Upplýst hefur verið að Bandaríkin og NATO-veldin hafi eytt tveimur trilljónum dollara til að lyfta þessu guðsvolaða landi upp úr ofstækismyrkri íslam og talíbana undanfarin 20 ár eða 250.000.000.000.000 krónum ef lesendur skilja upphæðina betur þannig skrifaða. Af þessari upphæð lögðum við Íslendingar okkar skerf til þess að freista þess að leysa Afgana, ekki síst konur og börn, úr helfjötrum heimsku, hrottaskapar og haturs.
Fyrir aðeins nokkrum dögum heyrðum við Bandaríkjaforseta segja að engin ástæða væri til þess að hræðast valdatöku talíbana þótt hann hefði snöggt afturkallað heri sína þar sem bandarísk yfirvöld hefðu útbúið 300.000 manna hersveitir stjórnarinnar í Kabúl með öllum bestu vopnum sem völ væri á, þar á meðal flugher, en heilögu stríðsmennirnir, mujaheddín, hefðu aðeins um 75 þúsund manns undir vopnum (ryðguðum og brotnum?). Talíbanar ráða nú yfir öllum þessum vopnabúnaði. Sú staðreynd er skelfileg. Ekki bætir úr skák að þeir opnuðu fangelsi Kabúlstjórnarinnar sem geymdu marga hörðustu hryðjuverkamenn al Kaída og aðra stríðsmenn fyrir utan alla þá illvirkja sem nú streyma þar að. Aðeins tímaspursmál hvenær þeir fara í útrás til að heyja sitt jihad, einnig á Vesturlöndum. Þáttur í jihad er raunar svokallað hijra, þ.e. flutningur múslíma til annarra menningarheima, en það er einmitt sá hluti af jihad sem ráðamenn, sem ekkert kunna í íslam, eru svo samvinnufúsir með!
Biden lofaði jafnframt að heimurinn myndi ekki sjá aftur sambærilegar fréttamyndir og þegar Saigon féll 1975. Örvæntingarfullum Saigon-búum var hrint til baka þegar þeir reyndu að klifra yfir girðingar sendiráðsins til að komast í björgunarþyrlur Bandaríkjanna. Fréttamyndir frá Kabúl núna eru sumar óbirtingarhæfar, t.d. af fólki sem batt sig utan á flugvélar en fraus eða hrapaði til bana þegar þær tókust á loft.
Biden er ekki einn stjórnmálaforingja heimsins um að skilja ekki ástandið í Afganistan. Þeir telja sér það til framdráttar að kunna nær engin skil á íslam, sem ræður þó för. 250.000 þúsund milljarðar og 300 þúsund hermenn með bestu vopn heimsins eru ekki tölur sem réðu úrslitum í Afganistan. Þar voru aðrar tölur. Fyrir liggur niðurstaða amerísku Pew Research Center frá 2013 sem kortlagði mat múslíma á hlutverki íslam. Heil 99% íbúa Afganistans töldu að sjaríalög ættu að liggja til grundvallar stjórn landsins. Vera kann að síðustu átta ár hafi eitthvað slegið á þessar tölur en framgangur talibana núna sýnir ljóslega að sú breyting er aðeins óveruleg og að hugmyndafræði talibana hefur yfirgnæfandi stuðning.
Þessi skrif munu í engu breyta ástandinu í Afganistan en þau eru ákall til íslensku þjóðarinnar, sérstaklega ráðamanna, að kynna sér hugmyndafræðina íslam. Ég geri mér grein fyrir því að það er talið jafnast á við fólsku að lesa sér til með vitrænum hætti um þessa hugmyndafræði, sem er að teygja sig til okkar í sívaxandi mæli til að hremma okkur í sína hörðu kló. Þeir, sem vilja vera í forystu, verða stundum að gera meira en gott þykir.
Vísasta leiðin til að flýta fyrir þeirri þróun sem er í hröðum gangi um öll Vesturlönd er að flytja inn múslíma og þá sérstaklega frá löndum eins og Afganistan þar sem 99% trúðu til skamms tíma að talibanar, Boko Haram, al Kaída, ISIS, Hamas o.s.frv. væru góðu gæjarnir og trúa vísast enn. Það er einnig jafn víst að einhverjir liðsmenn þessara samtaka munu blanda sér í hóp flóttamanna, sérfræðingar í morðum, limlestingum, glæpum og nauðgunum. Þeir eiga sér kannski ekki skoðanabræður í háskólum landsins, hjá fjölmiðlunum og hjá stjórnmálaforystunni þó að þekkingarleysið þar á íslam jafngildi stuðningi við framrás þessara myrku afla.
Það er alla vega ekki að sjá að bitur reynsla margra Evrópuþjóða af innflutningi þessarar hugmyndafræði sé þeim víti til varnaðar. Reynslan hefur sýnt það ljóslega að múslímar aðlagast ekki vestrænum gildum nema í algjörum undantekningartilvikum. Innflutningur á hundruðum Afgana til landsins mun engu breyta um hörmungar afgönsku þjóðarinnar en mun stórskaða framtíðarhagsmuni landsins. Aðeins Afganar geta breytt ástandinu til hins betra hjá sér.
Athugasemd: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.
Athugasemdir
Þakka þín fróðlegu skrif.
Egilsstaðir, 26.08.2021 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 26.8.2021 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.