hent. Verðmætið nemur milljörðum króna.

Verjendur aflakvótakerfisins taka margir ekkert mark á upplýsingum sem fást aðeins hjá sjómönnum í trúnaði, stinga hausnum í sandinn og neita að trúa því að þessi skelfilega sóun sé innbyggð í kerfið. Þó er svo einfalt að skilja af hverju þessu er svona varið.

Hvað á leiguliði sægreifans að gera þegar hann þarf að greiða 75 þús. kr. fyrir tonn í þorskveiðileigukvóta en hann fær fyrirsjáanlega ekki nema 50-60 þús. kr. fyrir tonnið af smáum þorski eða tveggja nátta fiski? Er hægt að ætlast til þess að bátseigandinn, sem þegar lepur dauðann úr skel, greiði með aflanum sem hann kemur með að landi?

Það er alkunn staðreynd að þorskur undir 6-8 kílóum sést nú varla á fiskmörkuðum, hvað þá tveggja nátta fiskur. Það er meira að segja gerð krafa um að koma aðeins með þorsk sem hefur verið blóðgaður lifandi, þ.e. að fiski sem drepst í netunum sé hent.

Hvað gera hertogar sægreifadæmisins á eigin skipum? Meðalþyngd þorsks sem kemur í botnvörpuna mun vera um 2 kíló, þegar búið er að slægja hann. Meðalþyngdin á slægðum þorski lönduðum úr ísfisktogurum mun hinsvegar vera 4-5 kg. Hvað verður um allan þann þorsk sem heldur meðalþyngdinni niðri í botnvörpunni? Auðvitað fer hann í sjóinn. Það hefur gengið svo langt að afli hefur farið í sjóinn hjá verksmiðjuskipi eftir að búið var að pakka honum. Þrátt fyrir mikið peningaveldi sæhertoganna verða menn nú ekki ríkir nema fara vel með.

Hvatinn til þess að henda fiski sem er minna virði en unnt er að leigja kvótann fyrir er því augljós. Ég hef lýsingu togarasjómanns á því hvernig a.m.k. eitt hundrað tonn af smáfiski fóru í sjóinn í einni veiðiferð sem færði 160 tonn á land. Hvað er gert við þorsk sem kemur í veiðarfærin þegar aðeins er til kvóti fyrir ýsu eða ufsa? Er líklegt að honum sé landað með veiðileyfissviftingu í bónus?

Í sumar sem leið varð sú hróplega mótsögn, að fleiri þúsund tonnum af karfa var hent innan landhelginnar vegna þess að karfaverðið á mörkuðum var lægra en kostnaður af kvótaleigunni var. Á sama tíma voru togararnir á karfaveiðum á Reykjaneshrygg utan landhelginnar með risaflottrollin sín að þurrka upp restina af karfanum þar. Fisktegundum utan kvóta hefur nánast verið útrýmt sem nytjastofnum.

Þrátt fyrir þessa hroðalegu annmarka aflakvótakerfisins er þetta sem hér er sagt að ofan minnsti glæpurinn. Ranglætið, höftin, forréttindin og ójöfnuðurinn meðal íslenskra þegna eru stærsti gallinn á kvótakerfinu eins og það hefur verið framkvæmt. Og ranglæti er ekki aðeins leiðinlegt hugtak, heldur alvarlegt mein sem eitrar og sýkir allt þjóðfélagið.

Valdimar Jóhannesson

© Morgunblaðið

Sá sem ætlar sér að reikna út hvaða verðmætum hefur verið kastað á glæ á þeim 35 árum sem kvótakerfið hefur staðið ætti að gera það sitjandi vegna hættu við svima og jafnvel yfirliði þegar niðurstaða birtist. Lauslega reiknað eru þetta 200 þús tonn á ári af þorski í vannýtingu og brottkasti,- ca 7 milljón tonn, eða 7 milljarðir kílóa af þorski. Ef reiknað er með að 1200 kr fáist fyrir útflutta þorskkílóið gerir þetta 8400 milljarða króna. Það mætti byggja hátækni sjúkrahús fyrir upphæðina, leggja nokkra vegaspotta og eiga samt góðan afgang. Síðan er eftir að reikna út tekjur af afleiddum störfum og tjónið af vannýtingu og brotkasti af öllum hinum fisktegundunum.

 

 


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband