Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Heimsendabull verðlaunað

Ég sá kvikmyndina Kona fer í stríð tvisvar og var stórhrifinn vegna listilegrar gerðar hennar. Mér kom því ekki á óvart að hún fengi verðlaun Norðurlandaráðs, m.a. vegna framúrskarandi kvikmyndatöku, leiks, handrits, leikstjórnar og vandaðrar tækni. Ég tók myndina sem lýsingu á náttúrufasískum öfgum samtímans. Verið væri að gera góðlátlegt grín að fólki sem hefði ánetjast æðinu. Stríðskonan var bráðfyndin þar sem hún æddi um í heilögu stríði gegn einhverju sem hún skildi mest lítið í, hafandi orðið fórnarlamb ofstækisfullrar umræðu sem hefur snúist um haldlítil rök og ódýran hræðsluáróður heimsendaspámanna. Mér fannst myndin vera gott háð um umhverfisæðibunuganginn.

Mér kom því ónotalega á óvart að skapendur myndarinnar sjálfir eru í heilögu stríði og fá líklega þessi verðlaun fyrst og fremst vegna þess en ekki vegna þess að þeir eru að bregða upp mynd af ýktum umræðum nú um stundir bíógestum til skemmtunar og íhugunar. Eigum við virkilega að dást að þessari snargölnu konu í krampakenndri sjálfsupphafningu, sem ræðst gegn því samfélagi sem fóstrar hana?

Ávarpsorð Benedikts Erlingssonar leikstjóra við verðlaunaafhendinguna tóku af allan vafa um að aðstandendur myndarinnar eru einstefnumenn, sem eru fyrst og fremst að framleiða áróðursmynd sem ætti að jafna við aðrar hættulegar myndir af sömu sort. Kvikmynd Leni Riefenstahl, Triumph des Willens, sem var áróðursmynd nasista, framleidd 1935, kemur fyrst í hugann. Kannski verða Benedikt og félagar upp með sér að ég líki mynd þeirra við eina frægustu áróðursmynd allra tíma en þetta er ekki hugsað sem hrós hjá mér. Satt að segja féll myndin algjörlega í áliti hjá mér þegar ég gerði mér grein fyrir því hvað hún er fávís og margþvæld tugga meðalmennskunnar.

Myndin ýtti þó við mér, - en með öðrum hætti en áróðursmennirnir ætla, - ekki síst þegar ég hélt áfram að heyra bullandi grunnhyggni í laugardagsþætti Gísla Marteins. Allir viðmælendur hans tóku undir búralegt yfirlæti Benedikts sem sat þar í upphöfnum véfréttarstíl, - handhafi stóra sannleikans. Fullyrðingar um að núna séu síðustu forvöð að bjarga heiminum vegna ofhitnunar og hamfara henni samfara eru að mínu mati glórulaust bull eftir að hafa heyrt í fjöldanum öllum af merkustu vísindamönnum heims um þetta efni. Þeir harðneita því að nokkur vandi stafi af koltvísýringi ættuðum úr mannheimi né koltvísýringi almennt, enda helsta byggingarefni lífsins og í minna magni í andrúmslofti nú en oft áður í sögu jarðar.

Sumir kynnu að ætla að svona orðræða sé meinlaus. Telji þægilegast að fylgja fjöldasefasýki heimsins því að óneitanlega blása vindarnir helst í þessa átt núna. Benedikt gerir því eins og Riefenstahl sem flaut með straumnum og naut góðs af. Eins og mynd Riefenstahl leiddi til aukinna hörmunga mun áróður umhverfisofstækisins leiða illt af sér nema ljósgeisli almennrar skynsemi geti brotið sér leið í gegnum myrkrið og þöggunina sem andstæð sjónarmið hafa mátt þola.

Svona grunnhygginn áróður mun kosta íslenska skattgreiðendur mikið og fækka tækifærum til þess að taka á aðkallandi verkefnum vegna aukins kostnaðar af dýrum lausnum þar sem ódýrari lausnir blasa við. Hann mun skila þjóðinni lakari lífskjörum og verra mannlífi. Nær væri að snúa af þeirri braut sem stjórnmálamenn hafa kallað yfir okkur með Parísarsamkomulaginu alræmda og fyrirsjáanlegra tröllaukinna umhverfissekta sem þjóna engum markmiðum nema að drekra við sjálfbirgingana, sem hafa leitt þetta yfir okkur.

Svo ekki sé talað um sprenghlægilegu ímyndarsölumennskuna með kolefniskvótum. Þetta og ætlun stjórnvalda að fylla upp í mýrarskurðina út um allt land sem kostuðu tugi milljarða króna af almannafé er svo fráleitt að Orwell og Huxley hefðu aldrei sett það í bækur sínar þó að þeim hefði dottið slík geggjun í hug. Þeir vissu að enginn hefði getað trúað svo ýktri mynd af framtíðinni!

Með því að hafna bestu orkugjöfum hvers tíma er verið að dæma Íslendinga til minni velmegunar og leiða yfir vanþróuðu löndin hörmungar sem einnig munu hitta okkur fyrir. Þróunarlöndin munu aldrei komust upp úr fátæktinni nema þeim standi til boða hagkvæm orka. Umhverfisofstækið er að dæma þessi lönd til áframhaldandi fátæktar. Ódýra orkan og vélaraflið dró okkur upp úr volæðinu á síðustu öld og er ein helsta forsenda velmegunar okkar.

Mynd Riefenstahl hóf nasismann til skýjanna og ruddi þar með meiri hörmungum braut en ella hefði orðið. Gjörð aðstandenda myndarinnar Kona fer í stríð er ekkert betri, - kannski verri. Erfiðara var að fara á móti straumnum í Þýskalandi nasismans en á móti sefasýkinni núna. >> Fullyrðingar um að núna séu síðustu forvöð að bjarga heiminum vegna ofhitnunar og hamfara henni samfara eru að mínu mati glórulaust bull.

Þessi grein birtist í Mbl í dag 10.11.2018


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband