Leita í fréttum mbl.is

Svanasöngur dánumanns

Í dag er til moldar borinn einn mætasti lögmaður þjóðarinnar, Magnús Thoroddsen. Engan hef ég heyrt efast um glöggan skilning hans á lögum og stjórnarskrá landsins né efast um heilindi hans, réttsýni eða drenglyndi. Því vil ég ryfja nú upp seinustu opinberu
afskipti hans af þjóðmálum að því er ég best veit, - grein í Mbl 29. júní í sumar um hin dæmalausu og hneykslanlegu fiskveiðistjórnarlög.  Þessi grein á jafn mikið erindi við þjóðina í
dag eins og í sumar og alla tíð þar til þessi ólög verða leiðrétt:

Hér kemur greinin:

Fiskveiðigjaldið

Eftir Magnús Thoroddsen

 

Á hinu háa Alþingi er enn á ný kominn upp ágreiningur um fiskveiðigjaldið. Það argaþras mun vakna upp aftur og aftur,
bæði með þingi og þjóð, því að núgildandi kerfi er eins heimskulegt og löglaust, sem hugsast getur. Skal þetta nú rökstutt ítarlegar:

Heimskulegt kerfi

Heimskulegt er þetta kerfi vegna þess að veiðigjöldin eru ákveðin pólitískt. Hver maður með gripsvit gat sagt sér það fyrirfram, að um slíkt kerfi yrði aldrei friður. Deilt yrði um það endalaust.

Vitanlega á að setja allar fiskveiðiheimildir á opinbert uppboð á frjálsum markaði. Það eru þá útgerðarmennirnir sjálfir, sem ákveða verðið og þjóðin, eigandi auðlindarinnar fengi „fullt verð" fyrir eign í skilningi 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33, 17. júní 1944, með síðari breytingum. Þá yrði ekki frekar um verðið deilt.

Bjóða ætti leiguheimildirnar upp til alllangs tíma - 15-20 ára - til þess að skapa festu í atvinnugreininni. Binda ætti leiguverðið - til hækkunar eða lækkunar - við útgerðarvísitölu frá ári til árs.

Sjálfsagt er að skipta uppboðsheimildunum niður á skipaflokka eftir stærð, t.d. 25% á smábáta, 25% á togara, 25% á skip þar á milli og síðan færi afgangurinn 25% á byggðirnar.

Heimilt ætti að vera að framselja veiðiheimildirnar enda hafa þær verið keyptar „fullu verði" af þjóðinni. Ekki mætti þó framselja nema innan viðkomandi bátaflokks og byggðarlags. Setja þyrfti þak á það eins og nú er, hversu miklar veiðiheimildir hver útgerð eða samsteypa mætti kaupa.

Löglaust kerfi

Fiskveiðistjórnunarkerfið nær aðeins til þröngs hóps útgerða. Vilji nýliðar komast inn í þetta kerfi þurfa þeir að kaupa sig inn í það á okurverði - ekki af eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðinni, heldur þeim sem úthlutað hefir verið veiðiheimildum, ýmist ókeypis
eða við vægu verði. Hér er því í raun um lokað einokunarkerfi að ræða, sem kvótahafar og pólitísk öfl hafa verið að reyna að festa í sessi, handa forréttindastétt í þjóðfélaginu. Þetta er brýnt brot á 65. gr. Stjórnarskrárinnar um jafnrétti allra þegna þessa þjóðfélags.

Í öllum stjórnarskrám Íslands, allt frá þeirri fyrstu, 5. janúar 1874, „um hin sérstaklegu málefni Íslands", 60. gr. hafa forréttindi einstakra þjóðfélagshópa verið bönnuð og fyrirskipað að
uppræta þau, er enn kynnu að vera við lýði.

Því er það forkastanlegt, að núverandi fiskveiðistjórnunarlög (lög. nr. 116/2006), sem lögleysa þessi höktir á, skuli enn standa, og það þrátt fyrir þær ágætu breytingar, er gerðar voru á Mannréttindakafla Stjórnarskrárinnar árið 1995 (sbr. stjskl. nr. 97/1995).

Má furðulegt heita, að þetta löglausa kerfi skuli enn vera við lýði, þrátt fyrir 80% andstöðu þjóðarinnar við það. Þetta deilumál verður eingöngu leyst pólitískt, dómstólaleiðin brást. Sjálfsagt er að hafa um það bindandi þjóðaratkvæði.

Yrðu allar fiskveiðiheimildir settar á uppboð á frjáslum markaði, yrði framangreint einokunarkerfi brotið upp, eðlileg nýliðun hæfist í útgerðinni og allir þegnar landsins öðluðust sama rétt til fiskveiða.

Þegar uppboðsleiðin verður farin, ynnist tvennt:

Í fyrsta lagi yrðu það útgerðarmennirnir sjálfir sem ákvæðu leiguverðið, en ekki stjórnmálamenn. Í öðru lagi sætu allir við sama borð, eftir að fyrirkomulag þetta hefir verið tekið upp að svo miklu leyti, sem um slíkt getur verið að ræða, eftir þann gríðarlega þjóðarauð, er kvótahöfum hefir verið færður á silfurfati frá árinu
1983 allt undir hið síðasta.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Því fyrr sem kvótakerfinu verður breytt til ofangreinds horfs, þeim mun fyrr verður friður um það milli þings, þjóðar og útgerðar.

Ella heldur ófriðurinn og argaþrasið áfram."



 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég stend persónulega í mikilli þakkarskuld við Magnus Thoroddsen. Hann var heiðursmaður af guðsnáð.  Blessuð sé minning hans.

Hrefna Lúðvígs Coe (IP-tala skráð) 24.10.2013 kl. 15:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var synd hve litlu munaði að Magnús Thoroddsen kæmist í stjórnlagaráð, því að það hefði munað um hann þar. Sjaldgæft er að einn lögspekingur rassskellti eins landsfeður eins og hann gerði með einni blaðagrein, þegar þeir Geir og Halldór reyndu að koma fram þeim óskapnaði, sem tillaga þeirra um auðlindanýtingu var á útmánuðum 2007.

Hann setti fram miklu betri tillögu og með leyfi hans lagði ég hana fram sem gagn hjá stjórnlagaráði.

Ómar Ragnarsson, 24.10.2013 kl. 17:26

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Las þessa grein þá hún kom fram og líkaði, en það undarlega gerðist að það gagnrýndi hanna eingin að því er ég best veit. 

Það eru varla margar skýringar á því, og þar með held ég að allir, hvar sem þeir standa, sjái og viti að mál Magnúsar Thoroddsen í þessari grein var óhrekjanlegt, með heiðarlegum hætti.

Þakka þér Valdimar.     

Hrólfur Þ Hraundal, 24.10.2013 kl. 17:49

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ómar Ragnarsson, þú maníski stjórnlagaráðs maður. Stjórnlaga ráð var ekki smíðað handa Íslenskri þjóð.  Stjórnlagaráð var smíðað handa þeim sem í því sátu og heilagri Jóhönnu sem valdi í það manskapinn.

Hrólfur Þ Hraundal, 24.10.2013 kl. 18:00

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Skil ekki þessi einkennilegu skilaboð frá Hrólfi og hvað hann á við.

Magnús Thoroddsen var mjög góður, víðsýnn og farsæll lögfræðingur. En eitt varð honum að falli sem er dæmigert um mannlegan breiskleika: Sem handhafi forsetavalds sem forseti Hæstaréttar keypti hann í skjóli réttinda sinna allmiklar áfengisbirgðir. Það komst í hámæli og kaus Magnús til að lægja öldur að segja af sér embætti sem hæstaréttardómari. Með því sýndi hann bæði réttsýni og að hann hafði ekki sýnt af sér hegðun „bonus pater familias“ sem sagt breytt rétt eins og kristilegum og löghlýðnum manni. Mættu aðrir embættismenn taka hann sér til fyrirmyndar hvað það viðvíkur.

Á síðustu dögum er það mun alvarlegra og varðar mannréttindi þegar stjórnmálamaður og ráðherra, yfirmaður lögreglunnar tekur ákvörðun um að siga lögreglunni á hóp andstæðinga sinna og handtaka. Þessi stjórnmálamaður er með þessu að færa Ísland nær fasisma en verið hefur. Við þurfum á flestu öðru að halda en fasisma og hörku gagnvart fólki sem kann að hafa aðrar skoðanir en einhverjir aðrir.

Guðjón Sigþór Jensson, 24.10.2013 kl. 23:42

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Vegna vanskilnings G.S. Jenssonar Kl. 23.42. 

Þá er það svo, að þegar ítarleg umfjöllun um mál sem búið er að fjasa um í áratugi, eins og grein Magnúsar Thoroddsen fjallaði um, en sú umfjöllun fær enga gagnrýni, þá hlýtur hún að vera sönn. 

Sama hverra hagsmuna menn hafa að gæta, þá sést að hún er sönn. Sniðugt að blanda gömlu brennivíns máli í þessa umræðu.

Hrólfur Þ Hraundal, 25.10.2013 kl. 08:34

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvernig Magnús brást við gagnrýni var honum til mikils sóma sem margir aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar. Þetta mál hefur verið honum ábyggilega erfitt en hann kvaðst hafa fylgt freistingum sem margir aðrir féllu fyrir. En hann ákvað þetta sjálfur og hafði vegsemd af.

Hefði verið minnast á þetta áfengismál og núið honum á nasir og gera minna úr persónu hans hefði verið hneykslisvert. Greinilegt er að Hrólfur virðist ekki átta sig á þessum skýra mun.

Guðjón Sigþór Jensson, 25.10.2013 kl. 12:45

8 Smámynd: Júlíus Björnsson

Magnús Thoroddsen var viðurkenndur  hafa besta orðaforða í erlendum Alþjóðlögum rituðum á ensku uppmerkingar máli. Aðrir Íslendingar hafa lítinn sem engan lestrarskilning ennþá í dag, ekki frekar en "under gratuated" Bretar.  Til að skilja Bresk lög er best læra Frönsku þar sem allar lagmerkingar orða eru þar aðgengilegar og þinglýst frá um 1715. Þá þarf að læra Frönsku eins 4,0% greindustu Frakkar læra hana á hverju ári. 

Það er hægt að leggja skatt hér á heildar reiðufjár innkomu allra einstaklinga af markaði   hlutfallslega jafnt fyrir grunni öryggisgjald og í framhaldi þrepskipt [persónu afláttur hækkar með hverju nýju þrepi] fyrir  rekstrakostaði stjórnsýslustiga.    Þýskir neytendur og Breskir borga ekki Íslenskt auðlinda gjald.  Við flytjum inn vörur í skiptum fyrir vörur [án vsk. fellur niður] til að leggja á launskatta og vsk. Það tryggir Evrópska Sameiningin.  Vsk. er mælikvarði á heildar raun-arði af auðlind og hann greiðir loka kaupandi.

Sum ríki skattleggja skip eftir stærðum , til þess vera ekki sakaðar um að mismuna.  EES krefst keppnisfærni í "Faire trade" heiðarlegum vsk. vöru og þjónustu við skiptum. "Business" er notað um önnur viðskipti.

Júlíus Björnsson, 30.10.2013 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband