Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024

Trunt trunt og tröllin á pöllunum

Þjóðsög­urn­ar geyma frá­sagn­ir um menn sem leidd­ust til fylgilags við tröll­in og misstu mennsk­una, bæði að inn­ræti og út­liti. Einn lenti í bland við tröll­in á grasa­fjalli og kom til sama grasa­fólks næstu þrjú árin. Fyrsta árið var hann fá­máll, ábúðar­mik­ill og sagðist trúa á guð. Annað árið var hann svo trölls­leg­ur að þeim stóð stugg­ur af hon­um og svaraði ekki spurn­ing­um um trúna. Þriðja árið kom hann í síðasta skipið og var þá orðinn hið mesta tröll og ill­skeytt­ur mjög. Aðspurður sagðist hann trúa á „trunt trunt og tröll­in í fjöll­un­um“.

Þjóðsög­urn­ar eru næm­ar á mann­legt eðli. Lær­dóm­ur­inn hér er sá að það er mann­skemm­andi að lenda í fé­lags­skap illra afla. Þess finn­ast víða merki. Guðhrædd­ir menn fara að trúa á ill­ar vætt­ir og taka upp fas leiðtog­anna. Líka þó þeir hafi verið hjarta­hrein­ir og hrekk­laus­ir fyr­ir. Þjóðsög­urn­ar greina hins veg­ar ekki frá því að tröll hafi komið til byggða og orðið mennsk­unni að bráð.

Nú er liðinn meira en ald­ar­fjórðung­ur frá því að ég leiddi til lykta dóms­mál fyr­ir Hæsta­rétti Íslands þar sem látið var reyna á hvort gjafa­kvóta­kerfið svo­kallaða stæðist ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar. All­ir fimm dóm­ar­ar Hæsta­rétt­ar í máli nr. 145/1998 fimmtu­dag­inn 3. des­em­ber voru sam­mála um að kvóta­lög­in brytu í bága við 65. og 75. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar, þ.e. gegn regl­um jafn­ræðis og at­vinnu­frels­is. Þetta voru sem sagt ólög. Slík eru ekki haf­andi nema ör­stutt­an tíma þegar neyðarrétt­ur get­ur vikið al­menn­um regl­um til hliðar um stund.

Fólkið í land­inu, sem þó þekk­ir yf­ir­leitt ekki stjórn­ar­skrána, þar sem skóla­kerfið stend­ur dygg­an vörð um van­kunn­átt­una, var að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta sam­mála dómur­un­um. Al­menn skyn­semi dug­ir oft­ast til að greina hvað er rétt eða rangt. Flest­ir sáu fyr­ir sér í des­em­ber 1998 að fiski­veiðistjórn­ar­lög­un­um yrði snar­lega breytt. Þau höfðu enda þegar haft afar skaðleg áhrif á þjóðar­hag um 14 ár og mál að linnti.

Nú eru liðin 40 ár síðan ólög­in nr. 821983 tóku gildi með þeim breyt­ing­um ein­um síðan sem hertu á órétt­læt­inu. Í hart­nær fjöru­tíu ár hef­ur verið mér vax­andi undr­un­ar­efni að ekki er búið að leiðrétta þetta aug­ljósa órétt­læti. Mér hef­ur verið fyr­ir­munað að skilja af hverju Alþingi hef­ur ekki tekið á sig rögg. Hver ágæt­ismaður­inn á fæt­ur öðrum hef­ur sest í lög­gjaf­ar­sæt­in en það er aðeins á valdi Alþing­is að breyta lög­um og eyða ólög­um. Ég hef oft­lega tekið til máls á op­in­ber­um vett­vangi um þetta og einu sinni gengið svo langt að senda með öðrum öll­um sitj­andi þing­mönn­um bréf en ekki fengið neitt svar nema drunga­lega dauðaþögn.

Svo var það eina nótt­ina fyr­ir skemmstu að ég vaknaði upp af djúp­um svefni og setn­ing­in „Trunt trunt og tröll­in í fjöll­un­um“ hraut af vör­um mér. Mér varð allt ljóst eins og hendi væri veifað. Ég grandlas Þjóðsög­ur Jóns Árna­son­ar fyr­ir ferm­ingu mér til mik­ill­ar skemmt­un­ar. Mér varð ljóst í svefnsslitr­un­um að drauma­vit­und­in hafði verið að vinna úr þess­um merka þjóðar­arfi. Meðvit­und­in vann svo aðeins með þetta og hnikaði til tveim­ur síðustu orðunum: Trunt trunt og tröll­in á pöll­un­um!

Flest­ir sem taka sæti á Alþingi fara þar inn með hreint hjarta og finna jafn­vel til ánægju­legs stolts þegar þeir sverja þess eið að halda stjórn­ar­skrána og virða í öll­um sín­um störf­um fyr­ir um­bjóðend­ur sína, – fólkið í land­inu. Þegar þingmaður tek­ur sæti á Alþingi í fyrsta sinn und­ir­rit­ar hann einskon­ar trú­ar­játn­ingu, dreng­skap­ar­heit að stjórn­ar­skránni, undireins og búið er að viður­kenna að kosn­ing hans sé gild. Dreng­skap­ar­heitið er svohljóðandi: Ég und­ir­skrifaður/uð, sem kos­in(n) er þingmaður til Alþing­is Íslend­inga, heiti því, að viðlögðum dreng­skap mín­um og heiðri, að halda stjórn­ar­skrá lands­ins.

Fyrsta árið á þing­pöll­un­um er „trú­ar­játn­ing­in“, æðsta boðorð hvers þing­manns, hon­um of­ar­lega huga um leið og hann gæt­ir þess þó enn bet­ur að vera sam­stiga flokks­fé­lög­um sín­um og þá sér­stak­lega flokkströll­un­um, sem ganga valds­mann­lega um pall­ana og hafa vigt langt um­fram nýgræðing­inn. Eft­ir fyrsta árið tal­ar hann enn af virðingu um stjórn­ar­skrána. Eft­ir annað árið kem­ur hún ekki upp í umræðunni og í lok þriðja árs trú­ir hann á „trunt trunt og tröll­in á pöll­un­um“. Þjóðsag­an er sem sagt býsna fund­vís á hvernig þrýst­ing­ur­inn brýt­ur niður góðan ásetn­ing. Og hin æðsta skylda vík­ur yfir of­ur­valdi tröll­anna.

Hér skal það áréttað að skyld­an við stjórn­ar­skrána rík­ir yfir hag­kvæmn­inni þó að það væri hag­stæðara fyr­ir heild­ar­hags­muni lands­ins að hafa hana að engu, sem það er þó alls ekki. Leidd hafa verið að því rök ótal sinn­um að heild­arafli lands­manna sé aðeins um helm­ing­ur þess sem hann gæti verið og reynsl­an fyr­ir daga kvót­ans og skrap­daga bend­ir til. Kvóta­kerfið ber sök á því að við för­um á mis við 200 millj­arða króna afla­verðmæti upp úr sjó ár­lega. Þetta gerðu um 400 millj­arða króna út­flutn­ings­verðmæti sem skilaði sér marg­falt inn í þjóðar­tekj­urn­ar. Þjóðar­tekj­ur á mann gætu hækkað um tugi pró­senta við skyn­sam­lega nýt­ingu. Svo ekki sé talað um gró­andi þjóðlíf um land allt og gæði þess að búa í rétt­látu þjóðfé­lagi. Ef marg­faldað er með 40 verður heild­artjón í tekj­um af ólög­un­um ljóst.

Með því að virða stjórn­ar­skrána gæti heill­andi framtíðar­sýn Hann­es­ar Haf­stein í Alda­mótaljóðinu um næst­síðustu alda­mót loks­ins ræst að fullu.

Kraft­inn hún finn­ur: Öfl í æðum funa,

ólg­andi fossa kynja­mögn­in duna.

Auðlind­ir sjáv­ar ótæm­andi bruna.

Ónotuð frjóg­nótt beiskju vek­ur muna.

Fyr­ir hvern er fjall­kon­an (við) að færa þessa fórn að nýta ekki frjóg­nótt­ina, auðlegðina, í haf­inu, ólg­andi kraft­inn í nátt­úru lands­ins? Nú er mál að lúta ei leng­ur tröll­um.

 P.S. Þessi grein birtist í Mbl í dag 31.maí 2024


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband