Leita í fréttum mbl.is

Ísland yrði ein ríkasta þjóð heims

Það er meira í húfi en réttlætið eitt við afnám gjafakvótakerfisins, sem hlýtur að verða eitt af aðal viðfangsefnum stjórnlagaþingsins sem kosið verður til 27. nóvember  n.k.  Þegar enginn hefur lengur hvata til þess að verja núverandi fiskstjórnarkerfi vegna kvótaeignar verður auðveldara að fá fram vitræna umræðu og könnun á betra kerfi en aflamarkskerfið er sem nú er notað til að stjórna fiskveiðum. Ég fullyrði að unnt væri að margfalda aflann á helstu nytjastofnum án þess að stofna þeim í hættu með breyttu kerfi. Við og erlendar þjóðir veiddum 400-500 þúsund tonn af þorski  árlega áratugum saman miðað við aflaskýrslur sem eflaust hafa ekki sagt allan sannleikann vegna þess að sumir hér að veiðum hafa leynt afla m.a. af skattalegum ástæðum. Veiðin kann því að hafa verið mun meiri. Nú er árlegur þorskafli um 150 þúsund tonn þrátt fyrir friðun með kvótakerfi og þar áður skrapdagakerfi í 35 ár. 

Með sæmilega vitrænum rökum má halda því að unnt væri að þrefalda þorskaflann, sem er lang verðmætasta fisktegundin og gerði okkur að efnamönnum. Það eitt mundi auka útflutningstekjur um 2-300 milljarða króna og þar með þjóðartekjur um tugi prósenta eða meira en nemur hluta álframleiðslu í þjóðartekjum. Kannski mætti fimmfalda þorskaflann með því að nýta  þorskstofnanna til hin ýtrasta án þess að ganga á endurnýjunargetu þeirra. Auðvitað myndum við aldrei taka slík stökk í einu lagi heldur þreifa okkur áfram til hagkvæmustu nýtingar á þorskinum og öðrum fisktegundum. Í fiskimiðin er miklu meira gull að sækja en nú er sótt. Þangað er að sækja auð sem okkur hefur enn ekki dottið til hugar að nýta og verður aldrei nýttur nema að ungir og ákafir menn hafi tækifæri til þess að reyna nýja hluti og steinrunnið gjafakvótakerfi sér aldrei tækifæri í.

 

Það er því meira en réttlætið sem er í húfi við að koma auðlindunum í  þjóðareign þó að réttlætið eitt og sér væri meira en nóg forsenda til þess að leggja af óréttlátt gjafakvótakerfið.  Réttlæti er samt mikil verðmæti sem ekki má líta framhjá. Atvinnuleysið myndi hverfa eins og dögg fyrir sólu og Ísland yrði aftur meðal ríkustu og bestu landa heimsins. Við þyrfum þá ekki að lesa fréttir um hörmungar Flateyrar og fleiri sjávarþorpa landsins.

 Framboðsnúmer mitt er  8276


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú átt minn stuðning vísan enda vantar mig þarna inn menn eins og þig og þína líka. Og svo vantar i stjórnarskrána skýr ákvæði um ábyrgð ráðherranna og jafnframt skýra refsiábyrgð.

Í stjórnarskránni stendur að forseti sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Í reynd hefur þetta ábyrgðarleysi verið altækt um ríkisstjórnir Íslands og einstaka ráðherra.

Árni Gunnarsson, 2.11.2010 kl. 19:39

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Tek undir með Árna - tek frá sæti fyrir þig!

Jóhanna Magnúsdóttir, 2.11.2010 kl. 22:22

3 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Ég vona að þjóðin beri gæfu til þess að kjósa góða menn inn á stjórnlagaþingið,- menn sem skilja vitjunartíma sinn og hafa löngun til þess að láta gott af sér leiða. Það varðar framtíðargæfu landsins að takist vel til með nýja stjórnarskrá.

Valdimar H Jóhannesson, 2.11.2010 kl. 22:49

4 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég tek hjartanlega undir með þér hvað kvótakerfið varðar.  Mér hefur alltaf fundist að jafnvel þó að kerfið hefði virkað eins og til var ætlast, þá var framkvæmdin svo fáránlega óréttlát að það eitt gerði það óréttlætanlegt með öllu.  Auk þess er ég sannfærður um að það hafi verið kvótakerfið sem rændi Íslendinga siðferðinu og setti ruglið sem varð okkur að falli í gang.

Það er algerlega nauðsynlegt að ná þessu aftur til þjóðarinnar.

Theódór Gunnarsson, 3.11.2010 kl. 07:48

5 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég er svo sammála Árna.

 Ég ætla að kjósa þig Valdimar. Gangi þér vel.

Marta B Helgadóttir, 3.11.2010 kl. 09:17

6 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Verjendur hins ósiðlega kvótakerfi hafa löngum sagt þjóðinni að jafnvel þó vitlaust væri gefið í kvótakerfinu væri hagkvæmni þess svo mikil fyrir okkur öll að við ættum að líta framhjá óréttlætinu og stjórnarskrárbrotinu. Þetta er algjörlega rangt. Kerfið er mjög óhagkvæmt eins og marg oft hefur komið fram og hefur ekki verið hrakið. En þó það væri hagkvæmt er fráleitt að sætta sig við ranglætið. Ranglátt þjóðfélag er vont þjóðfélag. Réttlætið er verðmætt.

Valdimar H Jóhannesson, 3.11.2010 kl. 11:31

7 identicon

Valdimar.

Það eru bara 35 ár síðan við fengum 200 mílna fiskveiðilögsögu og skrapdagakerfið var notað í ca 5 ár, upp úr 1980:  Í því kerfi máttu skipin veiða þorsk í ákveðinn daga fjölda í mánunuði ca 20. Það sem eftir lifði mánaðarins mátti þorskur ekki vera nema 15 % af afla.  Því var skrapdagakerfið ekki aflamarkskerfi og þorskaflinn fór langt frammúr tillögum Hafró.1984 Var kvótinn settur á og aflamark og sóknarmark var samkliða í nokkur ár þar til aflamarkið varð eitt eftir um1991. Nema trillur voru frjálsar eitthvað lengur.

Við skulum hafa það í huga að það var hellings brottkast fyrir kvótakerfið, megnið af smærri fiski undir 55 cm var hent því að vinslan í landi vildi ekki svo smáann fisk.

Því er rangt sem þú segir að skrapdagakerfið hafi verið notað í 35 ár.

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 12:11

8 identicon

Valdimar.

Enn og aftur!  Við erum ekki að veiða svona lítið vegna kvótakerfisins HELDUR RÖKVILLU Í FISKIFRÆÐINGUM HJÁ HAFRÓ

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 12:16

9 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Hallgrímur

maður man ekki upp á ár hvenær hlutirnir gerðust en mig minnti að það hefði verið fljótlega eftir að Bretarnir fór út að skrapdagakerfið var sett á til þess að minnka þorskveiðarnar en aðal röksemd okkar fyrir því að ýta Bretum út var að ofveiðin væri orðin miðunum hættuleg.  Skrapdagakerfið var því verið sett á 1977-8 en það kann að vera misminni. Veiðin af þorskinum í skrapdagakerfinu varð svo mikil sem raunin varð vegna þess að það var einfaldlega til meiri þorskur en menn héldu.

Það skiptir ekki höfuðmáli hvort friðun á þorski fyrst með skrapinu og síðan með kvótakerfinu hafi staðið alls í 30 eða 35 ár. Það sem skiptir máli er að þessi friðun hefur ekki skilað neinu og þessi miklu fórnarkostnaður í því að skera niður þorskaflann um 2/3 hluta var til einskis.

Þorkurinn sem veiddum ekki er að mestu leyti löngu dauður í hafinu engum til gagns og þeir hundriðir og kannski þúsundir milljarða króna sem hefðu komið inn í þjóðarbúið komu aldrei. Húseignir fólks í sjávarþorpum landsins væru nú undirstaða blómlegs fjárhags þess fólks sem hefur verið að hrekjast frá heimkynnum sínum nánast eignarlaust. Gróandi þjóðlíf sem hefði getað verið um land allt varð aldrei vegna óvandaðra vinnubragða stjórnvalda.

Ég er svo alveg sammála þér um rökvillur Hafró en starfsmenn þar eiga ekki hægt um vik. Þeir eiga atvinnu sína undir náð og miskunn LÍÚ sem ræður yfir stjórn LÍÚ. Sú saga verður vonandi einhvern tímann öll sögð.

Valdimar H Jóhannesson, 4.11.2010 kl. 13:50

10 identicon

Fyrirgefðu Valdimar.  Ég var að rugla með skrapdagana þeir byrjuðu 77 og voru til 84 þegar kvótinn var settur á.

Hið háa alþingi ætti nú að sjá rökvilluna hjá Hafró, en alþingi virðist oft vanta heilbrigða skinsemi.

Hallgrímur H Gísla (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 15:03

11 Smámynd: Atli Hermannsson.

Það er rétt að skrapdagakerfið var frá 77 til 84 er blandað kvóta- og sóknarkerfið tók við til ársins 1990. Það sem ráðamenn þjóðarinnar vilja ekki horfa á og ætla því aldrei að skilja; er að á árunum þegar þetta mesta sóða- og brottkastkerfi allra tíma var þá stækkaði þorskstofninn.

Og hann stækkaði í mörg ár eftir það, eða öll árin þegar frammúrkeyrsla umfram ráðgjöf Hafró var sem mest. Það er ekki fyrr en eftir að tekið var upp á því að fylgja ráðgjöfinni 95% að stefnan hefur stöðugt legið niður á við - Þetta er ekkert flókið að skilja - enda liggur þetta allt fyrir í gögnum hjá stofnuninni sjálfri.

Svo eru sumir kannski farnir að gleyma því að sóknarmarksskipin veiddu mun meira af þorski en kvótaskipin á árunum milli 1984-90. Það gátu þær útgerðir sem valið höfðu kvótann illa sætt sig við og Hafró ekki heldur sem fannst erfitt að áætlað um hámarksafla (telja fiskana í sjónum) með ákveðinn hluta togaraútgerða lausbeislaða í kerfinu.

Því lagðist kvótamafían undir feld ásamt hópi af handgengnum stjórnmálamönnum og þess freistað að finna hvata fyrir sóknarskipin að skipta yfir svo hægt væri að leggja sóknarkerfið af. Lausnin fannst 1990 og er kallað "framsalskerfið".

Á þessum erfiðu tímum niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu legg ég til að fyrst verði skorið verði niður hjá Hafró. Þar eru150 starfsmenn, þar af 60 svokallaðir sérfræðingar. Ég legg til að fækkað verði um 125 og byrjað á forstjóranum og skósveinum hans sem sogið hafa sig fasta eins og steinsugur á stofnuninna þannig að eftir verði aðeins um 25 manns.

Valdimar, þú færð mitt atkvæði. 

Atli Hermannsson., 5.11.2010 kl. 00:41

12 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Átli ég met mikils að fá atkvæði frá mönnum sem átta sig hvað fráleitt kvótakerfið er og hvað mikið er í húfi að fá það lagt niður

Valdimar H Jóhannesson, 6.11.2010 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband