Leita í fréttum mbl.is

Ólæsi bókmenntafræðingurinn

Óvanalegt er að vera kallaður klaufi, mannleysa, rola, löðurmenni, gunga eða bjálfi. Þetta er einkunn sem Örn Ólafsson, bókmenntafræðingur, gefur okkur, sem vörum við starfsemi moskna á Íslandi, í grein sinni „Heimóttarskapur moskufjenda“. Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir orðið heimótt þannig. Skrif Arnar í Morgunblaðið 9. september sl. eru með miklum ólíkindum. Hann setur sig á háan hest en er ekkert riddaralegur. Skrif hans sýna svo mikla afbökun staðreynda að jaðrar við ólæsi. Mátulegast væri að kalla hann ólæsa bókmenntafræðinginn. Þeir sem leggja til atlögu með ómaklegum orðum munu fyrir orðum falla svo að snúið sé út úr Matteusi (26:52): Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.

 

Örn segir fremst í grein sinni að „virðast höfundar þeirra pistla alls ekki hafa tekið eftir þeirri mosku sem lengi hefur staðið við þjóðbraut við Öskjuhlíð, engum til ama“. Í þessari stuttu málsgrein eru tvær staðreyndavillur. Moskan í Ýmishúsinu er svo til alveg ný - opnuð í fyrra. Ýmsir hafa orðið til þess að amast við þessari starfsemi og varað við henni. Þar á meðal er undirritaður með grein í Morgunblaðinu fyrir ári síðan undir fyrirsögninni „Boðun íslam stríðir gegn stjórnarskránni“. Greinina má lesa á síðu minni á Moggablogginu dags 10. september 2012. Ég hef undanfarin ár varað við hættu sem Íslandi stafar af íslam.

 

Þessi grein Arnar er önnur á stuttum tíma þar sem hann fer með staðlausa stafi um íslam. Fyrri greinin var mótmæli gegn grein minni í Morgunblaðinu 13. júlí sl. sem heitir „Vá fyrir dyrum“. Í grein sinni „Moskur og íslam“ beitir Örn því sérkennilegu atferli að fara með rangfærslur um skrif andstæðinga og ráðast svo gegn sínum eigin tilbúningi. Ég svaraði þessari grein Arnar með bloggfærslu 15. ágúst og hét svargreinin „Er ekki í lagi“.

 

Í grein sinni núna segir Örn: „Enginn hefur getað mótmælt þeim ábendingum mínum að á hámiðöldum hafi múslímar staðið á miklu hærra menningarstigi en Evrópubúar“. Eins og áður eru tvær rangar staðhæfingar í þessu. Í fyrsta lagi er þetta ekki ályktun hans sjálfs heldur vitleysa sem hann lepur upp eftir illa upplýstum mönnum eða sögufölsurum. Hin ranga staðhæfingin er, að enginn hafi mótmælt ábendingum hans. Ég hef mótmælt þeim. Fjöldamargir virtir fræðimenn hafa mótmælt þessari söguskoðun sem algjörri staðleysu.

 

Mýta margra, sérstaklega vinstri menntamanna, um að íslam hafi staðið fyrir gullöld í Mið-Austurlöndum, á Spáni og víðar er alveg glórulaus. Það vantar ekki að skrifaðar hafi verið vitlausar bækur um þetta efni. Bókmenntafræðingur ætti að skilja flestum betur að það jafngildir ekki sannleikanum að eitthvað rati í bækur. Öllu skiptir að lesa réttar bækur og nota almennt hyggjuvit.

 

Plássleysi gerir ókleift að svara öllum rangfærslum Arnar og röngu ályktunum. Tökum þó tvö dæmi. Hann segir okkur andsnúna íslam vegna þess að við erum kristnir. Samt erum við ekki andstæðingar annarra trúarbragða en íslam. Hann segir gullnu regluna vera sammerkta öllum sem trúa á guð (allah). Gullna reglan „allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“ er ekki til í íslam nema meðal múslímskra karlmanna í sömu sérdeild. Hún nær ekki til kvenna, barna og síst til fólks af öðrum trúarbrögðum eða annarra deilda íslam.

 

Ef Örn vill rísa undir þeirri ábyrgð sem fylgir að taka að sér uppfræðslu fyrir almenning þarf hann að vanda sig. Hann þyrfti t.d. að hlusta eftir því sem Ahmed Akkari, ímami í Danmörku, sem setti uppþotin í gang vegna Múhameðsteikninganna 2005, segir núna. Hann viðurkennir villu síns vegar. Hann sagði opinberlega í síðasta mánuði að öllum moskum og samtökum múslíma í Danmörku sé stjórnað af íslamistum þ.e. ofstækisfullum múslímum sem fylgja íslam í hvívetna. Varla þarf að taka það fram að ímaminn er núna á dauðalista múslíma. Það er hrapalleg einfeldni að halda að íslamistar stjórni ekki hér á landi vitandi að fjármunir til starfseminnar koma frá slíkum öflum við Persaflóann.

 

Hámenning heimsins hefur risið upp af kristni. Íslam hefur alið af sér glundroða, fátækt, menntunarleysi, ófrið og hörmungar. Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá. Þar sem hámenning heimsins ríkti fyrir daga íslam í Mið-Austurlöndu, Persíu og á Indlandsskaga ríkir nú víðast eymd og volæði. Ekkert gott mun hljótast af starfsemi íslam hér á landi frekar en annars staðar. Megi gæfan styrkja okkur í að standa gegn ómenningu og óhamingju alræðis- og ófrelsisstefnu íslam. - Því spyr ég Örn Ólafsson, bókmenntafræðing í Kaupmannahöfn og hans líka: Eru verk nytsamra sakleysingja, sem vörðu nasisma og kommúnisma og rugluðu umræðuna endalaust, ekki vítin til að varast?



 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

"Hámenning heimsins hefur risið upp af kristni."

Hvað með menningu fornþjóða t.d. Egifta, nú eða Grikkja, Kínverjar? Engir þeirra voru kristnir.

Stóð kristna kirkjan ekki á móti framförum á miðöldum t.d. með því að brenna kenningasmiði? 

Lítil hámenning þar.

Hvernig er hægt að treysta því að kristnir menn taki bara sumt gilt úr biblíunni en ekki líka eitthvað annað sem ekki fellur alveg að nútímahugmyndum um mannréttindi?

Það má vel vera að rétt sé að banna moskur á Íslandi, en ég get ekki betur séð en með sömu rökum sé réttast að banna líka kirkjur.  Eða hvernig er hægt að fullyrða að galdrabrennur verði ekki teknar upp aftur?

Það væri a.m.k. fyrsta skref að hætta að láta skattgreiðendur halda þessu uppi.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.9.2013 kl. 12:19

2 identicon

Þakka þér fyrir þessa frábæru grein. Hún tekur vel á vandanum. Þessar fullyrðingar um hámenningu múslíma á Miðöldum eru hálf hjáróma þegar litið er til staðreyndanna. Hér er slóð á fyrirlestur Bill Warners um íslamskar goðsagnir frá Miðöldum:

http://www.liveleak.com/view?i=880_1374688072&fb_source=message

Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 12.9.2013 kl. 15:14

3 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Þessi spurning með galdrabrennur er nú ekki eins mikill brandari og þú gætir kannski haldið .Staðreyndin er nefnilega sú að í háborg íslam, Saudi-Arabíu er ennþá verið að hálfshöggva fyrir galdra eða svo var a.m.k. til mjög skamms tíma. Galdrabrennur gætu því hafist aftur á Íslandi ef íslam nær hér slíkri fótfestu sem stefnt er að.

Hámenning heimsins ríkir í vestrænum samfélögum nútímans. Þó að Egyptar eins og Kínverjar og Grikkir hafi vissulega átt glæsilegan tíma til forna þá nálgast sú menning ekki þá hámenningu sem við búum nú við í kristnum samfélögum.

Engum dettur til huguar að neita því að ýmislegt ljótt gerðist í kristnum samfélögum fyrri tíma en hitt má svo heldur ekki gleymast að skólar, lærdómssetur, spítalar, fátækrahjálp var öll á vegum kirkjunnar. Kirkjan myndaði innviði íslensks samfélags til siðaskipta. Eftir siðaskiptin lagðist djúp kreppa yfir landið sem varði í fimm aldir þar til Íslandingar tóku sjálfir málin í sínar hendur.

Ég er enginn talsmaður kirkjunnar þó að mér sé hlýtt til hennar en svo mikið veit ég að kristnin byggir á nýja testamenntinu en ekki því gamla. Sagt er frá ýmsu miður fallegu í biblíunni en frá því er  sagt eins og hverri annarri sagnfræði en ekki til eftirbreytni. Kóraninn og trúarbækur íslam eru hins full  af hatursfullum fyrirmælum til múslíma. Þar liggur munurinn!

Valdimar H Jóhannesson, 12.9.2013 kl. 15:34

4 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Heill og sæll Skúli

þarft að sem flestir hlusti á fyrirlestur Bill Warners. Hann er einkar skýr og aðgengilegur. Ég birti hér slóðina aftur  til að auðvelda lesendum að finna hann.

 http://www.liveleak.com/view?i=880_1374688072&fb_source=message

Valdimar H Jóhannesson, 12.9.2013 kl. 16:01

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þótt ég sé nú trúlaus og forakti alt sem við kemur trúarbrögðum, þá finnst mér merkilegt að sjá menn sem í langri grein saka aðra um staðleysur og þekkingarleysi, gera slíkt hið sama.

Þú fullyrðir að hámenning heimsins byggi á kristnum grunni, þegar í raun má segja að trúarbrögðin hafi reynt hvað þau geta til að kæfa þekkingu og sannleiksleit á vísindalegum grunni. Von að menn nefni hinar myrku miðaldir, sem er raunar um 1500 ára tímabil hnignunnar á vísinda og þekkingarsviði sem og í almennri velferð.

Hins vegar var Islam á sama tíma hugmyndafræði að hluta, sem upphóf vísindi og þekkingarleit, enda eru margar merkar uppgötvanir miðalda þaðan komnar.

Kristnir brenndu bækur og ofsóttu vísindalega þenkjandi fólk á meðan Arabar stóðu vörð um og söfnuðu vísindaritum. Ef ekki væri fyrir þá, þá væri þekking fornaldar glötuð því þeir varveittu grísku heimspeki og vísindaritin.

Ég vil ekki sjá Mosku á Íslandi. Ég vildi helst að kirkjan sem stofnun heyrði sögunni til, en get ekki orða bundist þegar ég sé svona rakalausa þvælu borna á borð af kristnum öfgamanni eins og þér.

Þú ættir að skammast þín og hafa vit á því að halda þekkingarleysi þínu og blindni fyrir sjálfan þig í stað þess að gera þig ítrekað opinberlega að atlægi.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.9.2013 kl. 21:52

6 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Ja hérna Jón Steinar

Þó að ég hafi tekið þá almenna afstöðu að birta ekki athugasemdir frá þeim sem kunna ekki almenna mannasiði þá ákvað ég að birta athugasemdina frá þér svo menn gætu kynnst heittrúðum trúleysingja eins og þér. Ég er nefnilega sjálfur svo volgur í trúleysinu að ég uni öllum að hafa þá trú sem þeim sýnist ef þeir hafa trúnna til sinna einkanota. Ég tel meira að segja í lagi að fólki trúi á stokka og steina svo fremi sem þeir nota ekki steinana til að grýta mig.  Mér er í meira lagi skemmt þegar ég er kallaður kristinn öfgamaður!!!!

Þú ert ekki sérlega sleipur í sagnfræðinni þó að þú sért svolítið góður með þig. Hafðu ekki áhyggjur. Þú getur bætt úr því ef áhugi þinn stendur til þess. Passaðu þig samt að velja vel bækurnar. Allar bækur eru ekki jafn góðar og sumar meira að segja afar vitlausar. Mér sýnist þú hafa verið svolítið í þeim. Þér er frjálst að lesa blogggreinar mínar hér á síðunni. Þú þarft ekki að vera sammála en það gæti kannski kveikt í þér efasemdir. Hlustaðu t.d. á hann Bill Warner. Strengur á fyrirlestur hans um þennan tíma sem þú þykist vita allt um er í athugasemd minni hér að ofan en einnig hjá Skúla Skúlasyni. Að lokum þetta: Það er allt í lagi að vera ósammála en reynum að vera kurteisir. Ég mun ekki birta athugasemd frá þér aftur nema hún sé hófsamlega fram sett. Þá máttu hafa jafn vitlausar skoðanir, að mínu viti, eins og þú vilt.

Valdimar H Jóhannesson, 13.9.2013 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband