Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Yfirdrepið sveipað möttli með mítur á hausnum

Sjaldan hefur fáránleiki þjóðkirkju nútímans blasað jafn vel við og núna um helgina við vígslu nýs vígslubiskups að Skálholti. Morgunblaðið hjálpaði lesendum sínum að sjá hvað hún er langt leidd í eigin upphafningu, sjálfsdekri, skilningsleysi á erindi sínu við nútímann og einangrun frá þjóðinni.

Forsíðumynd blaðsins sýnir heila hersingu af silkihúfum í orðsins fyllstu merkinu ganga til kirkju með flaksandi skikkjur eða umsveipaðir möttli með asnalegt mítur á hausnum og datt mér satt að segja í hug að þarna væri fréttamynd af töku kvikmyndar um tímann fyrir upplýsinguna þegar biskupar, prestar og prelátar kaþólismans fyrir siðskiptin sýndu með búningi sínum sauðsvörtum almúganum að þeir væru með sérstaka velþóknun hinnar heilögu þrenningar og eins gott fyrir púka, djöfla og illar vættir að halda sig fjarri. Eða var kannski búið að endurvekja Spaugstofuna? Eða kannski siðskiptin hafi gengið til baka?

Eftir því sem kirkjan fjarlægist þjóðina meira þeim mun meira hefur prjálið og yfirdrepsskapurinn aukist þannig að öllu almennilegu fólki hlýtur að verða bumbult af. Er furða þó að kirkjur standi tómar flesta daga ársins nema í jarðarförum þegar við flykkjumst í kirkjur til að sýna minningu látinna samferðamanna virðingu okkar og eftirsjá, á jólum og í skyldumætingu við fermingarundirbúninginn. Prestar landsins eru tónandi ámátlega í kirkjum sínum nánast einir síns liðs fyrir utan þá sem starfa í kirkjunum.

Kirkjan virðist hafa valið sér það hlutskipti að vera sett til hliðar í lífi þjóðarinnar og heldur að hægt sé að hressa upp á dvínandi virðingu með prjáli, silki og purpura. Kirkjan er að kyrkja sjálfa sig með því að neita að taka þátt í þörfum nútímans. Hún er nánast ekki lengur til mikils gagns. Hér þarf að koma skýrt fram að þessi hörðu orð eiga ekki við alla þjóna kirkjunnar en sannarlega við þá sem hafa ráðið för. Meðal presta landsins eru nokkrir heiðursmenn. Enginn má við mörgum og þungum straumi meðalmennskunnar.

Þetta þarf ekki að vera svona. Kirkjan ætti að hafa stórt hlutverk en víkur sér undan skyldum sínum - snýr nefinu upp í loft. Meira að segja maður eins og ég sem þykist ekki vera trúaður á sjálfa helgisöguna er sannfærður um að við þurfum að standa þéttan vörð um kristnina, sem eina veigamestu stoð vestrænnar menningar. Ég viðurkenni einnig þörf sem flestir hafa að leita skýringa á tilveru sinni utan hins sýnilega veruleika. Trúin er mörgum líkn - sérstaklega á erfiðum stundum lífsins.

Hættur steðja nú að menningu Evrópu, sem ýmsir kjarkmiklir ofurhugar keppast við að benda á þrátt fyrir hættur sem steðja að þeim sakir málflutnings þeirra. Það er sótt að grunnstoðum menningar Evrópu - kristninni, gyðingdómnum, hinni heiðríku grísku heimspeki, Rómarréttinum og upplýsingarstefnunni. Kirkjan lætur sig ekkert varða þó að kristni hafi verið eytt nánast alveg með ofbeldi í öllum Mið-Austurlöndum þar sem vagga kristni og grískrar menningar var - já vagga þeirra vestrænu menningar sem við búum enn við og er án vafa langglæsilegasta menning sem heimurinn hefur séð. Þessi árin er verið að kreista síðustu dropana úr kristninni á þessum slóðum þannig að eftir stendur sviðin jörð með glundroða, vankunnáttu, fátækt og manndrápum. Og kirkjan segir ekki neitt, sem er skiljanlegt því að hún hefur enga þekkingu á því við hvaða öfl er að eiga.

Saga Mið-Austurlanda er lýsandi dæmi um hvað er í vændum fyrir Evrópu ef almenningur, en þó umfram allt varðmenn samfélagsins, halda áfram að sofa á verðinum. Íslam er fyrst og fremst pólitísk hugmyndafræði um það hvernig á að hremma allt mannlegt samfélag heimsins undir þessa hörðu kló. Íslam sækir svo hratt á í Evrópu, að sumum löndum Evrópu er ekki hugað framhaldslíf sem vestræn landsvæði. Þar má taka sem dæmi Svíþjóð, Þýskaland, Frakkland, Belgíu og Bretland. Þegar þessi lönd falla styttist í næstu lönd og að lokum mun öll Evrópa falla inn í þetta ægilega myrkur og einnig við.

Ath. Þessi grein sem birtist í Mbl í dag var skrifuð eftir síðustu helgi og er því verið að vísa í vígsluna í Skálholti sem var við næst síðustu helgi


Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband