Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

8276 Kjósum ábyrgð

Ég berst m.a. fyrir þeim breytingum á stjórnarskrá, að Forseti verði kosinn sérstaklega og hafi svipuð völd og forseti Bandaríkjanna og Frakklands.  Hann yrði þá ábyrgur fyrir því sem gert væri og ekki gert.  Forseti mundi velja ráðherra og þá yrðu ráðherrar valdir út frá þekkingu og hæfileikum, sem væri grundvallarbreyting frá því sem við búum við í dag.

Aðskilja verður betur löggjafar- og framkvæmdavald.

Kjósum ábyrgð.  Höfnum stjórnmálalegri upplausn.


8276 Kjósum gegn kvóta

Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur ítrekað lýst þeirri skoðun sinni í skoðanakönnunum að það sé á móti gjafakvótakerfinu.

Þegar kosið verður til Stjórnlagaþings skiptir máli að raddir þeirra sem vilja að auðlindir þjóðarinnar verði nýttar í þágu fólksins í landinu heyrist þannig að eftir verði tekið og stjórnarskránni breytt með þeim hætti að Við Fólkið -  Við Þjóðin fáum ævarandi eignarrétt yfir sameiginlegum auðlindum.

Ég óska eftir þínum stuðningi til þess að berjast á vettvangi Stjórnlagaþingsins fyrir réttlátri skiptingu arðsins af þjóðarauðlindunum þannig að allir borgarar í landinu njóti hans að jöfnu. Ég hef á undanförnum árum lagt mikið í sölurnar til að berjast gegn því óréttlæti sem gjafakvótakerfið er. Ef við eigum samleið þá bið ég um þinn stuðning í kosningunum á laugardaginn.  

Númer mitt er 8276

 


Alviturt og algott yfirvald er ekki til

Hrunið á að hafa kennt þjóðinni að alviturt yfirvald, sem gætir með velvild og umhyggju örgyggis og velferðar þjóðarinnar,  er ekki til. Hrunskýrslan gerir okkur hins vegar alveg ljóst, sem margir þóttust raunar vita áður, að stjórnsýslan er öll á ótrúlega lágu plani. Hér er enginn í hlutverki hins alvitra föður sem allt sér, allt veit og gætir að hagsmunum þjóðarinnar nótt og nýtan dag. Stjórnvöld eru skipuð misvitrum mönnum sem margir hafa reynst illa vandanum vaxnir.

Þjóðin verður sjálf að vera í þessu hlutverki. Hún verður að tryggja að hún hafi aðgang að öllum upplýsingum sem hana varðar. Laumuspil er yfirleitt til þess eins að misfara með hagsmuni þjóðarinnar til hagsbóta fyrir sérhagsmuni. Auðvitað geta verið upplýsingar sem varða persónulega hagi fólks og sérstakar aðstæður á hættustund. Almenna reglan á að vera sú að allar upplýsingar á vegum hins opinbera eiga að vera aðgengilegar öllum.

Í starfi mínu sem blaðamaður kynntist ég því hve embættismenn ýmsir höfðu ríka tilhneigingu til þess að reyna að leyna upplýsingum sem vörðuðu almenning. Stundum var þetta leynimakk hlægilegt og bjánalegt en stundum var það alvarlegt og varðaði hag almennings.

Hins vegar kom það fyrir að upplýsingar, sem eðli sínu samkvæmt áttu að fara leynt, láku til vildarvina. Þannig er mér minnisstætt að árin, sem verðbólgan var hve trylltust, vissi ég stundum um gengislækkun með góðum fyrirvara og með nákvæmi upp á aukastafi.  Þegar slíkar upplýsingar voru látnar leka út til vildarvina var verið að gefa þeim tækifæri til gengisgróða sem aðrir höfðu ekki.

Við eigum fulla kröfu til þess að fá að vita allt sem ríkisstjórn og ráðuneyti aðhafast nema í algjörum undantekningartilvikum. Ráðherrar og starfsfólk ráðuneytanna eru í þjónustu þjóðarinnar. Þeir eru þjónar þjóðarinnar en ekki herrar.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276

 

Kvótakerfið er tilræði við þjóðina

Mikil er ágæfa okkur Íslendinga um þessar mundir að ekki hefur tekist að ná fram vitrænni niðurstöðu um fiskveiðistjórnunina. Fjöldi Íslendinga veit og hefur haldið því fram um árafjöld að kvótakerfið er að ræna þjóðinni feiknalegum verðmætum á hverju ári og dæma okkur til miklu verri lífskjara en við gætum haft.

Í dansinum tryllta í kringum gullkálfinn sem stiginn var hér fram að hruni var búið að sannfæra þjóðina um að hlutskipti hennar væri ekki að lifa af sjávarafla heldur af því að vera lang flottasta þjóð heims í bankaumsvifum og viðskiptafléttum um veröldina víða. Þegar aðrir sætu hræddir og bældir frammi fyrir tækifærunum væri okkur gefin sú náðargáfa að ganga ákveðin og djörf til stórra ákvarðana. Það blundaði Alexander mikli í hverjum Íslendingi.

Þrátt fyrir ónotalega lendingu úr háloftaferðum heimsviðskiptana hefur ekki ennþá fengist að ná fram vitrænni umræðu um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Sjávarauðlindin er og hefur alltaf verið ein helsta forsendan fyrir því að lífvænlegt er í landinu. Ekkert skiptir meira máli en að auðlindin sé nýtt af skynsemi.

Samt fást menn ekki almennt til þess að horfast í augu við það að kvótakerfið, alveg óháð því hvernig veiðiheimildum er úthlutað, er að hafa af þjóðinni feiknalegar tekjur og hefur gert undanfarna áratugi.

Landað veiðimagn af þorski, sem er lang verðmætasta fisktegundin, er aðeins einn þriðji hluti þess sem það var áratugum saman fyrir daga kvótakerfisins. Það er öldungis ljóst að samdrátturinn í lönduðum afla er bein afleiðing kvótakerfisins. Allir sjómenn vita og sumir fiskifræðingar viðurkenna að þorskmagnið í sjónum er ekkert minna en það var. Feiknalegu magni er hent í sjóinn aftur vegna þess að þeir sem fá þorskinn óvart sem meðafla hafa ekki kvóta fyrir honum. Á sama tíma og fiskútflytjendur kvarta undan því að verðmætir saltfiskmarkaðir okkur séu að glatast í hendur Norðmanna hitti ég sjómenn sem segja mér frá brottkasti þorsks.

Höfum við efni á því lengur að fara svona með tækifærin. Ég held því fram að með því einu saman að nýta fiskmiðin  af skynsemi gætu við snúið efnahagi landsins aftur til betri vegar. Eðlilegur þorskafli sem væri 4-500 þúsund tonn af ári myndi auka þjóðartekjurnar um tugi prósenta.  Við myndum sigla upp úr öldudalnum á 3-4 árum. Sjávarbyggðin allt umhverfis landið myndi lifna við allri þjóðinni til blessunar.

Það er tilræði við framtíð þjóðarinnar að halda í kvótakerfið. Kvótastýring á fiskimiðum er ófær leið. Gjafakvótakerfið stríðir gegn stjórnarskrá landsins og mannréttindayfirlýsingu SÞ. Gjafakvótakerfið er smánarblettur á Íslendingum. Þennan blett verðum við og getum máð af okkur.

 

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276  


 

Óheyrileg sóun vegna kjördæmaskipunar

Á kosningafundi á Siglufirði  vorið 2003 hélt ég einn frambjóðenda því fram að gerð Héðinsfjarðarganga væru óðs manns æði. Þau kostuðu 6-7 milljónir króna á hvern íbúða á Ólafsfirði og Siglufirði. Fyrir vexti og rekstrarkostnað af framkvæmdinni gæti hver og einn einasta íbúi þessara tveggja bæja komist einu sinni í mánuði með flugi fram og til baka til New York á því verði sem flugfélögin auglýsa með flugvallarsköttum um aldur og ævi eins lengi og land byggist. Kostnaðurinn við gerð ganganna tveggja samsvaraði meira en verðmæti allra fasteigna í bæjunum.

Á þessum tímapunkti voru farnar að renna tvær grímur á fjárveitingavaldið og sumum að verða það ljóst hvílíkt reginbrjálæði það væri að gera svo dýr samgöngumannvirki fyrir svo fámenn byggðarlög sem í þokkabót væru að dragast  saman jafnt og stöðugt vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Einnig þar sem ljóst er að sjálf göngin munu enn fækka íbúum bæjanna beggja vegna þess m.a.að nú verður unnt að samnýta ýmislegt það sem aðskilnaður bæjanna leyfði ekki áður og vegna þess að nú verður auðveldara að veita þjónustu t.d. við Siglufjörð lengra að.

Íbúum Flateyrar, Suðureyrar við Súðandafjörð og Ísafjarðar fækkaði verulega eftir að göng tengdu bæina saman. Það stefnir því allt í það að allir íbúðar Ólafsfjarðar og Siglufjarðar gætu farið á Saga-klass til New York einu sinni í mánuði fyrir kostnaðinn við gerð ganganna.

En frambjóðendum var mikið í mun að fá atkvæði fólksins í þessum tveimur bæjum og hétu því að ekki yrði hætt við þessar framkvæmdir. Sá frambjóðandinn, sem seinna varð samgönguráðherra,  hélt því fram að gerð ganganna væri arðbærasta framkvæmdin sem þjóðinni stæði til boða!

Tveimur mánuðum eftir kosningarnar ákvað ríkisstjórnin að hafna öllum tilboðum sem höfðu borist í verkið  og bar fyrir sig þennslu í efnahagslífinu og frestaði framkvæmdum um óákveðinn tíma. Einhver skynsemisvottur kannski að síast inn. Nýkjörnir þingmenn kjördæmisins höfðu hinsvegar allir gefið loforð fyrir delluna og komu framkvæmdum í gang með góðu og illu og notuðu öll meðöl nema umhyggju fyrir heildarhagsmunum þjóðarinnar til að koma verkinu af stað.  Pólitísk framtíð þeirra var í húfi.

Þetta er eitt af hörmulegustu dæmum um það tjón sem kjördæmaskipan á Íslandi kemur okkur í sem Þjóð aftur og aftur. Þeim mun ekki linna fyrr en kjörnir fulltrúar þurfa að standa reiknisskil frammi fyrir öllum landsmönnum vegna þess að landið er eitt kjördæmi. Þá þyrfi frjáveitingavaldið að skoða heildarhagsmuni landsins en þeir eru m.a. þeir að nýting landsgæða og mannlíf sé sem best um land allt. Þá þurftum við kannski ekki að lesa fréttir um ráðherra sem láta undan þrýstingi kjördæmisþingmanna og  greiða 30 milljónir króna úr okkar sameiginlega kassa að óþörfu. Hér væri unnt að taka fjölda dæmi af þessu tagi.


Við erum þjóðin

Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa skellt skollaeyrum við háværum kröfum íslenskra kjósenda í áratugi um breytta stjórnarskrá. Þeir hafa haft  tækifæri til þess alveg síðan 1944 að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að hafast mikið að.  

Við stöndum nú í rústum okkar unga lýðveldis m.a. vegna óhafandi starfsemi stjórnmálaflokkanna.  Þeir hafa í allt of miklum mæli fyrst og fremst verið að sinna flokkshagsmunum sínum en hafa gleymt hagsmunum þjóðarinnar.  Augljós krafa þjóðarinnar er að stjórnmálaflokkarnir haldi sig fjarri stjórnlagaþinginu. Nú á þjóðin leik.  

Nú vill þjóðin setja leikreglurnar sem stjórnmálaflokkarinar eiga að fylgja. Það er ekki stjórnmálaflokkanna að setja reglurnar sem þjóðin á að fylgja í sína þágu en gegn hagsmunum þjóðarinnar. Valdið á  að stafa frá þjóðinni, - ekki frá stjórnmálaflokkunum eins og raunin hefur verið. Það er t.d. þjóðarinnar en ekki stjórnmálaflokkanna að ákveða hvort stórkostlegum upphæðum af almannafé skuli varið til starfsemi flokkanna. Þjóðin á að láta sig það varða hvort spilltir kjördæmastjórnmálamenn taka ákvarðanir gegn þjóðarhagsmunum til þess að þjóna pólitískum hagsmunum sínum heima í kjördæmi eins og það er kallað en slík vinnubrögð hafa einkennt íslensk stjórnmál alla tíð.

  •  Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinnt ákalli þjóðarinnar um afnám kvótakerfisins.
  •  Stjórnmálaflokkarnir hafa hunsað niðurstöðu dómssóla, íslenskra og erlendra um óréttmæti þess.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki  sinnt ákalli þjóðarinnar um jafnan atkvæðarétt.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinnt ákalli þjóðarinnar um að gera landið að einu kjördæmi.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinn ákalli þjóðarinnar um persónukjör.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinnt ákalli þjóðarinnar um skíra þrískiptingu valdsins.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinnt ákalli þjóðarinnar um heiðarleika í skipum embætta.
  • Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sinnt ákalli þjóðarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Stjórnmálaflokkarnir telja að  valdið stafi frá þeim.
Nú ber þjóðin vonandi gæfu til þess að hafna öllum fulltrúm stjórnmálaflokka til setu á stjórnlagaþingi.  Við þurfum að kjósa fólk sem vill þjóna hagsmunum þjóðarinnar en ekki stjórnmálaflokkanna. Fulltrúar okkar eiga að vera þjónar okkar, - ekki herrar. Guð forði okkur frá stjórnmálamönnum í framtíðinn sem segja við okkur þegar okkur blöskrar: Þið eruð ekki þjóðin! Þeir segja nefnilega þegar enginn heyrir til : Það erum við sem erum þjóðin!!! 

Hættulegir öfgamenn í Ýmishúsinu

Flestir virðast telja að í ákvæðum stjórnarskrárinnar um trúfrelsi felist réttur hvers sem er til þess að boða hvaða trú sem er. Svo er ekki. Í 63. greininni segir:   " Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu." Samfélag okkar er því ekki eins opið og varnarlaust gegn ofstæki og ofstopa eins og margir virðast telja. Gæta verður að því að hrófla ekki við þessum skilyrðum við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ef grunur margra er réttur um að Wahhabi múslímar í Saudi Arabíu standi að baki hugmyndum um byggingu mosku hérlendis og stofnun Kóran-skóla ( madrössu) eða að stofnun og byggingu  þessara múslímsku stofnanna verði kostuð frá Saudi Arabíu er full ástæða til þess að bregðast hart við. Wahhabi múslímar iðka Islam í sinni öfgafyllstu og upprunalegustu mynd. Þeir halda ofstækis- og ofbeldisfullum trúarskoðunum svo mjög á lofti að horfir til vandræða um heim allan en það gera einnig fleiri hópar meðal múslima.

 

Vandræðin við Islam er hvað það er óskiljanlegt kristnum mönnum vegna dualisma, tvíhyggunnar. Þess vegna lenda margir góðviljaðir menn í þeirri gildru að líta eingöngu til notalegra setninga í Kóraninum en skoða hann ekki eða Islam í víðara samhengi. Kristnir menn líta almennt á Biblíuna sem mannanna verk og því ástæðulaust að taka mark á ýmsu t.d. í Gamla testamentinu sem samræmist ekki kenningu Jesú í Nýja testamentinu.

Múslímum stendur ekki til boða að velja og hafna. Þeir líta á Kóraninn sem orðrétt skilaboð til Muhameds frá Allah í gegnum erkiengilinn Gabríel. Allt í Kóraninum er óumbreytanlegt og getur verið lífshættulegt að hæðast að því. Okkur upplýstum vesturlandabúum þykir þetta auðvitað gjörsamlega fáránlegt en fjöldinn allur af trúuðum múslímum hafa verið innrættir með þetta frá blautu barnsbeini. Fyrir þeim er þetta svo fúl alvara (í orðsins fyllstu merkingu) að hófsamir múslimar þora ekki að æmta né skræmta nema ótrúlega hugrakkir einstaklingar sem hafa margir hverjir búið við stöðugur lífslátshótanir og þurfa að fara huldu höfði undir vernd lífvarða.

Enginn þarf að efast um að 80% múslíma er friðsamt fólk sem vill lifa í sátt og samlyndi við aðra trúarhópa en því miður fá þeir litlu ráðið eins og stendur þó að vona verði að þeim vaxi ásmeginn. Miklu skiptir að sýna þessu fólki stuðning og hvatningu.

Þegar það er haft í huga að 80% af moskum á Vesturlöndum er stjórnað af ofstopafullum imömum (foringjum) í nafni Islam er mikið í húfi að fylgst sé náið með múslímum nota sér trúfrelsið hér á landi. Lögregluyfirvöld og þjóðkirkjan mega ekki sofa á verðinum. Almenningur á heldur ekki að láta í sjálfu sér aðdáunarvert umburðarlyndi hindra sig í að skoða tilburði islamista til þess að ná Ísland undir Islam en það eru yfirlýst markmið þeirra og að koma hér á Sharíalögum.

Imami múslíma á Íslandi telst til hófsamra múslíma enda hefur hann búið hér í 40 ár. Hann hefur varað mjög við þeim mönnum sem stefna að því að hefja starfsemi í Ýmishúsinu og telur þá vera hættulega öfgamenn.


Lítil dæmisaga um misnotkun valdsins

Vinur minn, sem var sjálfstæður atvinnurekandi, stóð frammi fyrir þeirri skyldu að velja sér ljóseyrissjóð, þegar aðild að lífeyrissjóðum var gerð að skyldu með lögum árið 1998. Honum varð fljótlega ljóst að hvergi voru betri kjör að fá heldur en í Lífeyrissjóði ráðherra. Hann sótti því um aðild að lífeyrissjóðnum en umókn hans var synjað.

Hann vissi vel hvaða afgreiðslu umsóknin fengi en hún var auðvitað til marks um það hvað honum blöskraði mismununin í lífeyrisréttindum landsmanna. Hún var mikil en fór alveg úr böndunum við lög  2003/ 141 um eftirlaun fyrir forsetann, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara. Þá samþykkti Alþingi lög sem vonandi munu ávalt verða tilefni til hneykslunar.

 Samkvæmt þeim naut t.d. forsætisráðherra sem sat í meira en eitt ár sömu eftirlaunakjara og forseti íslands og fékk 60% af heildarlaunum forsætisráðherra eins og þau eru á hverjum tíma, þ.e. ráðherralaunum og þingfararkaupi. Fyrir að greiða 5% af launum sínum í eitt ár og einn dag sem gerði núna u.þ.b. 600 þúsund krónur (og draga það frá tekjum fyrir skatta) fær hann sem svarar 600 þúsund  krónur á mánuði  út ævina eftir 60 ára aldur ( jafnvel 55 ára aldur miðað við ákv forsendur) en sú upphæð myndi þó hækka ef ástæða þætti til að hækka ráðherralaun og þingfararkaup. Ef þessi maður lifði til 100 ára aldurs væru skattborgarinnar búnaðir að greiða honum framlag hans 480 sinnum til baka með verðbótum og almennum lífskjarabótum æðstu ráðamanna.

 

 Eftirlaunaréttindi þessa manns hefðu svo hækkað í 70% eftir eitt kjörtímabil og 80% eftirt tvö kjörtímabil. Eftir átta ára þjónustu við okkar urðum við sem sagt að halda honum uppi með 800 þúsund krónum á mánuði út alla ævina fyrir utan allar þær lífeyrisgreiðslur sem á hann hefðu hlaðist fyrir önnur störf á okkar vegum. Þannig verður ekki annað séð en að ef hann hefði einnig setið í 23 ár á þingi fengi hann einnig 70% af þingfararkaupi ofan á eftirlaunaréttinn sem forsætisráðherra. Þannig fengi hann auk ráðherralaunanna samtals 150% af þingfararkaupinu eins og það væri hverju sinni!! (Þetta síðasta kynni þó að vera misskilningur ,- háttsettur starfsmaður Alþingis sem ég spurði var ekki viss í sinni sök). Ef þetta væri svo væri hann að fá núna ca 1.2 milljónir króna á mánuði í eftirlaunagreiðslur. Þessi maður sem hafði unnið í þjónustu okkar í öðrum embættum hefði þannig getað fengið margföld laun æðstu embættismanna út æfina þegar hann settist í helgan stein. Slíkir menn eru til.

Eftirlaunamálin eru flókin en svo tekið sé dæmi fær hæstaréttardómari sem var skipaðurs fyrir 25. apíl 2009 þegar lögin voru afnumin,  6% rétt til eftirlauna fyrir hvert ár. Eftir 13 ár í starfi fær hann 80% af fullum launum hæstaréttardómara eins og þau verða í framtíðinni. Þau bætast ofan á annan eftirlaunarétt sem hann hefur áunnið sér.

Þegar þessi lög voru afnuminn 2009 sátu margir eftir í vinningsliðinu og höfðu áunnið sér ósæmilegan rétt sem við þurfum að  standa undir meðan þeir lifa. Lögin eru til marks um hvað valdið getur gjörsamlega misst fótanna og hve nauðsynlegt er að því séu settar skorður með vel unninni stjórnarskrá sem kveður á um jafnræði þegnanna.

Lífeyrisrétturinn er einn af fjölda mörgum þáttum sem þarf að horfa til. Hann er flókinn og torskilinn eins og nú er. Vinna þarf að því að sami réttur gildi um alla landsmenn, - hvort sem það væri einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn eða fleiri sjóðir sem allir bjóða upp á sömu réttindi.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276  


Þjóðaratkvæðagreiðsla er öflugt tæki gegn spillingu

Mörgum, sem vilja þjóðinni vel, hefur yfirsést hve voldugt tæki þjóðaratkvæðagreiðsla er. Þeim hættir til að vanmeta þjóðina en ofmeta kjörna fulltrúa hennar til þess að komast að „réttri“ niðurstöðu. Í löndum eins og Sviss þar sem mikil reynsla hefur fengist af Þjóðaratkvæðagreiðslu er reynslan mjög góð.

 Þeir sem hafa skoðað stjórnmálasögu Sviss fullyrða að svissneska þjóðin hafi aldrei tekið „ranga“ ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt verður ekki sagt um nokkurt þjóðþing og síst af öllu um Alþingi. Ég minni á alvarleg mistök eins og kvótalögin, lögin um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og lögin um Icesave sem voru einmitt felld í þjóðaratkvæðagreiðslu .

Ef unnt yrði að koma rétti þjóðarinnar til þess að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu inn í stjórnarskránna hefur þjóðin fengið mikilsverðan öryggisventil gegn fláráðum stjórnmálaflokkum. Við höfum orðið vitni að því í gegnum tíðina hvernig stjórnmálaflokkarnir hafa endurtekið haft augljósar óskir þjóðarinnar að engu. Þannig hefur krafan um afnám kvótakerfisins, krafan  um jafnan atkvæðarétt og krafan um að landið sé eitt kjördæmi verið hunsuð.

Allir vita að þjóðin hefði aldrei samþykkt óhóflega eyðslu  í svo galnar framkvæmdir eins og Héðins- og Siglufjarðargöng. Ef landið væri eitt kjördæmi myndi Alþingi aldrei detta til hugar að að vinna svo gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar að fara út í svo augljóslega óarðbæra framkvæmd. Þjóðin hefði heldur aldrei sætt sig við fjáraustur stjórnmálaflokkanna í sjálfa sig og sérdræg eftirlaunalög æðstu stjórnmála- og embættismanna.

En Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki aðeins vörn þjóðarinnar gegn voðaverkum sem þegar hafa verið unnin gegn hagsmunum hennar. Hún er refsivöndurinn sem hengi yfir Alþingi alla daga ef fulltrúum þjóðarinnar dytti til hugar að ganga gegn augljósum vilja eða hagsmunum þjóðarinnar vegna vilja til þess að þjóna fjársterkum eða voldugum sérhagsmunaaðilum eins og og við höfum séð þá gera svo lengi og svo margítrekað.

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur einnig þann augljósa kost að umræður um málið sem væri deilt um yrði tekið til rækilegrar skoðunar af fjölda fólks út um allt samfélagið. Umræður af því tagi eru mjög hollar og eru einmitt einn höfuðkostur lýðræðisins.

Við höfum ekki efni á því leiðtogaræði sem hér hefur ríkt til fjölda ára. Allir vita að óbreyttur Alþingismaður hefur litla vigt þegar teknar eru ákvarðanir. Þær eru oftar en ekki teknar hjá sérhagsmunaaðilum sem vinna með flokkseigendaklíkum og embættismönnum sem hafa valist til starfa vegna tengsla við sömu sérhagsmuni eða einkavini flokkseigenda.

Spillingu íslenskrar stjórnsýslu þarf einfaldlega að ljúka. Sú krafa þarf að endurspeglast í vali fulltrúa inn á stjórnlagaþingið.

Auðkennistala mín á kjörseðlinum er  8276   

 


Vill þjóðin aukinn aðskilnað?

Þeir sem nú sækjast eftir sæti á stjórnlagaþing þurfa ekki að taka afstöðu til þess hvort fella eigi niður 62. grein stjórnarskrárinnar eða ekki. Greinin hljóðar svo:  Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

 Val manna inn á stjórnlagaþing mun klárlega ekki endurspegla vilja þjóðarinnar til þessa máls. Það væri því í meira lagi hæpið að stjórnlagaþing færi að ráðgast með þjóðkirkjuna, - ekki síst þar sem enginn veit hver er hugur þjóðarinnar til málsins. Hæpið meira að segja að þjóðin viti sjálf hug sinn til málsins fyrr en ítarleg umræða hefur farið fram um það.

 Mér er til efs að þjóðin hafi almennt mikla skoðun á málinu. Ég tel að flestir séu nokkuð sáttir við stjórnlagaskipun trúmála. 63. grein stjórnarskráinnar kveður á um trúfrelsið: " Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu."

 Ég er sjálfur almennt þeirrar skoðunar að kirkja og ríki eigi að vera aðskilin. Ég er sem sagt sammála Jesú, sem segir í Markús 17/12:  "Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."

 En vilji minn til málsins gæti sem best komið fram í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Við eigum að bera mál eins og þetta og fjöldamörg önnur undir þjóðina sjálfa. Hún á að ráða skipan mála. Engin leið er til þess að vilji þjóðarinnar til mála eins og þessa endurspeglist í kjöri fulltrúa inn á löggjafaþing. Mitt vægi í þessu máli á að vera eitt atkvæði innan um öll atkvæði þjóðarinnar.

 Ég tel ekki tímabært núna að fara í svona breytingar. Til þess þarf miklu meiri umræðu en rúm er fyrir núna. Ísland byggir á kristnum gildum, menning okkar hvílir mikið á kristni. Við þurfum að standa vörð um þau gildi, sérstaklega núna þegar mjög er sótt að þeim. Ég er kristinn maður þó að ég sé ekki trúaður.

 Ég tel hins vegar að ríkiskirkjan þurfi að fara í mikla naflaskoðun og kanna hvernig staðan hennar myndi breytast við aukin aðskilnað ríkis og kirkju. Ég óska kirkjunni alls hins besta og tel verkefni hennar mikilvægt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Valdimar H Jóhannesson
Valdimar H Jóhannesson

Höfundur berst gegn gjafakvótanum.

Netfang: vald@centrum.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband