Leita í fréttum mbl.is

Sérhagsmunagæsla Gróu

 Erfitt er að átta sig á því þessa dagana hverjir eru dapurlegri á alþingi Íslendinga, stjórnarþingmenn eða stjórnarandstaðan. Hvorugur hópurinn virðist átta sig á þeirri einföldu staðreynd að gjafakvótakerfið stenst hvorki stjórnarskrá landsins né Mannréttindayfirlýsingu SÞ sem íslensk stjórnvöld hafa staðfest og eru því siðferðilega skuldbundin til þess að framfylgja.

Umræður á alþingi ættu því ekki að snúast um hvort gera ætti óverulegar breytingar á kerfinu eða að láta það standa óbreytt. Umræðan á alþingi ætti að fjalla um hvernig unnt sé að koma á fiskveiðistjórnarkerfi sem virðir að fullu stjórnarskrá Íslands og Mannréttindayfirlýsingu SÞ.

Þetta ætti að vera ánægjuefni fyrir eðlilega og vitsmunalega menn þar sem löngu er orðið sýnt að kvótastýring á fiskveiðum er afar óhagkvæm aðferð til að nýta fiskimiðin með heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Bara sú staðreynd ein að við erum nú að veiða aðeins um þriðjung af þorskaflanum eins og hann var áratugum saman fyrir daga kvótakerfisins ætti að vera miklu meira en næg vísbending um hvað kvótastýringin hefur reynst þjóðinni illa. Það er eftir mikla að slægjast fyrir endurreisn landsins að nýta fiskimiðin betur og stórauka tekjur þjóðarinnar. Íslendingar gætu aftur orðið ein tekjuhæsta þjóð heimsins ef við hleypum skynseminni að í þessum efnum og stjórnmálastétt landsins áttar sig á því að henni er ætlað að þjóna almennum hagsmunum þjóðarinnar en ekki sérhagsmunaöflunum.

Því miður hefur vitsmunaleg umræða um fiskveiðistefnu ekki átt neina möguleika vegna þess að umræðan er jafnan leidd út um víðan völl og rugluð af hagsmunaaðilum. Þingmenn og fjölmiðlamenn hafa ekki reynst vanda sínum vaxnir og eru ævinlega fúsir til að fórna hagsmunum þjóðarinnar fyrir sinn persónulegan hag. Sennilega þýðir ekkert að brýna þessa menn til betri verka. Það hefur verið gert svo oft án árangurs.

Vandinn liggur kannski í því að þjóðin hefur aldrei komið augu á neinn valkost við fjórflokkinn. Þeir sem hafa boðið sig fram gegn fjórflokknum hafa aldrei öðlast traust hennar nema í of litlum mæli enda hefur fjórflokkurinn ávalt gætt þess að gert sé lítið úr slíkum einstaklingum með dyggri aðstoð Gróu úr Leiti.

Fyrir ca 12 dögum setti ég færslu á bloggið sem ég nefndi "Þursaflokkurinn" þar sem ég gagnrýndi alla stjórnmálaflokka fyrir svik við hagsmuni þjóðarinnar. Ég valdi fjórflokknum þetta nafn vegna frammistöðu sinnar í þessu máli. Ég fékk nokkrar velviljaðar athugasemdir við færslu mína. Af einhverjum tæknilegum ástæðum birtist athugasemd frá Lúðvík Emil Kaaber ekki fyrr en í morgun þegar engum dettur lengur til hugar að lesa bloggið. Mér finnst athugasemd Lúðvíks verðskulda að athygli sé vakinn á henni og birti hana því hér með en einnig má sjá hana undir bloggfærslunni sem heitir "Þursaflokkurinn"

 Athugasemd:
Valdimar segir um dóminn í máli hans frá 1998, að "vandinn gat aðeins legið í pólitískum ítökum í Hæstarétti".

Þetta er alveg rétt. En ég vil gera eftirfarandi athugasemdir:

Í máli Valdimars sinntu dómararnir skyldum sínum og dæmdu eftir lögum. Eftir á að hyggja fann maður það nokkuð vel meðan á málinu stóð, að rétturinn vildi láta lítið á því bera. Fulltrúa ríkislögmanns, sem var varnarmegin (gegn Valdimari) virðist hafa láðst að láta ráðherra vita af málinu og vara þá við. Afleiðingin var sú að rétturinn lýsti grundvöll fiskveiðistjórnekrfisins löglausan. Síðar hef ég fengið staðfest að mér var neitað um málið sem prófmál til málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti vegna þess að rétturinn vildi láta sem minnst á því bera. Orð Davíðs Oddssonar í fjölmiðlum eftir að dómurinn ver kveðinn upp eru í ágætu samræmi við það. Þar sagði hann meðal annars að dómur réttarins hefði litla sem enga þýðingu, sem sæist hvað bezt á því að málið hefði ekki verið talið tækt sem prófmál. Hann hundskammaði einnig réttinn, tiltæki sem sýnir betur en flest annað status og sjálfstæði réttarins, og þar með um leið eðli þess lýðveldis sem svo miklar vonir þjóðarinnar hafa  verið bundnar við fram á síðustu tíma.

Mikillar reiði gætti hjá Davíð þessum í garð réttarins. Ég man að eftir Vatneyrardóminn árið 2000, þegar Hæstiréttur sneri við blaðinu og dæmdi eins og stjórnmálaskúmum LÍÚ þóknaðist, ritaði Ragnar Aðalsteinsson grein í Moggann (það var áður en Mogginn var keyptur fyrir þýfi úr fiskveiðistjórnkerfinu og gerður að málgagni LÍÚ) og sagði að rétturinn hefði komið í veg fyrir "stjórnskipulega krísu" með því að segja kerfið löglegt nokkrum mánuðum síðar. Það held ég því miður að sé rétt. En ömurlegt er til þess að vita að dómarar í Hæstarétti séu, þegar á reynir, ekki meiri bógar en raun ber vitni.


Mál Valdimars sýndi að dómaragreyin vildu gjarnan fara að lögum. Þeir bara treystu sér ekki til þess þegar á það reyndi alvarlega nokkrum mánuðum síðar, í máli sem öll þjóðin fylgdist með í ofvæni. Kannske hefur þá ekki órað fyrir afleiðingum þess, enda eru dómarar víst stundum skipaðir í Hæstarétt eftir öðrum viðmiðunum en víðsýni. Afleiðingarnar eru, meðal annars, að þeir eiga tveggja kosta völ. Annað hvort verða þeir að gefa sig til kynna sem pólitískar hlaupatíkur, eða dæma áfram gegn stjórnskipunarlögum og alþjóðlegum mannréttindalögum. Það er ekki öfundsverð staða. Auðvitað eiga þeir alla samúð skilda, en í þessa stöðu hafa þeir sjálfir komið sér. Kannske er hún þægilegri en að hafa komist upp á kant við Davíð Oddsson árið 1999 eða 2000.

Þeir hafa þegar valið milli þessara tveggja kosta - eins og hið pólitíska kerfi í heild sinni virðist hafa gert. Það sést hvað best á því að enginn stjórnmálaforingi, ekki einu sinni kratar, sem þó ættu að standa næst því að vita hvaða grundvallarreglur einkenna lýðfrjáls samfélög, haf mannað sig upp í að segja berum orðum það sem satt er, að fiskveiðstjórnkerfið er ekki aðeins brot á alþjóðlegum mannréttindalögum, heldur einig, auðvitað, brot á íslenskum stjórnskipunarlögum. Rökræn afleiðing af því er einfaldlega sú, að íslenskum borgurum er óskylt að virða það. Í Háskóla Íslands verða lögfræðingar, að hluta til launaðir af LÍÚ til "lögfræðilegara rannsóknarstarfa" að grafa upp rök og tína til réttlætingar á lögleysu og stjórnarskrárbrotum,sem síðan er dælt yfir þjóðina með góðri hjálp sérhagsmunasamtaka og fjölmiðla. Hæstiréttur verður áfram að láta eins og mannréttindareglur stjórnarskrárinnar séu þar ekki. Það hefur honum haldist uppi fram að þessu í krafti áróðurs- og p!
 enngamáttar þeirra sem hann hefur kosið að þjóna. Herrar hans stjórna að vísu ekki alþjóðlegum mannréttindastofnunum, en hins vegar er það á valdi íslenska ríkisins að fara að dæmi harðstjóra í löndum sem íslendingar hafa til skamms tíma ekki talið þörf á að bera sig saman við, og leiða álit slíkra stofnana hjá sér.

Auðvitað er spilling og lögleysa fiskveiðistjórnkerfisins, sem er sennilega ekki síður undanfari bankahrunsins en einkavæðing bankanna - þó að hin marglofaða hrunskýrsla minnist ekki á það aukateknu orði - eitt helzta tilefni þess að talið er nauðsynlegt að reyna að fá íslenska stjórnskipun á hreint. Ég lít svo á að sjálfstæði ofannefndrar stofnunar sér eitt af því sem liggur þeim helst á sinni, sem hafa áhyggjur af velferð og framtíð lands okkar - kannske næst á eftir þeirri meðferð,sem fiskveiðiauðlindin hefur sætt af hálfu stjórnmálastéttarinnar. Ógilding Hæstaréttar á kosningunum til Stjórnlagaþings er engin tilviiljun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já þetta er það sem þarf að rannsaka Valdimar. Eftir 1993 fór af stað alda hagsmunagæslu þar sem engu var eyrt sem í var vegi kvótakerfisins. Hugmyndin um margfeldi kvóta-veðanna varð til í kringum "Tvíhöfðanefndina" og þegar veð-lána braskið hófst var ekki aftur snúið. 

Það sem liggur fyrir núna áður en þessum mönnum er falin áframhaldandi Einokun í 28 ár er að rannsaka þennan tíma og komast til botns í því sem fram fór. Í LÍÚ  og milli LÍÚ og ráðherranna Davíðs og Halldórs og LÍÚ og Hafró.  Davíðs og Hæstaréttar og ályktanir Hæstaréttar fram að stjórnlagaþinginu. 

Friðrik Arngrímsson er búinn að viðurkenna handstýringuna á úthlutun aflaheimilda til að halda háu og jöfnu verði á kvótanum og þar með afskiptin að úthlutunum aflaheimilda. 

Það á ekki að hygla glæpamönnum á kostnað nýliða sem er meinaður aðgangur að miðunum næstu 28 ár! Það þarf að AFNEMA KVÓTAKERFIÐ.

Ólafur Örn Jónsson, 6.6.2011 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband