Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Ekki mikið álit á guði

Því ber að fagna að langflestir íslenskir læknar,- á fimmta hundrað talsins, skuli hafa siðferðislega burði til að standa með frumvarpi Silju Daggar, sem er stefnt gegn umskurði sveinbarna á íslandi. Þeir láta það fylgja með yfirlýsingu sinni að umskurn drengja stuðli ekki að betri heilsu né hafi fyrirbyggjandi áhrif og eiga þar sennilega aðallega við hugmyndir um að umskurn bægi frá hættu á meini í getnaðarlim. Þvert á móti valdi þessi aðgerð sársauka og geti leitt til alvarlegra og jafnvel langvarandi fylgikvilla. Læknar sverja við Hippokratis að rækja starfs sitt „umfram allt ekki til skaða“. Það skyldu fleiri gera og þá sérstaklega þeir sem stöðu sinnar vegna geta haft áhrif á framvindu þessa máls.

Læknarnir láta þess ekki getið að fjöldi sveinsbarna deyr eftir þessar aðgerðir. Í Bandaríkjunum einum eru skráð hátt í 200 slík dauðsföll árlega en allir vita að þau eru miklu fleiri. Mikillar viðleitni gætir að skrá aðrar dánarorsakir en umskurðar til þess að fela þessi skammarlegu tilfelli. Ef sveinbarn smitast t.d. af heilahimnubólu í gegnum sárið á limnum þá er heilahimnubólga skráð sem dánarorsök þó að ljóst sé að hann hefði aldrei smitast án þessarar ónauðsynlegu og skaðlegu aðgerðar. Auk líkamlegra afleiðinga kemur svo til andleg kröm, sem umskornir einstaklingar hafa sumir hverjir kvartað undan.

Það þarf ekki að fjölyrða um fjölda dauðsfalla þar sem umskurðir eru gerðir utan spítala af ófaglærðum. Til marks um það er sú regla í gyðingdómi til forna, að hafi foreldrar misst þrjú fyrstu sveinbörn sín eftir umskurn þá þurftu þau ekki að láta umskera þann fjórða. Kannski vilja þeir sem leggjast gegn þessu frumvarpi innleiða í þess stað í lög á Íslandi, að gyðingar og múslímar á Íslandi megi ekki umskera fjórða sveininn ef aðgerðir hafa mislukkast svona leiðinlega með þá fyrstu þrjá!

Andstæðingar frumvarpsins hérlendis láta svo sem að þeir sem styðja frumvarpið séu haldnir gyðingahatri. Gyðingar skilji það svo að að því sé beint gegn gyðingdómnum. Umskurn drengja sé hluti af sáttmála gyðinga og guðs og því væri samband gyðinga við guðdóminn í hættu a.m.k. hér á landi. Ég hef alltaf talið mig vera stuðningsmann gyðinga og hef komið fram sem slíkur. Þessi sjónarmið eru móðgandi gagnvart gyðingum að mínu mati. Ég tel gyðinga fullfæra um að skilja sjónarmið annarra en sjálfra sín. Þeir væru ekki sú frábæra þjóð sem raunin er ef þeir gætu það ekki.

Þá eru þessi lög að sjálfsögðu engin hindrun í því að múslímar jafnt sem gyðingar geti komið til Íslands og búið hér , jafnt umskornir sem heilir, konur sem karlar. Hér er þegar búsettur mikill fjöldi umskorinna karla og kvenna og ekkert sem við getum gert við því nema sýna samúð með þeim vegna þess ofbeldis sem þau máttu þola sem börn og búandi við afleiðingar þess síðan, - fengu ekki að njóta verndar barnasáttmála SÞ eða almennra mannréttinda. Þeir gyðingar og múslímar sem hafa áhyggjur af sambandi við guðdóminn ættu að hafa þess völ sem fulltíða menn að láta umskera sig ef þeir geta fengið lækni til starfans.

Umskurn drengja byggist á gamalli bábilju, - er eins konar blóðfórn sem jafnt gyðingar sem múslímar eiga að taka til endurskoðunar svo ekki sé talað um hina hryllilegu umskurn á múslímskum stúlkum. Það væri ekki merkilegur guð sem klúðraði svo sköpunarverkinu að byrja þarf á að leiðrétta það um leið og það birtist mönnunum. Þeir, sem styðja áframhaldandi umskurn, hafa ekki eins háar hugmyndir um guðdóminn og ég hef, nánast trúlaus maðurinn. - Vinur er sá er til vamms segir.

 

 


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband